10.02.1955
Efri deild: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

106. mál, Krabbameinsfélag Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þessu frv. var vísað til fjhn. þessarar deildar 3. des. s.l., eða um það bil hálfum mánuði fyrir þingfrestunina. Eins og hv. þm. muna, þá voru miklar annir þessar tvær síðustu vikur fyrir þingfrestunina, og fórst því fyrir, að n. afgreiddi málið á þeim tíma. Er það í raun og veru illa farið, þar sem frv. fjallar um framtöl manna til skatts á yfirstandandi ári, en þau eru viða búin, a.m.k. í kaupstöðum munu mjög margir þegar hafa talið fram til skatts. Ég hygg þó, eins og ég mun koma síðar að, að hægt sé að bæta úr þessu.

Það var ekki fyrr en í gær, fyrsta daginn sem hæstv. forseti þessarar deildar, sem á sæti í fjhn., var hér staddur, sem n. afgreiddi málið. Var þá einn nm. fjarstaddur sökum veikinda, hv. 4. þm. Reykv., en eins og sjá má á nál. á þskj. 341, leggja hinir fjórir nm. til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Efni frv. er það, eins og menn sjá, að ákveða, að gjafir til Krabbameinsfélags Íslands, sem nema allt að 15 þús. kr., skuli gefanda heimilt að telja til frádráttar skattskyldum tekjum sínum það ár, og reiknist gjöfin sem annar löglegur frádráttur, áður en lagðir eru á skattar til ríkis og bæjar eða sveitar. En eins og ég gat um áðan, þá er nú svo ástatt, að ýmsir, einkum í bæjum, hafa þegar talið fram og vitanlega ekki talið þetta til frádráttar tekjum sínum, þó að þeir kunni að hafa gefið Krabbameinsfélagi Íslands einhverjar gjafir. En þess ber þó að gæta, að skatturinn er ekki á lagður enn, þó að framtalið sé gert, og tel ég alveg sjálfsagt, að skattanefndir taki þessar gjafir til greina, ef einhverjar eru og ef þeim er um þær kunnugt, og dragi þær frá skattskyldum tekjum, þegar skatturinn er á lagður. Og þá ætti að vera úr því bætt, þó að lög um þetta efni séu sett síðar en þurft hefði að vera.

Það er ekki nýmæli, að gjafir til líknarstofnana séu skattfrjálsar samkv. lögum. Það hefur áður verið samþykkt svipað ákvæði að því er snertir vinnuhæll berklasjúklinga og gjafir til barnaspítala, svo að að því leyti er það ekkert nýmæli, sem í þessu frv. felst, annað en það, að það er nýr aðili, sem hér kemur til greina. Ég verð að segja það hvað mig snertir persónulega, þó að ég mæli með þessu frv. eins og aðrir nm., að ég tel þetta dálítið hæpna leið, sem verið er inn á með því móti að ákveða með sérstökum lögum, að gjafir til eins eða annars fyrirtækis skuli vera skattfrjálsar, og ég held það væri réttari leið að setja beinlínis í skattalögin einhver ákvæði um það, að gjafir til líknarstofnana, sem hlíttu ákveðnum reglum og fyrirmælum, skyldu vera skattfrjálsar. Með því að hafa þennan hátt á að setja sérstök lög um hvert einstakt atriði í þessu efni, þá er vitanlega alltaf hætta á, að misréttis gæti, og það geti farið svo, að líknarfélag eða líknarstofnun, sem á alveg eins mikinn rétt á þessu og þær, sem þessara fríðinda njóta, verði útundan. Yfirleitt er það, sem ég segi um þetta, í samræmi við það, sem ég hef oft látið í ljós hér í Alþingi, að ég er heldur mótfallinn því, þegar hægt er að komast hjá því, að setja lagaákvæði til eins árs, sem svo eru framlengd ár frá ári kannske, — og um einstök atriði, sem hægt væri að hafa í heildarlöggjöf og setja til nokkurrar frambúðar.