13.10.1954
Efri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

25. mál, læknaskipunarlög

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Mér finnst hv. 1. þm. N-M. blanda hérna málum saman og taka þetta ekki alveg raunhæft að öllu leyti, þegar hann er að tala um það, að ef ég hefði ætlað að leggja nál. mþn. fram og ætlazt til þess, að það væri haft til hliðsjónar við þetta frv., þá hefði ég ekki flutt þetta frv., heldur beðið eftir nál. Eins og ég sagði áðan, þá fékk ég nál. í morgun. Við erum að ræða hér í dag frv. til nýrra læknaskipunarlaga, sem verður afgreitt hér á þinginu, eftir að hv. þingmenn hafa séð nál. Og ég sagði þessum hv. þm. hér áðan ásamt öðrum hv. þingmönnum, að álit mþn., þótt við það verði stuðzt, komi ekkert í bága við þetta frv., vegna þess að n. hefur farið ákaflega lítið inn á læknaskipunina. Hins vegar mun álitið styðja þær brtt., sem farið er fram á með þessu frv. Og það mun hv. 1. þm. N-M. sjá og nota sér, þegar að því kemur. Þetta frv. brýtur ekkert í bága um það, hvort það skuli verða einn eða tveir læknar við sjúkrahús. Það þýðir ekkert að blanda sjúkrahúsi Blönduóss saman við þetta frv., því að sjúkrahús Blönduóss er að verða að fullu byggt, og þótt mþn. hefði ekki talið heppilegt að byggja sjúkrahús á Blönduósi, þá verður því ekki breytt, úr því sem komið er. Og ég er vitanlega sammála hv. 1. þm. N-M. um það, að það verður ekki unnt að reka sjúkrahúsið á Blönduósi ásamt Blönduóshéraði með einum lækni. Þeir verða vitanlega að verða tveir.

Hér er rætt um tvær breytingar. Önnur er að gera Kópavog að sérstöku læknishéraði. Ég býst alveg við, að það komi að því, að það verði byggt sjúkrahús í Kópavogi. En enda þótt það verði gert, þá getur það ekki staðið í vegi fyrir því, að Kópavogur fái sinn héraðslækni.

Við höfum, eins og ég sagði áðan, lög um fjórðungssjúkrahús á Suðurlandi, og ef þetta á að vera fjórðungssjúkrahús fyrir Suðurlandsundirlendið, þá geri ég ráð fyrir því, að það verði byggt frekar nær Reykjavík en fjær Reykjavík. Og það hefur núna síðustu mánuðina helzt verið rætt um að styðjast við hverahitann, sem hefur sýnt það nú upp á síðkastið, að auk þess að vera hitagjafi, þá geta jafnvel gufurnar og leirinn í Hveragerði einnig verið nokkurs konar læknislyf. Og þá hafa sumir látið sér detta í hug, að það væri heppilegt að byggja fjórðungssjúkrahús fyrir Suðurland þar, - eða þá á Selfossi. Það skal ég ekki segja um. En við höfum ekki, Rangæingar, reiknað með, að fjórðungssjúkrahús fyrir Suðurland yrði fyrir austan Þjórsá. Þess vegna geta ekki sjúkrahúsmál fyrir Suðurlandsundirlendið komið í bága við þetta frv., sem felur í sér breytingu á læknaskipun austan Þjórsár.

Ég gleðst yfir því, að hv. 1. þm. N-M. er nú jafnvel orðinn ánægður með mig fyrir það, að nú skuli vera komið í mínar hendur nál. mþn. í heilbrigðismálum, sem hér verður lagt fram, og það er þá stór framför frá því, sem verið hefur og hann var að lýsa hér áðan, að áður hefði verið skipuð hér mþn. í heilbrigðismálum, sem hefur ekki skilað áliti. Ég heyrði nú ekki, hvaða ár það var, eða man ekki, en mér skilst, að það sé fyrir mörgum árum. Nýja nefndin hefur skilað áliti, og það liggur fyrir. Veit ég, að við hv. 1. þm. N-M. erum báðir ánægðir með þá framför, sem orðið hefur, enda þótt læknaskipunin í landinn í heild hljóti að vera 1. þm. N-M. til mikillar raunar, því að þróunin hefur gengið alveg í öfuga átt við það, sem hann hefur stefnt að, eftir því sem hann lýsti hér áðan. Hans stefna hefur verið, að hann sagði, að fækka læknum og að stækka læknishéruðin, en þróunin hefur verið sú að fjölga læknum og að fjölga læknishéruðunum, sbr. afgreiðslu síðasta Alþ. í sambandi við skipun læknishéraða, með því að gera Skagaströnd að sérstöku læknishéraði og Egilsstaðahérað að tveim læknishéruðum. Og það eru ekki mörg ár síðan það voru tveir héraðslæknar í Árnessýslu. Nú eru þeir fjórir. Og ekki hefði verið hægara að ná í lækni, þegar þetta raunalega slys vildi til nú fyrir stuttu við Tungufljót, ef héraðslæknar í Árnessýslu hefðu aðeins verið tveir.

Þannig er nú ástæðulaust að þessu sinni að ræða þetta meira, en þegar nál. frá mþn. verður hér til athugunar og þetta frv. kemur til 2. umr., þá gefst frekara tækifæri til umræðu um málið.