22.11.1954
Efri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

25. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur, að því er ætla má, hlotið mikinn undirbúning og góðan. Það var flutt á þingi í fyrra af heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar, þá eftir ósk landlæknis, en hann hafði undirbúið frv. Málið fékk ekki afgreiðslu í fyrra, enda seint fram komið. Síðan mun ríkisstj. hafa fjallað um frv., og að tilhlutun hennar eru gerðar á því tvær breytingar, þ.e. um ný læknishéruð í Kópavogi og á Rangárvöllum.

Mér þykir rétt að geta þess, að heilbr: og félmn. hefur haft til athugunar álit mþn. í heilbrigðismálum, þ.e. þeirrar n., er skipuð var samkvæmt þál. frá síðasta þingi. En álit hennar snertir atriði þessa máls næsta lítið, og kemur það ekki frekar við sögu hér.

Aðalmarkmið þessa frv. má segja að sé það að færa saman og samræma þau lög, sem nú hafa gilt um læknaskipun í landinu. Síðustu heildarlög um læknaskipun eru frá 1932. Síðan hafa verið gerðar á þeim margar breytingar, sem er að finna hér og hvar í stjórnartíðindum, og var orðin brýn nauðsyn að færa þetta saman. Frv. hreyfir ekki við læknaskipuninni í stórum atriðum. Henni er haldið óbreyttri að mestu eins og hún hefur verið. Það má sjálfsagt finna marga kosti og marga galla á þeirri skipan, en hún er yfirleitt miðuð við það að gera sem flestum landsmönnum kleift að ná til læknis á sem skemmstum tíma. Hitt sjónarmiðið hefur einnig oft komið fram í umr. um þessi mál, að æskilegra væri að hafa læknissetrin færri, hafa þá betur útbúnar heilsugæzlustöðvar með fleiri læknum og fyrir stærri svæði. Þetta hefur yfirleitt ekki þótt tiltækilegt til þessa. Þó má segja, að það hafi aðeins verið borið við á einstökum stöðum, sbr. þegar tvö læknishéruð á Fljótsdalshéraði voru sameinuð, en með tveim læknum þó, fyrst lækni og aðstoðarlækni og nú síðast tveimur föstum læknum. En í heild hefur þetta sjónarmið ekki ráðið um læknaskipunina.

Mér þykir rétt að drepa aðelns á helztu atriði frumvarpsins, áður en ég kem að brtt. þeim, sem n. hefur gert.

Eins og ég gat um áðan, var að tilhlutan ríkisstjórnarinnar sett inn í frv. ákvæði um tvö ný læknishéruð, nýtt hérað á Rangárvöllum og svo um Kópavogshérað. Í því frv., sem landlæknir fékk flutt hér á þingi í fyrra, var að vísu ákvæði um Kópavogshérað, en það var í öðru formi en nú. Þá var til þess ætlazt, að sami héraðslæknir yrði fyrir núverandi Álafosshérað og Kópavogshrepp; þetta yrði eitt hérað. En nú er tekið upp alveg sérstakt læknishérað í Kópavogi og Álafosshérað látið haldast.

Þá er í frv. á nokkrum stöðum gert ráð fyrir, að heilir hreppar færist á milli læknishéraða. Þetta mun gert að undirlagi landlæknis, og tilgangurinn er að stækka minnstu læknishéruðin. Eins og nú hagar til, eru nokkur héruð á landinu svo lítil, að verksvið læknisins er mjög takmarkað og oft nokkrir erfiðleikar að fá til þeirra lækna. Þetta atriði hefur verið nokkuð rætt í n., og það hafa komið fram ákveðnar óskir, a.m.k. frá tveimur stöðum, um að færa héraðamörkin aftur til hins fyrra horfs. Hefur n. fallizt á það, og kem ég að því síðar.

Þá er það eitt atriði frv. að miða læknishéraðatakmörk ævinlega við heila hreppa. Þetta er gert vegna hagstofunnar og þeirrar nýju vélaspjaldskrár, sem nú hefur verið tekin í notkun. Það þykir mjög óheppilegt, að læknishéruðin fylgi ekki sömu takmörkum og hreppar. Það var nokkuð rætt um þetta í n., og eins og tekið er fram í nál. á þskj. 178, sem hv. dm. hafa væntanlega fyrir framan sig, þá hefur n. talið rétt að fallast á þetta, þar sem hún telur, að fulltryggður sé með ákvæðum 2. gr. réttur þeirra, sem þannig flytjast milli læknishéraða, til sömu læknisþjónustu og þeir hafa nú. Má þó í rauninni segja, að þeir hafi tvöfaldan rétt eftir frv., því að þeir eiga þá einnig fyllsta rétt til læknisþjónustu í því héraði, sem þeir eru færðir til.

Í frv. eru ákvæði um að heimila ríkisstj. að launa að tveimur þriðju hjúkrunarkonur í nokkrum afskekktustu sveitum landsins, þar sem nokkurt fjölmenni er saman komið, en læknislaust. Þetta hefur áður verið gert á stöku stað með heimild í fjárlögum, a.m.k. á Suðureyri í Súgandafirði og ef til vill víðar, en þetta er nú tekið inn í frv. sem almenn heimildarákvæði.

Mér þykir rétt að fara aðeins yfir þær brtt., sem n. hefur flutt. Þar er fyrst og fremst um breytingar á 1. gr. að ræða. Um stafliði a og b er það að segja, að þeir eru leiðrétting eingöngu. Um e-lið er það að segja, að íbúar Barðastrandarhrepps hafa ekki viljað sætta sig við, að sá hreppur færðist til Flateyjarhéraðs, en vilja halda áfram að tilheyra Patreksfjarðarhéraði. Var á það fallizt. D-liður fjallar um sama efni. E- og f-liðir eru alveg sama eðlis; Svalbarðsstrandarhreppur austan Eyjafjarðar hafði í frv. verið fluttur til Grenivíkurlæknishéraðs frá Akureyrarlæknishéraði, en því var mjög mótmælt að heiman, og n. féllst á að taka það einnig til greina. Fyrir nokkru hafa komið fram brtt. frá hv. þm. V-Sk. N. hefur tekið þær upp til glöggvunar og væntir þess, að hv. þm. taki þá sínar till. aftur. Hér ræðir um Austur-Eyjafjallahrepp, sem samkv. frv. var fluttur til Hvolshéraðs, en er nú gert ráð fyrir að haldist áfram í Vikurhéraði, sbr. g- og h-liði. I-liður brtt. er þess efnis, að aftan við 1. gr. bætist tvær nýjar málsgr., svo hljóðandi:

„Við bætast eftirtalin læknishéruð, þegar þau verða skipuð:

a) Staðarhérað: Miklaholtshreppur, Staðarsveit og Breiðavíkurhreppur. — Læknissetur á Staðarstað.

b) Raufarhafnarhérað: Raufarhafnarhreppur. — Læknissetur á Raufarhöfn.

Ólafsvíkurhérað, Stykkishólmshérað og Kópaskershérað skerðast samsvarandi.“

Menn mættu ætla fljótt á litið, að hér væri um að ræða að taka upp tvö ný læknishéruð, en svo er þó í rauninni ekki. Staðarhérað hefur áður verið í lögum sem sérstakt læknishérað, en ekki verið skipað. Frv. gerði ráð fyrir að fella það niður, en mjög eindregin mótmæli bárust heiman úr héraði, og í samráði við þm. Snæf. féllst n. á að leggja til, að þetta hérað fengi að haldast í lögum og yrði tekið upp í frv., þó á þennan hátt, sem segir: „Við bætast eftirtalin læknishéruð, þegar þau verða skipuð.“ Um b-liðinn í þessum staflið brtt., Raufarhafnarhérað, er hins vegar það að segja, að þar er í rauninni um nýtt læknishérað að ræða. Raufarhöfn er mikill síldarvinnslubær, og koma þangað mörg skip á sumrum og er þá sérstök þörf fyrir læknisþjónustu. Sú þörf hefur þegar fengizt viðurkennd á þann hátt, að þar hefur verið starfandi læknir síðustu sumur. Nú er því einnig haldið fram af staðkunnugum mönnum, að það sé mjög erfitt fyrir Raufarhafnarbúa á vetrum, í misjöfnum veðrum og færð, að ná lækni frá Kópaskeri. Þetta var mikið rætt í n., og niðurstaðan varð sú, eins og sjá má af þskj., að leggja til, að stofnað verði nýtt læknishérað á Raufarhöfn.

Þá eru taldar þær breytingar, sem n. leggur til að gerðar verði við 1. gr., en af þeim leiðir hins vegar, að gera þarf smábreytingar á 2. gr., sem fjallar um rétt manna á tilteknum svæðum til læknisvitjana í önnur héruð, sbr. tölul. 2 á þskj. Er ástæðulaust að skýra þær sérstaklega. Þær eru nálega allar afleiðing af breytingum á 1. gr. Þó má geta þess um d-liðinn: „Á eftir 13. tölulið komi nýr liður, svo hljóðandi: Hafnarhérað: íbúar Hofshrepps til Kirkjubæjarklausturs“ — að hann er í rauninni till. hv. þm. V-Sk.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að svo stöddu. Ég vænti, að ég hafi hér gert grein fyrir helztu breytingunum, sem n. leggur til að gerðar séu á frv., en eins og nál. ber með sér, þá mælir hún með því, að frv. verði samþ. með þessum breytingum.