13.10.1954
Efri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

25. mál, læknaskipunarlög

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt hér sem stjfrv., en felur ekki í sér veigamiklar breytingar frá því frv., sem lá fyrir hv. Alþingi síðast og ekki varð þá útrætt.

Sú breyting er í þessu frv. frá frv., sem ég áður nefndi, að nú er gert ráð fyrir að gera sérstakt læknishérað í Kópavogi, að Álafosshérað haldist óbreytt, en í Kópavogi verði stofnað nýtt læknishérað. Það sýnist vera sanngjarnt að verða við þeirri ósk, sem kom fram á síðasta Alþingi um þetta, ef litið er til þess, hversu íbúar Kópavogshrepps eru nú orðnir margir og að þeim fer stöðugt fjölgandi.

Þá er einnig gert ráð fyrir því að skipta Rangárhéraði í tvö læknishéruð, en það er, eins og kunnugt er, nú eitt stærsta — og það langstærsta — læknishérað á landinu, miðað við sveitahéruð. Þar eru nú rúmlega þrjú þúsund íbúar, og þótt læknishéraðinu sé skipt í tvö héruð, þá verða þarna eigi að síður 15–16 hundruð íbúar í hvoru héraði, og verða því þessi tvö héruð þrátt fyrir þetta með stærstu læknishéruðum landsins. Núverandi héraðslæknir, hv. 2. þm. Rang., Helgi Jónasson, hefur gegnt læknisþjónustu í þessu stóra héraði nú um mörg ár af dugnaði. Nú er hann farinn að eldast og þreytast, og yngri læknar, sem hann hefur haft sér til aðstoðar, hafa látið í ljós, að þeir væru ekki menn til þess að gegna héraðinu eins og gert hefur verið undanfarið, og mér er kunnugt um, að sá aðstoðarlæknir, sem nú situr á Stórólfshvoli og er vel kynntur og góður læknir, telur það algerlega útilokað og ofætlun fyrir einn mann að gegna héraðinu.

Rangæingar hafa veitt því athygli, að læknishéruðum hefur verið skipt undanfaríð, og þeir telja, að það sé sanngjarnt, að þeir fái ekki lakari læknisþjónustu en önnur héruð eða aðrar sveitir, og þess vegna eru þeir því fylgjandi, að héraðinu verði skipt. Er þá gert ráð fyrir, að Hvolshérað verði áfram með læknissetri að Stórólfshvoli, að undir Hvolshérað verði lagður Austur-Eyjafjallahreppur, sem hefur legið undir Víkurhérað, en Austur-Eyjafjallahreppur hafi eigi að síður rétt til læknisþjónustu í Vík, en hitt héraðið verði nefnt Helluhérað og læknirinn hafi búsetu á Hellu. Ég hef átt tal við marga Rangæinga um þetta, og eru þeir á einu máli um þessa skipan, sem hér er ætlazt til að komist í framkvæmd.

Þá er tekin inn í þetta frv. hin nýja skipan, sem gerð var á Egilsstaðahéraði í fyrra, og komið inn í þessi lög, en vegna hins nýstofnaða Höfðahéraðs þurfti engrar breytingar við, þar sem það var upphaflega í frv.

Aðrar breytingar á þessu frv. frá því frv., sem lagt var fram í fyrra, er ekki um að ræða. Ég geri ráð fyrir því, að það verði fullkomið samkomulag um afgreiðslu málsins, því að hér er ekki um annað að ræða en sanngirnismál eða nánast sagt leiðréttingu til samræmis við það, sem áður er búið að gera alls staðar annars staðar á landinu. Ég leyfi mér þess vegna að mælast til, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.