15.12.1954
Efri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

95. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Eins og hv. frsm. tók fram, þá er tilætlunin með bráðabirgðaákvæði því, sem n. leggur til að verði skeytt aftan við lögin, sú að halda óbreyttu, eftir því sem við verður komið, hlutfallinu á milli launa opinberra starfsmanna og lífeyrisgreiðslna Tryggingastofnunarinnar. Það er regla, sem fylgt hefur verið frá upphafi og að minni hyggju er sjálfsagt að halda, a.m.k. þangað til þeirri endurskoðun, sem nú stendur yfir, er lokið og aðrar grundvallarreglur verða þá lagðar um nánari upphæð lífeyrisgreiðslnanna.

Ég vil vekja athygli á því, að þessi till. um uppbætur eða hækkun á elli- og örorkulífeyri tekur aðeins til þeirra bótategunda, sem þar falla undir, en ekki annarra bótategunda, eins og sjúkradagpeninga og slíkra greiðslna.

Ég er þakklátur n. fyrir það, að hún viðurkennir þessa meginreglu, sem ber að fylgja í þessu, en þykir rétt að taka fram í sambandi við till. um bráðabirgðaákvæðið, að verði sá háttur hafður á, að uppbót sú, sem opinberir starfsmenn fá, verði látin í té í því formi, að greidd verði bæði nokkur uppbót á launin 1955 og einnig eftir á uppbót fyrir launin 1954, þá vænti ég, að hæstv. ríkisstj. sjái um, að hið sama verði einnig látið gilda að því er varðar ellilífeyri og örorkulífeyri, þannig að þá verði heimilað að greiða tilsvarandi uppbætur á þann lífeyri, sem greiddur hefur verið fyrir árið 1954, í byrjun næsta árs. Og af þeim viðræðum, sem ég hef átt við hæstv. ráðh. um þetta, tel ég mig mega vænta þess, að svo verði gert, ef sá háttur verður hafður á um launauppbætur til opinberra starfsmanna.

Um till. n. og nái. hef ég ekki annað að segja á þessu stigi málsins, en vildi víkja nokkuð að brtt., sem ég flyt á þskj. 283.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er meginreglan sú í lögunum, að ríkissjóður og sveitarsjóður greiða hvor um sig framlag til sjúkrasamlaga, sem nemur 1/3 af því iðgjaldi, sem sjúkratryggðir menn sjálfir greiða.

Þó er það hámark í gildi nú í lögunum, að þessi hluti ríkissjóðs má ekki fara fram úr 72 kr. í grunn á ári, og sama gildir um framlag sveitarsjóðs. 72 krónurnar, sem nú eru hámark samkvæmt lögunum, svara til þess, að þriðjungsframlag komi á móti iðgjaldi, sem er í kringum 28 kr. á mánuði. Verði iðgjaldið hins vegar hærra, kemur ekkert framlag á móti. Nú er þegar svo komið, að eitt sjúkrasamlag, sjúkrasamlag Akureyrar, hefur orðið að hækka sitt iðgjald talsvert fram úr þessu; ég ætla, að það sé um 30. Orsökin til þeirrar hækkunar er augljós. Hún er sú, að þar tók nýlega til starfa nýtt og stórt sjúkrahús, þannig að mikið fjölgáði því fólki, sem í sjúkrarúm lagðist, og kostnaður samlagsins við sjúkrahúsvist jókst að sama skapi.

Nú stendur svo á hér í Reykjavík, að gert er ráð fyrir, að á næsta ári verði opnuð sjúkradeild í heilsuverndarstöðinni nýju með um 60 sjúkrarúmum. Það má telja víst, að ekki minna en 40 eða 2/3 af þessum rúmum verði notuð til þess að leggja í sjúkrasamlagssjúklinga, og þó að gert sé ráð fyrir, að daggjöldin verði þar ekki nema 60 kr., sem er miklum mun lægra en annars staðar er greitt, þá mundi kostnaðarauki samlagsins af þessu nema a.m.k. 900 þús. til 1 millj. kr. á ári.

Auk þess er þess að gæta, að samkvæmt frv. til fjárl., sem nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að daggjöldin á landsspítalanum og á sjúkrahúsum ríkisins yfirleitt hækki um 5 krónur á dag. Sú hækkun ein nemur milli 400 og 500 þús. kr. fyrir sjúkrasamlag Reykjavíkur. Þessar tvær hækkanir nema því milli 1400 og 1500 þús. kr. á einu ári fyrir sjúkrasamlag Reykjavíkur, sem ómögulegt er að komast fram hjá. Auk þess er nú átt í samningum við læknana um nokkrar breytingar á þeirra launakjörum, og þykir mér líklegt, að ekki verði hægt að ljúka þeim samningum án þess, að einhver hækkun verði gerð á launum til þeirra.

Það er því alveg fullvist, að það þarf að hækka mjög verulega iðgjöld sjúkrasamlags Reykjavíkur og því meira, ef ríkissjóðsframlag kemur ekki á móti. Verði t.d. hér í Reykjavík útgjaldaaukningin alls nálægt 3 millj. kr., sem er ekki ósennilegt, þá nægir ekki minni hækkun en 8–9 kr. á mánuði á iðgjaldi, ef ekkert framlag kemur á móti. Sjúkrasamlagsiðgjaldið hér í Reykjavík er um 27 kr., og ef það hækkar upp í 28 kr., þá kemur ekki neitt framlag á móti, og lendir þá sá kostnaður, sem umfram það er, eingöngu á þeim tryggðu og kemur fram beint í hækkuðum iðgjöldum.

Hér er því lagt til, að hámarksframlag ríkissjóðs og sveitarfélaga verði hækkað úr 72 kr. í grunn upp í 80 kr. Með því móti ætti að mega tryggja það, að þó að sjúkrasamlagsiðgjaldið færi upp í nálægt 31–32 kr., þá kæmi fullt framlag á móti, og þyrftu þá ekki hinir tryggðu að taka með hækkuðum iðgjöldum nema þá 3/5, sem þeir hingað til hafa borið af þessum kostnaði.

Eins og ljóst verður af því, sem hér hefur verið sagt, þá eru þessar hækkanir, sem mest vega í þessu, þ.e.a.s. aukning sjúkrarúmskostnaðar, hlutir, sem eru gersamlega óviðráðanlegir af sjúkrasamlaginu og ekki hægt neinu um að breyta. Að því er læknana snertir, þá hygg ég, að líkur séu til, að samningar náist um hækkun, sem nemur ekki meiru en í mesta lagi fjórða partinum af heildarútgjaldaaukningu sjúkrasamlagsins, og er það mjög mikil lækkun frá því, sem fyrst var gert ráð fyrir, þegar þessar viðræður hófust.

Ég tel ákaflega þýðingarmikið, að þessi till. nái fram að ganga, vegna þess að að öðrum kosti verður nauðsynlegt að hækka stórkostlega núna strax um áramótin iðgjöldin til sjúkrasamlagsins hér, og þau hafa að sjálfsögðu, eins og öllum er kunnugt, nokkur áhrif á vísitöluna og því meiri sem hækkunin á iðgjöldum einstaklinganna verður meiri.

Ég veit, að hæstv. heilbrmrh. hefur kynnt sér þetta nokkuð og gert sér grein fyrir, hve mikil hækkun á vísitölunni stafaði af t.d. 5 kr. eða 8 kr. hækkun á iðgjöldum. Ég hef rætt við form. félmn., frsm., um till. þessa, og nm. hafa ekki tekið afstöðu til hennar enn, svo að ég vildi taka þessa till. aftur til 3. umr. í von um það, að n. gæfist þá tóm til að athuga hana betur, áður en málið fer hér út úr deildinni.