15.12.1954
Efri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

95. mál, almannatryggingar

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta frv. til meðferðar nú um sinn og rætt það ýtarlega á mörgum fundum.

Við umræður í n. hefur það komið í ljós, að einstakir nm. og raunar n. öll telur brýna nauðsyn að gera ýmsar breytingar á almannatryggingalögunum í heild. Það er nú vitað, að þessi löggjöf er til athugunar í mþn., sem skila mun áliti áður en næsta reglulegt þing kemur saman. Þess vegna varð það niðurstaða n. að fallast á að taka ekki upp till. um efnisbreytingar að þessu sinni.

Í samræmi við þá höfuðniðurstöðu n. leggur hún til, að 9. gr. frv. falli niður, en í henni er veruleg efnisbreyting frá núgildandi ákvæðum, eins og skýrt er í grg.

Nú er það kunnugt, að fram fara viðræður um einhverjar lagfæringar á launakjörum opinberra starfsmanna, og mun almennt gert ráð fyrir, að þeir fái einhverja leiðréttingu sinna launamála. N. taldi því óhjákvæmilegt að taka inn í þetta frv. ákvæði, sem tryggði elli- og örorkulífeyrisþegum hækkun lífeyris til samræmis við þær lagfæringar, sem opinberir starfsmenn kunna að fá. Þess vegna leggur n. til, að við frv. bætist bráðabirgðaákvæði það, sem prentað er á þskj. 282.

Þar sem málið er þannig fram lagt af hálfu n., að ekki er um neina teljandi efnisbreytingu að ræða, aðra en þá, sem é,g hef nú minnzt á, þá sé ég ekki ástæðu til að hafa langa framsögu í málinu. Nefndin leggur til, að frv. verði samþykkt með þeim tveim breytingum, er ég hef greint.