21.02.1955
Efri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

152. mál, stofnun happdrættis

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 376 ber með sér, leggur fjhn. einróma til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt að efni til eins og það var lagt fyrir þessa hv. d. Hins vegar hefur n. leyft sér að leggja fram brtt., sem aðeins á við formshlið málsins. Þar er lagt til, að gengið sé hreint til verks og breytt 1. gr. hinna upprunalegu laga og þá um leið felld niður þau l. önnur, sem ekki hafa haft inni að halda annað en breytingar á þeirri grein, sem sé að auka tölu þeirra hlutamiða, sem gefa má út samkvæmt lögunum, og að fjölga dráttum úr 10 og upp í 12 árlega. Með þessu verður komið í veg fyrir, þegar væntanlega þarf að fjölga miðunum einhvern tíma seinna, sem má búast við, eftir því sem á undan hefur gengið í þessu máli, að enn þá þurfi að bæta einum l. um breytingu við, og í stað þess hægt að ganga beint að aðallögunum og fella hinar breytingarnar niður.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um mál þetta, sem er mjög einfalt, og leyfi mér að endurtaka till. n. um, að það verði samþ. með þessum formsbreytingum.