16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

1. mál, fjárlög 1955

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. N-Ísf. (SB) og hv. 2. þm. Skagf. (JS) að flytja hér brtt., sem er að finna á þskj. 309, nr. IV.

Þessi till. er um það að heimila ríkisstj. að leggja fram allt að 1 millj. kr. til þess að kosta þær ráðstafanir, sem gera verður til bjargar sveitunum vegna verkafólkseklunnar.

Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, þá flutti ég ásamt 2. þm. Skagf. till. hér snemma á þingi um að gera ráðstafanir í þessu efni, og liggur sú till. óafgreidd hjá hv. fjvn. Skal ég taka það fram, að ég tel það mikla vorkunn, þó að hv. n. sé ekki búin að afgreiða þessa till., því að hún hefur haft miklu að sinna að undanförnu, en ég vænti þess, að hún fái þá afgreiðslu, að að gagni megi koma.

Nú er það vitaður hlutur, að eins og stefnan hefur verið og eins og hún er á undanförnum þingum og á þessu þingi og yfirleitt í landinu, þá er unnið að því óbeinlínis á margvíslegan hátt að laða fólkið burt úr sveitunum, vegna þess að það er boðið í það hærra en sveitamennirnir hafa ráð á með því afurðaverði, sem nú er greitt, og það er þess vegna engin tilviljun, að verkafólksskortur í vissum landshlutum fer alltaf sívaxandi. Nú má segja, að þetta sé örðugt að laga og það sé örðugt að nota ríkisvaldið á nokkurn hátt til að laga þennan straum, en ef það væri hægt, þá er ekki miklu til kostað, þó að farið sé fram á að heimila ríkisstj. að láta 1 millj. kr. til hjálpar í þessu efni.

Mönnum hefur fram til þessa þótt það að vísu stór upphæð, 1 millj. kr., en það er nú af sá tími, því að þarna er ekkí eftir núgildandi verðlagi í kostnaði og kaupgjaldi og öðru um stóra upphæð að ræða.

Við skulum segja, að það væri farið að reyna þá leið, sem vel getur komið til mála, að flytja inn fólk handa landbúnaðinum, eins og nú er verið að gera handa sjávarútveginum, og það væri flutt inn svona 1000 manns á næsta ári, konur og karlar. Það svarar til þess, að 15% af sveitaheimilum í landinu gætu fengið eina manneskju. Þá mundi milljónin hrökkva til þess að greiða 1000 kr. á hvern þennan einstakling, sem inn væri fluttur, og það væri ekki einu sinni fyrir fullu fargjaldi hingað heim.

Nú geri ég ráð fyrir því, að það séu margir þeirrar skoðunar, að ríkisvaldið eigi ekkert að skipta sér af þessum hlutum og engu til þessa kosta. En þegar verið er að vinna að því beint og óbeint að auka það vandræðaástand með opinberum ráðstöfunum, sem hér er um að ræða, þá er það ekki undarlegt, þó að mönnum detti í hug að gera einhverjar ráðstafanir til varnar, vegna þess að ef þessi aðstaða heldur áfram, þá stefnir til auðnar í sumum sveitum þessa lands, áður en langir tímar líða.

Varðandi þessa till. er það að segja að lokum, — ég skal ekki hafa um hana miklu fleiri orð, — að það er aðeins farið fram á að heimila ríkisstj. þetta, og þá hefur hún það að sjálfsögðu í hendi sinni, hvernig með málið væri farið. Við vitum það allir, að innan tveggja mánaða kemur saman búnaðarþing, og það má ætla, að það taki þetta mál að einhverju leyti til athugunar og afgreiðslu, því að það er eins og sakir standa örðugasta vandamálið, sem nú liggur fyrir í sveitahéruðum okkar lands.

Ég vænti þess vegna, að þessari till. verði vel tekið hér á hv. Alþ., því að það er ekki mikið í hættu lagt, þó að ríkisstj. fái þessa heimild.