22.11.1954
Efri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

25. mál, læknaskipunarlög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Í nál. hv. heilbr.- og félmn. á þskj. 178 er þess getið, að Gísli Guðmundsson, þm. N-Þ., hafi sent n. ósk um stofnun læknishéraðs á Raufarhöfn, og enn fremur, að það hafi borizt tilmæli frá Sigurði Ágústssyni, þm. Snæf., um að endurreisa læknishérað í hans kjördæmi. Báðar þessar óskir hefur hv. n. tekið til greina og ber fram brtt. í samræmi við það.

Ég geri ráð fyrir, að ég hefði haft eins mikla ástæðu til þess að bera fram ósk um nýtt læknishérað og þessir tveir hv. alþm. Og ef ég hefði nú gert það, þá efa ég ekki, að hv. n. hefði tekið þá ósk til greina.

Eins og hv. dm. mun vera kunnugt, þá er Akureyrarhérað áreiðanlega fjölmennasta og erfiðasta læknishérað landsins utan Reykjavíkur. En um læknishéraðsstörf í Reykjavík er ekki hægt að gera samanburð, því að þar hagar sérstaklega til. Þar er sá fjöldi lækna, sem starfa á eigin spýtur, og alls konar heilbrigðisstofnanir, að þar er ekki hægt að gera neinn samanburð. Héraðslæknirinn á Akureyri verður að hafa almennt heilbrigðiseftirlit í næststærsta bæ landsins, Akureyri, og gegna þar læknisstörfum, þó að þar séu líka til praktíserandi læknar, og auk þess verður hann að gegna sem héraðslæknir stóru héraði og erfiðu, bæði sakir fjölmennis og einnig sakir þess, að eins og læknishéraðið hefur verið til þessa, er yfir fjallveg að fara, sem stundum er erfiður. Ég skil því ekki, að það hefði þótt ósanngjarnt, þó að ég hefði borið fram ósk um það, að þessu læknishéraði væri skipt í tvö héruð, þannig að það yrði sérstakur héraðslæknir fyrir Akureyri og annar fyrir sveitirnar, sem þessu læknishéraði tilheyra. Og ég tók mjög til athugunar að bera fram slíka ósk um þessi skipti. En ég gerði það þó ekki og hef ekki borið fram neina brtt. um það, og til þess lágu tvær ástæður. Fyrri ástæðan er sú, að eins og nú standa sakir, skipar þetta embætti óvenjulega duglegur maður, sem er trúandi til þess allra manna bezt, sem ég þekki, að leysa þetta mikla starf af hendi, ef það er nokkrum manni fært. Hin ástæðan er sú, að í frv. var lagt til að létta nokkuð á þessum lækni, m.ö.o. að leggja þá tvo hreppa í Þingeyjarsýslu, sem hafa tilheyrt Akureyrarhéraði að mestu leyti, undir nágrannalæknishérað, sem er mjög fámennt. Sá böggull fylgdi þó því skammrifi í frv., að gefa átti íbúum þessara hreppa, sem losnuðu úr Akureyrarlæknishéraði, rétt til þess að leita til héraðslæknisins á Akureyri og þar með skylda hann til að gegna læknisstörfum þar. Er það að vísu í samræmi við það, sem annars staðar er í þessu frv., að þar sem breytt er til um læknishéruð, þá er íbúum veittur réttur til þess að leita til síns fyrri læknis. Efast ég mjög um, að þetta ákvæði eigi fyllilega rétt á sér, og virðist mér einkennilegt, að breytingin skuli, úr því að breyting er gerð, ekki vera gerð nema e.t.v. að nafninu.

Ég hugsaði mér því frá upphafi að bera fram brtt. við frv. um að fella úr því ákvæði um það, að héraðslæknirinn á Akureyri væri skyldur til þess að gegna læknisstörfum austan Vaðlaheiðar, eða í Fnjóskadal, sem átti samkv. frv. að sníða af hans læknishéraði. Og brtt. um það hef ég nú borið fram á þskj. 187, að 10. töluliður 2. gr. frv., sem um þetta fjallar, falli burt.

En nú hefur hv. n. borið fram brtt. um það, að Svalbarðsstrandarhreppur í Þingeyjarsýslu skuli tilheyra áfram Akureyrarlæknishéraði. Þó að héraðslæknirinn á Akureyri hafi meira en nóg að gera og verkefni hans hefði verið meira en nægilegt, þó að frv. hefði verið samþ. óbreytt að þessu leyti ásamt minni brtt., þá verð ég þó að segja það, að mér finnst þessi brtt. n. eðlileg. Það er vitanlega langhægast fyrir íbúa Svalbarðsstrandarhrepps í Þingeyjarsýslu að sækja lækni á Akureyri. Það er miklu hægara fyrir þá að sækja lækni til Akureyrar heldur en út á Grenivík. Og jafnvel þó að læknissetrið yrði fært, Grenivik yrði ekki lengur læknissetur, sem sjálfsagt er nú að breyta, þá mundi verða það sama upp á teningnum, að það yrði erfiðara fyrir íbúa Svalbarðsstrandar að sækja lækni annað en til Akureyrar. Ég fyrir mitt leyti mun því greiða atkv. með þessari brtt. hv. n. En þá vil ég, að það fylgi að leysa héraðslækninn á Akureyri undan skyldu til þess að gegna læknisstörfum austur í Fnjóskadal. Og það mundi mest létta á honum störfum, ef sú till. yrði samþ.

Mér sýnist það líka mjög óvarlegt að hafa héraðslækninn í þessu fjölmenna héraði, Akureyrarhéraði, oft og tíðum tepptan af ófærð eða illviðrum austur í Fnjóskadal, þannig að ómögulegt er að ná til hans fyrir meginhluta íbúanna í læknishéraðinu. Það gat verið eðlilegt, að Akureyrarlæknishérað væri látið ná austur í Fnjóskadal, eins og gert hefur verið, en ástæður eru breyttar. Það var ekkert vegasamband þangað til fyrir fáum árum við Höfðahverfi og Grenivík, og þá var það eðlilegt, að héraðslæknirinn á Grenivík hefði ekki öðru að þjóna en Grýtubakkahreppi og neðsta hluta Hálshrepps. En nú er þetta breytt. Nú er kominn akvegur alla leið til Grenivíkur og akvegur alveg inn í Fnjóskadalinn frá Höfðahverfinu, og þar af leiðandi mundi vera sízt erfiðara fyrir Fnjóskdæli að fá lækni frá Grenivík heldur en frá Akureyri. Og oft og tíðum gæti fallið svo, að það sé vel fært á milli Fnjóskadals og Grenivíkur, þó að það sé með öllu ófært yfir Vaðlaheiði. Hitt er svo annað mál, að þegar farið er að breyta Grenivíkurlæknishéraði á annað borð, þá ætti læknissetrið, að því er mér virðist, hreint ekki að vera á Grenivík, heldur ætti það að vera annaðhvort uppi í Dalsmynninu eða inni í Fnjóskadal, og þá mætti auðveldlega taka hluta af Breiðumýrarlæknishéraði og bæta við þetta læknishérað og yrði sennilega hagkvæmara.

Mér er ómögulegt að sjá, að þessi regla, sem upp er tekin í frv. og hv. n. hefur bundið sig við, að þegar læknishéruðum er breytt, þá eigi íbúarnir að sjálfsögðu rétt til að leita síns gamla læknis eða fyrri læknis, þrátt fyrir það að þeir séu komnir úr hans læknishéraði, — mér finnst þessi regla ekki vera nein stjórnarskrá, sem alls ekki megi víkja frá. Og þær breytingar, sem á læknishéruðunum eru gerðar í frv. og yfirleitt munu vera skynsamlegar, eru gerðar hálfþýðingarlausar með þessu. Ég vona því fastlega, að hv. d. sjái sér fært að samþykkja mína brtt. Verði það ekki gert, þá mun ég taka til athugunar að bera fram við 3. umr. till. um að skipta Akureyrarlæknishéraði í tvö læknishéruð. Og jafnvel þó að ég falli frá því á þessu þingi, þá getur ekki hjá því farið, að ef læknirinn á að gegna störfum fyrir austan Vaðlaheiði jafnframt sínum miklu störfum fyrir vestan heiðina, þá er það ekki nema lítið tímaspursmál, þar til verður að skipta þessu læknishéraði, því að eins og ég mun hafa vikið að í upphafi, þá er það ekki öðrum fært en alveg sérstökum dugnaðarog þrekmönnum að gegna slíku starfi. Mér er t.d. vel kunnugt um það, að héraðslæknirinn á Akureyri hefur oft orðið að vaka nótt eftir nótt og vinna auk þess á daginn. Hann er enn á sæmilega góðum aldri, en þó er það oft þannig, að hann er ákaflega þreyttur og verður að leggja ákaflega mikið að sér, og það ekki hvað sízt vegna þess, að hann verður oft að brjótast austur yfir Vaðlaheiði í ófærð og vondum veðrum. Að hinu leytinu er Grenivíkurlæknishérað fámennt, og það mundu ekki verða mikil störf fyrir lækninn í því héraði, þó að Fnjóskadalurinn allur bættist við hann raunverulega.