18.03.1955
Neðri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

28. mál, stofnun prófesorsembættis í læknadeild

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur rætt þetta frv. á nokkrum fundum, og það hefur verið rætt við hæstv. menntmrh. og við prófessorinn í líffæra- og lífeðlisfræði við háskólann, og að því loknu hefur n. samþ. að mæla með frv. með þeim breytingum, sem taldar eru á þskj. 465. Skal ég nú gera nokkru nánari grein fyrir ástæðum til þess, að þessar breytingar eru ráðgerðar og lagt til, að þær verði gerðar á frv.

Eins og getið er um í athugasemdum með þessu frv., hefur áður að tilhlutan þáverandi hæstv. menntmrh. verið flutt frv. um stofnun prófessorsembættis í lífeðlis- og lífefnafræði, en eigi náð fram að ganga. Var það frv. nú enn flutt að tilhlutan hæstv. menntmrh. í nokkuð öðru formi. Við nánari athugun hefur orðið samkomulag um að breyta frv. og fella niður þá viðauka, sem ætlað var að láta fylgja því nú, og enn fremur ákvæðið um frestun á veitingu embættisins frá 15. sept. 1956. Skal ég gera nokkru nánari grein fyrir ástæðum, sem til þessa liggja.

Þessi sérgrein, lífeðlis- og lífefnafræði, er ein þeirra námsgreina, sem kenndar eru í undirbúnings- eða forskóla hins eiginlega læknanáms. Auk þess vinnur prófessor í þessari fræðigrein rannsóknar- og vísindastörf, eftir því sem aðstæður leyfa. Þetta nám hentar ekki læknum, er stunda almennar lækningar eða hafa sérmenntun á öðrum sviðum læknisfræðinnar, og þess er því ekkí að vænta, að læknar leggi stund á þessi vísindi, nema þeir eigi víst starf að námi loknu í þessari sérgrein. Mér er sagt, að einn íslenzkur læknir hafi stundað þessar greinar og kennt þær við erlendan háskóla, en það er þó alveg óvíst, að hann fáist til að koma hingað. Fæst ekki úr því skorið nema með því, að embættið sé auglýst, og kemur þá í ljós, hvort þessi eða aðrir, sem til þess eru færir, sækja um það. Fáist enginn, sem lokið hefur nauðsynlegu undirbúningsnámi, verður að teljast eðlilegt að skipa í embættið þann mann, er efnilegastur telst af umsækjendum, en veita honum ársleyfi í byrjun til þess að undirbúa sig undir kennsluna og koma fótum undir þá vísindastarfsemi, sem hann væntanlega vinnur ásamt kennslunni. Óeðlilegt er því á þessu stigi málsins að setja lög eða reglur um þá starfsemi, sem hann væntanlega kemur til með að vinna, þegar hann tekur við starfinu. Það verður að teljast sjálfsagt, að hinn nýi prófessor geri sjálfur tillögur um alla tilhögun þeirrar rannsóknar- og vísindastarfsemi.

Ég er alveg sammála því atriði athugasemda prófessorsins í líffæra- og lífeðlisfræði, að óeðlilegt sé, að verkleg kennsla og tækifæri kennarans til sjálfstæðra vísindalegra rannsókna þurfi að vera algerlega háð því, að hann geti unnið og látið vinna í rannsóknarstofu fyrir aðra aðila, en á eigin ábyrgð eins og nú er, fyrir allt það fé, sem nauðsynlegt er til starfseminnar. Það mál er þó ekki rétt að taka upp í sambandi við afgreiðslu þessa nauðsynjamáls, heldur á að taka það upp við afgreiðslu næstu fjárl.

Um frv. í þeirri mynd, sem n. leggur til að það verði samþ., eru rektor háskólans og prófessorinn í líffæra- og lífeðlisfræði sammála nefndinni. Ég leyfi mér því að mæla með því við hv. d., að frv. verði samþ. eins og n. leggur til.