22.11.1954
Efri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

25. mál, læknaskipunarlög

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Samkv. því frv., sem hér liggur fyrir um læknaskipun, átti sú breyting að verða á læknishéruðum við Eyjafjörð, að Svalbarðsstrandarhreppur, sem tilheyrt hefur að undanförnu Akureyrarlæknishéraði, skyldi ganga undir Grenivikurlæknishérað, og sömuleiðis skyldu sóknirnar í Fram-Fnjóskadal, Illugastaðasókn og Hálssókn, sem hafa mátt vitja læknis til Akureyrar og verið í Akureyrarlæknishéraði, ganga til Grenivíkurhéraðs. Hv. heilbr: og félmn. leit með sanngirni á aðstæðurnar þarna og leggur til, að Svalbarðsstrandarhreppur haldi áfram að vera í Akureyrarlæknishéraði, enda virðist annað ekki koma til mála eftir aðstöðu hreppsins, sem er rétt á móti Akureyri, handan við Akureyrarpollinn. Fólk þar á daglegar ferðir til Akureyrar, hefur stöðugt opna mjólkurflutningaleið að vetrinum þangað, en aftur á móti lokaða leið norður í Grenivik, þegar verst viðrar, og sjaldan ferðir þangað. Nú hefur hv. 1. þm. Eyf. lagt hér fram till., sem kom fram eftir að fundur hófst og felur í sér, að réttur sá, sem frv. áskildi þessum tveimur byggðarlögum, Svalbarðsstrandarhreppi og sóknunum í Hálshreppi, til að sækja til Akureyrar, þótt þau teldust til annars læknishéraðs, verði af þeim tekinn og þessar byggðir hafi eingöngu rétt til að vitja læknis til Grenivíkur. En við nánari athugun hefur þó tillögumaðurinn fallizt á það, sem heilbr.- og félmn. leggur til, að Svalbarðsstrandarhreppur haldi áfram að vera í Akureyrarlæknishéraði, og með því viðurkennt staðreyndir, þó að till. upphaflega virðist vera miðuð við hitt. En þá er eftir í efni till. það, að Illugastaðasókn og Hálssókn fái ekki að hafa rétt til að sækja til læknisins á Akureyri.

Ósjálfrátt rifjast upp fyrir mér mál, sem var hér til meðferðar í hv. Ed. í fyrra, afréttarmál, sem hv. 1. þm. Eyf. flutti þá. Hann krafðist þess, taldi eðlilegt og sanngjarnt og hægt um vik fyrir Eyfirðinga hönd, að þeir fengju að nota Bleiksmýrardal, sem er afréttur, sem tilheyrir einmitt sömu mönnum sem eiga hlut að þessu læknaskipunarmáli, og má því segja, að ágengni Eyfirðinganna sé söm við sig í ár eins og hún var í fyrra.

Þannig háttar til í Illugastaða- og Hálssóknum, að aðstaðan til að vitja læknis til Akureyrar er miklu betri en til Grenivíkur, þó að hún sé ekki góð, þar sem Vaðlaheiði er yfir að fara. Þessar sóknir eru, eins og ég sagði áðan, í Fram-Fnjóskadal og liggja því framan við höfuðleiðina úr Þingeyjarsýslu yfir Vaðlaheiði til Akureyrar. Það er sú leið, sem oftast er farin og lengst er haldið opinni, en hins vegar er leið sú, sem þessir menn ættu að fara yfir þvera höfuðleiðina norður til Grenivíkur, ekki fullbyggður vegur, og henni er ekki haldið opinni á vetrum.

Hv. flm. till. sagði, að það fyrirkomulag, að Suður-Fnjóskdælir vitjuðu læknis til Akureyrar, en ekki Grenivíkur, hefði verið eðlilegt, þegar Grenivíkurhérað var stofnað og sú læknaskipun höfð, sem nú hefur gilt æði lengi, vegna þess að þá hefði ekki verið vegasamband fyrir Fnjóskdæli til Grenivíkur, eins og það er nú. En sannleikurinn er sá, að það hefur enn ekki verið byggður upp vegur á þessari leið um Dalsmynni og þess vegna er þarna um torvelda leið að fara, þó að fyrir komi á vorin, þegar Vaðlaheiði er að leysa, að sá, sem ræður yfir umferð f.h. vegamálastjóra, fyrirskipi, að Vaðlaheiði sé hvíld og þá sé farið um Dalsmynni, sem liggur lægra og hefur ekki eins dýran veg, og því minni eftirsjá, þó að hann skerist í vorleysingum, heldur en hinn dýri vegur yfir Vaðlaheiði. Allar höfuðferðir Suður-Fnjóskdælinga liggja til Akureyrar, en það er fágætt, að leið þeirra liggi til Grenivíkur. Akureyri er þeirra aðalviðskiptastaður og Svalbarðseyri. Enn fremur kemur það til greina, að símasambandið við Grenivík er miklu torveldara en við Akureyri, því að í Grenivík er mikinn hluta ársins aðeins 3. flokks stöð.

Hv. flm. till. sagði það, eins og rétt er, að Akureyrarhérað er erfitt fyrir héraðslækni, og það nýtur þess nú, að þar er afburða duglegur læknir. En úr því að vitnað er til læknis, sem gegnir embætti, og frá því sagt, að hann orki sínu starfi, af því að hann er duglegur, þá má líka geta þess, að sá læknir, sem gegnir nú embætti í Grenivíkurlæknishéraði, er heilsulítill maður, og það eitt út af fyrir sig mundi gera það mjög ófýsilegt í augum Fnjóskdælinga, ef þeir ættu að breyta til og vitja þess læknis, þótt torleiðið sé auðvitað aðalatriði.

Þess má geta, og á það mætti flm. till. líta, að gert er ráð fyrir því, að Illugastaðasókn og Hálssókn heyri til Grenivíkurlæknishéraði, en með fullum rétti til læknisvitjunar á Akureyri. Mér skilst, að þá verði þjónusta af hendi Akureyrarlæknis að einhverju leyti léttari en áður, t.d. muni eftirlit með barnaskóla ekki hvíla á honum áfram. Það mælir fyllsta sanngirni með því, að sú skipun haldist áfram, að Fram-Fnjóskdælir megi sækja lækni til Akureyrar, og ég er viss um það, að ef till. hv. 1. þm. Eyf. yrði samþ., þá mundu íbúar í sóknunum í Fnjóskadal telja það tilræði við sig.