22.11.1954
Efri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

25. mál, læknaskipunarlög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 178 ber með sér, þá hef ég tekið þar fram mitt sérálit um borgarlæknisembættið í Reykjavík. Ég hafði nú búizt við, að bv. frsm. mundi minnast á það og hefði þá getað sparað mér að taka hér til máls, en með því að hann gerði það ekki, þykir mér rétt að skýra frá því, af hvaða ástæðu ég hef sérstöðu í þessu máli.

Eins og kunnugt er, hefur læknisþjónusta í Reykjavik verið greidd af ríkissjóði eða landssjóði allan þann tíma, sem læknir hefur setið í Reykjavík, þar til bæjarlæknirinn, sá síðasti, sem hér var, Magnús Pétursson, lét af störfum.

En þá mun hafa verið málum skipað þannig, að ríkissjóður hafi kostað hálft annað læknisembætti eða greitt laun hálfs annars læknis hér í Reykjavík. Siðan hann lét af störfum, hefur málunum hins vegar verið skipað þannig, að Reykjavíkurbær kostar eingöngu heilbrigðisstarfið hér, án þess að ríkissjóður taki nokkurn þátt í því. Ég tel þetta mjög ósanngjarnt og tel, að Reykjavík eigi engu síður en aðrir landshlutar kröfu á því, að héraðslæknir í Reykjavík eða borgarlæknir í Reykjavik verði kostaður af ríkissjóði. Ég skil ekki, hvernig unnt er að halda því fram, að 60 þús. manns í landinu skuli vera sviptir að öllu læknisþjónustu, sem kostuð er af ríkissjóði, og einkum og sér í lagi þegar um það er að ræða, að þessum ákveðna lækni, sem kostaður er algerlega nú af Reykjavík, er gert að skyldu að inna af hendi ákveðin verk fyrir ríkið, m.a. að hafa skýrslugerðir, ekki einasta í Reykjavík, heldur og í öðrum héruðum, sem liggja ekki undir umdæmi Reykjavíkur. Hins vegar þykir mér eðlilegt, að ef ríkissjóður greiðir laun borgarlæknis, þá hafi heilbrigðisstjórnin ein íhlutunarrétt um skipun læknisins og þar komi enginn íhlutunarréttur af hálfu bæjarins frekar en á öðrum stöðum.

Ég hef hins vegar ekki borið fram brtt. á þessu stigi málsins, vegna þess alveg sérstaklega, að ég tel, að þessi till. eigi að koma frá hæstv. ráðh. Ég tel, að hann eigi að óska þess, að n. beri fram brtt. hér að lútandi, en hún eigi hvorki að koma frá mér sérstaklega né öðrum aðilum, og þá mun n. sjálfsagt taka það til athugunar, ef slík ósk kemur frá hæstv. ríkisstj. Ég hef því geymt mér rétt til þess að mega fylgja slíkri brtt. og til þess að bera hana sjálfur fram, ef útséð er um það, að hún komi frá réttum aðila.

Ég sé ekki, hvernig hægt er að beita stærsta hérað landsins því ranglæti að neita því um þátttöku í heilbrigðismálum sem öðrum héruðum. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram þegar við þessa umr.