15.12.1954
Efri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

95. mál, almannatryggingar

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Það kom mér á óvart, að þetta mál yrði tekið fyrir nú svona snögglega. Ég hafði hugsað mér að leggja fram nokkrar brtt. við frv. og var að bíða með að leggja þær fram, þangað til nál. lægi fyrir. Það hefur nú ekki legið fyrir fyrr en nú, og gerði ég ráð fyrir, að málið yrði ekki tekið fyrir fyrr en í fyrsta lagi á morgun.

Fyrir alllöngu flutti ég hér í d. frv. um breyt. á l. um almannatryggingar og óskaði þá eftir, að hv. heilbr.- og félmn. tæki þær breytingar til athugunar í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Nú hefur hv. n. tekið þá stefnu að gera engar breytingar á núgildandi lögum að sinni og láta allar breytingar bíða, þar til álit mþn., sem er að endurskoða lögin, er fyrir hendi. Þetta frv. er hins vegar næstum eingöngu framlenging á þeim ákvæðum gildandi laga, sem falla úr gildi um áramót.

Mér þykir miður, að n. skuli hafa tekið þessa stefnu. Það eru nokkur atriði almannatrygginganna, sem að mínum dómi þola enga bið að gerðar verði breytingar á. Ég ber því fram nokkrar brtt. við frv. og ætla að leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þær skriflega, úr því að ekki vannst tími til þess að prenta þær, en þessar breytingar fela aðeins í sér nokkur meginatriði þess frv., sem ég flutti hér í d.

Fyrsta breytingin er við 5. gr., að 1. töluliður gr. orðist svo:

„Árlegur elli- og örorkulífeyrir samkvæmt 15. og 18. gr. laganna:

a. Fyrir hjón, þegar bæði fá lífeyri:

Á 1. verðlagssvæði ............ kr. 8160.00

Á 2. verðlagssvæði ............ — 6120.00

b. Fyrir einstaklinga og hjón, þegar annað fær lífeyri:

Á 1. verðlagssvæði .......... kr. 5100.00

Á 2. verðlagssvæði .......... — 3825.00“ Þetta mun vera sem næst 25% hækkun á elli- og örorkulífeyrinum. Ég gerði nú, þegar frv. mitt var til l. umr., grein fyrir nauðsyn þessarar breytingar, að elli- og örorkulífeyririnn yrði hækkaður vegna þeirrar breytingar, sem orðið hefur á verðlagi í landinu síðan þessi ákvæði voru sett, og ég þarf ekki að endurtaka það hér. En hins vegar er því ekki að neita, að þetta sjónarmið hefur að nokkru verið viðurkennt af hv. n. með því bráðabirgðaákvæði, sem hún leggur til að bætt verði við frv., á þá leið, að ríkisstj. sé heimilt að ákveða að greiða uppbætur á elli- og örorkulífeyri, ef Alþ. ákveður að ganga að einhverju leyti til móts við óskir opinberra starfsmanna um, að laun þeirra verði hækkuð, og að þá verði þessi hækkun, sem ríkisstj. er heimilt að ákveða, í samræmi við þær launahækkanir, sem opinberir starfsmenn kunna að fá.

Nú er það algerlega í óvissu, og enginn veit um það, hvort opinberir starfsmenn fá nokkra launahækkun og þá hver hún verður, en a.m.k. held ég að sé alveg óhætt að fullyrða, eftir því sem maður hefur hlerað, að þær hækkanir verða ekki miklar og áreiðanlega mjög mikið innan við 10%. Ég tel þetta þess vegna engan veginn fullnægjandi og að það sé alveg nauðsynlegt að hækka grunnupphæðir elli- og örorkulífeyrisins, eins og hér er lagt til, þrátt fyrir það þó að þessi heimild væri veitt til hækkunar í samræmi við hækkun á launum opinberra starfsmanna. Um þetta tel ég ekki nauðsynlegt að fara fleiri orðum.

Þá er önnur brtt., sem ég flyt. Hún er við 12. gr. og bætist aftan við 2. málsgr. 12. gr., sem fjallar um fjölskyldubætur, þar sem ákveðin er upphæð fjölskyldubóta og þar sem svo er kveðið á, að bætur þessar greiðist með sömu vísitöluuppbót og aðrar bætur, og fer um greiðsluna að öðru leyti eftir ákvæðum 30. og 33. gr. laganna, en samkvæmt því ber ekki að greiða fjölskyldubætur vegna þeirra barna, sem barnalífeyrir er greiddur með. Mín tillaga er því á þá leið, að aftan við málsgr. bætist eftirfarandi:

„Þó skulu bætur samkvæmt 1. málsgr. þessarar greinar og 30. gr. laganna greiddar án tillits til þess, hvort barnalífeyrir er greiddur með hlutaðeigandi börnum eða eigi.“

Ég rökstuddi allrækilega í framsöguræðu minni fyrir frv. mínu, hversu fráleitt það væri, að t.d. öryrkjar skuli ekki fá fjölskyldubætur með sínum börnum, þar sem fjölskyldubætur eru þó greiddar algerlega án tillits til efnahags. Ég tel þess vegna þetta vera breytingu, sem þoli ekki neina bið; þetta sé réttlætismál, sem þoli ekki neina bið.

Og svo er loks þriðja till. Hún er við 14. gr. og fjallar um sjúkrabætur til giftra kvenna, en hún er á þá leið, að niðurlagsorð 1. málsgr. falli niður. Þau eru þess efnis, að sjúkrabætur til þeirra, þ.e.a.s. til giftra kvenna, svo sem ákveðið er í þessari grein, skuli eigi nema hærri upphæð en samsvarar lífeyri samkv. 15. gr. laganna og greiðist því aðeins, að skilyrði 2. málsgr. 40. gr. laganna sé fyrir hendi, en þetta skilyrði er á þá leið, að giftar konur fá ekki greiddar sjúkrabætur, nema því aðeins að eiginmaður þeirra geti ekki séð þeim farborða. Ég legg til, að þetta skilyrði verði niður fellt og í stað þessara niðurlagsorða komi nýr málsl., svo hljóðandi: „Jafnframt fellur úr gildi ákvæði 2. málsgr. 40. gr. laganna“ — sem sé þetta ákvæði, sem ég var hér að lýsa. Hér er giftum konum skammtaður annar réttur en öðrum þjóðfélagsþegnum, og ég álít, að það þoli enga bið, að það óréttlæti sé leiðrétt.