15.12.1954
Neðri deild: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

95. mál, almannatryggingar

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég mun hafa hér mjög stutta framsögu. Þetta frv. hefur gengið í gegnum hv. Ed., tekið nokkrum breytingum þar og er nú til 1. umr. hér. Forsaga þessa frv. er sú, að það var boðað hér á síðasta Alþ., að það mundi verða skipuð mþn. til þess að taka til endurskoðunar almannatryggingalöggjöfina að öllu leyti. Þessi n. tók til starfa s.l. vor og hefur öðru hverju starfað síðan.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið að meginstofni af þeirri n. og er í raun og veru í fyrsta lagi þær framlengingar, sem árlega hefur orðið að gera á almannatryggingalöggjöfinni, til þess að hún gæti starfað áfram, en endurskoðun laganna er ekki nær lokið enn þá, eins og ekki var við að búast, því að fyrir mþn. var einmitt lagt af félmrn. og í samræmi við skoðun ríkisstj. almennt að taka lögin til mjög ýtarlegrar endurskoðunar, kynna sér sem bezt skoðanir almennings úti um land um það, hvort menn væru ánægðir með löggjöfina eins og hún væri og hverra breytinga væri óskað, og var þá að sjálfsögðu alveg óhugsandi, að þessu yrði lokíð á einu sumri.

Mþn. tók því þá afstöðu og algerlega í samráði við mig sem félmrh. að gera frv. um þær nauðsynlegu breyt. eða framlengingar, sem nú yrði að gera á löggjöfinni, þannig að almannatryggingarnar gætu starfað áfram á sama hátt og áður, og þetta frv. er því að meginstofni þannig til komið.

Ég vona fastlega, að fyrir næsta Alþ., sem að venju verður sennilega háð haustið 1955, geti legið fyrir sú endurskoðun, sem hér hefur verið starfað að.

Þetta frv. hefur tekið nokkrum breyt. í hv. Ed., og er það í raun og veru aðallega vegna þess, að það er gert ráð fyrir, áður en þessum hluta Alþ. lýkur nú, að í sambandi við afgreiðslu fjárl. verði gerð nokkur breyt. á launakjörum starfsmanna ríkisins, þannig að þeir fái einhverja uppbót frá því, sem nú er. Hefur það verið mjög fast sótt og í raun og veru stutt þeim rökum, sem ríkisstj. hefur viðurkennt, að þeir hafi orðið á eftir hvað snertir launakröfur, og hefur þá þótt eðlilegt og rétt, að ellilaun og öryrkjabætur fylgdu þeirri hækkun, sem sennilega verður á launum starfsmanna ríkisins áður en fjárl. verða afgreidd. Og breyting um þetta hefur verið sett inn í frv. í hv. Ed. Það verður náttúrlega hlutverk þessarar d. og þeirrar n., sem fer með þetta má] hér, að fylgjast með því, hvað gerist að lokum í þessu máli við afgreiðslu fjárl., og þá e.t.v. gæti komið til athugunar, að þyrfti að gera einhverjar breytingar, ef þau mál verða ekki afgreidd eins og ríkisstj. nú gerir ráð fyrir. En ég hef lagt áherzlu á, að þetta frv. kæmist nú strax til n. hér í þessari hv. d., því að vitanlega verður að afgreiða þetta frv. áður en þinghlé verður, þar sem úr gildi falla mörg veigamikil ákvæði almannatryggingalaganna um næstu áramót, ef þetta frv. verður ekki samþ. áður.

Ég sé í raun og veru ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri hér nú, en leyfi mér að leggja til, að þessu frv. að lokinni þessari umr. verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.