16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

1. mál, fjárlög 1955

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir gott boð og ætla að nota það og segja hér nokkur orð um þá till., sem ég ásamt hv. 4. landsk. (GJóh) hef leyft mér að flytja hér á þskj. 305.

Till. er um það að veita Siglufjarðarkaupstað allt að 4 millj. kr. framlag til að byggja upp atvinnulífið í kaupstaðnum, enda hafi bæjarstjórnin samráð við ríkisstj. um það, á hvern hátt þessu fé verði varið.

Hv. aðalflm. till. gerði rækilega grein fyrir henni hér í kvöld, og skal ég því vera stuttorður um hana. Ég hef ásamt hv. 11. landsk. (LJós) áður flutt heildartill. um fjárframlög af hendi ríkissjóðs til eflingar atvinnulífsins í 3 kaupstöðum landsins, sem nú búa við atvinnuleysi. Þessi till. hefur verið drepin. Þá taldi ég ekki úr vegi, að það væri prófað, prófað til þrautar, hvort hæstv. ríkisstj. og hennar fylgislið hér á Alþ. væri jafnskilningslaust á að taka fyrir smærri áfanga og sinna atvinnulífi þess staðar, sem tvímælalaust er nú verst haldinn sökum atvinnuleysis, af ástæðum, sem öllum eru ljósar, sem sé þeim, að síldveiðar hafa brugðizt um 10 ára skeið, en þessi kaupstaður hins vegar byggður svo að segja upp að öllu leyti á síldveiðum og síldariðnaði. Það er ríkið sjálft, sem hefur, eins og hv. 4. landsk. benti á, átt mestan þátt í því að byggja þar þau atvinnutæki, sem eru þess valdandi, að atvinnulíf bæjarins varð mjög einhæft og byggðist að öllu leyti á síld og síldariðnaði. Þegar síldin svo ekki veiðist, þá er fátt um önnur atvinnutæki í bænum, atvinnuleysi gín þar fyrir hvers manns dyrum, og fólkið verður að flýja bæinn. Það er svo komið, að útlit er fyrir, að Siglufjarðarkaupstaður sé á líkri leið og Sléttuhreppur fyrir svona 14 árum. Þegar hætt var að reka síldarverksmiðjuna á Hesteyri og íbúar hreppsins voru atvinnutækjalausir í einu vetfangi og voru búnir að mæta þannig þessum straumhvörfum í atvinnulífi þeirra, þá tóku ungu mennirnir sig upp og leituðu atvinnu suður á landi og þar sem atvinnu var að fá og komu fáir heim aftur. Og eldra fólkið, sem eftir sat, flutti sig svo að síðustu burt og hreppurinn lagðist gersamlega í eyði. Hér er að vísu um allstóran kaupstað að ræða, en það er ekki hægt að sjá annað en að þarna sé þróunin á sömu leið vegna þess að undirstaða atvinnulífsins hefur brostið, a.m.k. í bili. Þegar eitt og tvö hundruð manns flytja burt úr bænum á ári hverju, þá eru það engar ýkjur, þó að sagt sé, að þarna blasi það við, að bæjarfélagið sé jafnvel að tærast upp og leggjast í eyði.

Það er farið fram á það, að varið sé 4 millj. kr. til þess að bæta þarna atvinnuástandið. Það er þörf á að útvega marga fiskibáta í bæinn, sökum þess að þar er ákaflega lítill vélbátafloti fyrir hendi, og nú hefur verið byggt þarna upp hraðfrystihús, sem þarf aukið hráefni, og verður ekki bætt úr því á annan hátt fremur en með því að byggja upp vélbátaflota í Siglufjarðarkaupstað. Efnahagur fólks er það þröngur, að þetta gerist ekki, nema því aðeins að ríkið rétti þarna hjálpandi hönd.

Nú, 4 millj. kr. í eitt bæjarfélag, það segja menn auðvitað að sé há upphæð, og það er það kannske. En ég tel það nú ekki háa upphæð, þegar fjárhagur ríkisins leyfir að dreifa út á 7. millj. kr. bara samkv. viðbótartill. fjvn. núna, sem liggja hérna fyrir, í smáupphæðir til Péturs og Páls, sem hefðu áreiðanlega getað lifað án þess að fá þær upphæðir, sem þar er um að ræða. Og þjóðfélagið hefði áreiðanlega hjarað af, þó að ekki hefði verið lagt neitt til neinna þeirra útgjaldaliða, sem eru hluti af þeim 6–7 millj. kr., sem þar er um að ræða. Með þessu móti væri hægt að gera þær ráðstafanir í atvinnulífi Siglufjarðar, sem gerðu fólkinu þar mögulegt að lifa, þó að síldveiðin kunni að bregðast enn um nokkur ár, og vel getur farið svo.

Mér heyrðist, að hv. þm. Siglf. (EI) væri raunar að mæla á móti þessari till., þegar ég kom hér inn í þingsalinn áðan, en þó gladdi það mig að heyra, að hann endaði ræðu sína á því að segja, að hann mundi að sjálfsögðu greiða atkv. með henni og öðrum þeim till., sem fluttar hefðu verið til þess að bæta úr ýmsum þörfum Siglfirðinga.

Ég bendi á það, að sums staðar hefur verið lagt fram fé til styrktar atvinnulífinu, en það hefur verið gert á þann hátt, að það hefur hvorki verið heilt né hálft. Ég minnist t.d. þess, að Seyðisfjarðarkaupstaður fékk á sínum tíma aðstoð til þess að eignast togara, og togari er mjög þýðingarmikið atvinnutæki í eins litlum kaupstað og Seyðisfjarðarkaupstaður er, en svo var látið þar við sitja. Í kaupstaðnum var ekkert hraðfrystihús, engin aðstaða til þess, að togarinn gæti komið að landi með afla og skapað fólkinu í Seyðisfjarðarkaupstað atvinnu. Þar var ekki ísframleiðsla, þar voru ekki olíutankar, til þess að togarinn gæti birgt sig upp með olíu, þegar hann kæmi úr veiðiför og legði aflann þarna á land. Það var engin aðstaða til þess, að togarinn gæti að jafnaði komið þarna með afla að landi til þess að skapa atvinnu í bænum. Úr því að Seyðfirðingar áttu að fá sína aðalatvinnuhjálp með togara, þá þurfti að leggja fram fé til þess, að togarinn gæti haft þar aðalbækistöð sína og lagt þar hráefni á land, svo að fólkíð fengi af því vinnu. En togari, sem þarf svo, þegar hann hefur lagt afla sinn á land á Seyðisfirði, að fara til Reykjavíkur til að fá ís, olíu og aðrar þarfir sínar, fer auðvitað ekki til Seyðisfjarðar til þess að leggja þar afla á land.

Svona nokkuð er hálfverk, og það er ekkert eins vitlaust frá sjónarmiði ríkisins, ef það ætlar að verja fé sínu vel, og að leggja fram stórar upphæðir til hjálpar við atvinnulífið á ýmsum stöðum, en gera það á þann hátt, að það komi ekki að gagni. Það er vitlausasta leiðin, eins og alltaf þegar um hálfverk er að ræða. Það er þá betra að gera hlutina myndarlega og vera viss um það, að aðstoðin komi að gagni. Ég er t.d. mjög hræddur um það, að sú aðstoð, sem samþ. var á Alþ. í gærkvöld að veita togaraútgerðinni, sé einmitt eftir þessu fyrrnefnda miður skynsamlega sjónarmiði og það eigi kannske eftir að sýna sig, að það fé, sem þar var lagt fram, sé lagt fram án þess að bera þann árangur, sem til var ætlazt, að hægt sé að halda togaraútgerðinni gangandi. Skynsamlegra hefði verið að gera nokkru róttækari aðgerðir, veita nokkru meiri hjálp, eins og lagt var til, þannig að nokkurn veginn væri víst, að togaraútgerðin stöðvaðist ekki upp úr áramótum og atvinnulífið fengi af því þann styrk, sem til var ætlazt.

Ég hef farið þessum orðum um þessa till., af því að ég vil brýna það fyrir mönnum, að sá staður hér á landi er nú allra verst farinn sökum atvinnuleysis af ástæðum, sem fólkið á staðnum á engan þátt í og getur ekkert við ráðið, og ástandið orðið það slæmt, að stórfellt átak þarf til. Taldi ég því rétt að stuðla að því, að slík till. sem hér er um að ræða væri borin fram að því er snertir atvinnulífið á Siglufirði, sem sé 4 millj. kr. aðstoð af hendi ríkisins til þess að bæta þar aðstöðuna fyrir fólkið, sem eftir er í kaupstaðnum. Tel ég það vera skynsamlega aðferð til þess, að þarna þyrftu ekki að hljótast stórkostleg vandræði af.

Ég tel, að ef þetta væri gert, þá væri farið inn á þá braut, að tekið væri fyrir og rannsakað atvinnulíf annarra staða, sem þá væru taldir verst settir, eftir að þarna hefði verið bætt úr. Og úr því að Alþ. telur sig ekki fært um að verja stórri heildarupphæð í mikið átak fyrir þá þrjá landsfjórðunga, sem nú búa við tilfinnanlegt atvinnuleysi, þá tel ég hina leiðina vera skynsamlega, að taka myndarlega á að því er snertir staði, sem verst eru farnir og verst eru settir um atvinnu fyrir sína íbúa.

Það er annað höfuðvandamál í þessu landi, sem er torleyst og kannske óleysanlegt; það er húsnæðisvandamálið. Meðan ekki er tekið stórfé til þess að reisa við atvinnulífið á Norðurlandi og Austurlandi og Vesturlandi, streymir fólkið þaðan og hingað til Reykjavíkur og nágrennis hennar, en meðan er húsnæðisvandamálið á Suðvesturlandi algerlega óleysanlegt og það ástand skapast, að hér skortir sífellt húsnæði, en illa notað og ónotað húsnæði bíður svo í þrem landsfjórðungum. Með því að leggja stórar fjárupphæðir til eflingar atvinnulífinu úti á landi er skapaður möguleiki til þess að leysa húsnæðisástandið í landinu. Þá er það minna átak; þá nýtist það húsnæði, sem nú stendur illa notað og ónotað úti um land, og átakið, sem þyrfti að gera í húsnæðismálunum hér, eftir að búið væri að snúa straumnum við, stöðva hann og snúa honum við, væri miklu minna. Húsnæðisástandið á Suðvesturlandi verður ekki leyst, fyrr en búið er að gera stórátak í atvinnumálum landsmanna úti um land, þar sem atvinnuleysið nú herjar.