22.11.1954
Efri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

25. mál, læknaskipunarlög

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Eyf., flm. brtt. á þskj. 187, er augsýnilega ekki vel ánægður með þá till. og greip til nokkurra undanbragða, sem honum eru nú annars ekki sérstaklega töm, því að venjulega er hann mjög hreinskilinn. Hann taldi, að í till. sinni fælist ekki það, að hann hefði ætlazt til, að með henni væri tekinn réttur af Svalbarðsstrendingum til þess að sækja lækni til Akureyrar. Ég sagði, að þetta fælist í till., en hann hefði séð sig um hönd, og ég þykist geta staðið við það. Hann hlýtur að viðurkenna það sem þaulæfður forseti og úrskurðarmaður um þingsköp, að till. hans mun koma til atkvæða á undan till. heilbr.- og félmn. og þar af leiðandi ná bæði til Svalbarðsstrandarhrepps og Illugastaðahrepps, ef hún verður samþykkt. Þess vegna er ekki til neins að ætla sér að gefa henni annað innihald eftir á en henni er hleypt af stokkunum með.

Það er ekki rétt sem hv. þm. hefur verið að halda fram, að auðveldari leið sé, nema með undantekningum, til Grenivíkur í lækniserindum heldur en til Akureyrar. Það er sem sé styttri leið til Akureyrar fyrir Illugastaðasóknarmenn og Hálssóknarmenn, bæði sumar og vetur. Það er aðeins sú undantekning, sem ég gat um í fyrri ræðu minni, stundum á vorin, þegar verið er að hlífa Vaðlaheiðarveginum. (BSt: Stundum á haustin og stundum á veturna.)

Hv. þm., tillöguflytjandi, talaði um, að það hefði átt að flytja læknissetrið úr Grenivík upp í Fnjóskadal eða eitthvað annað, til þess að hægt væri að taka inn í læknisumdæmið þessar sóknir og máske eitthvað af Reykdælahéraðinu. Nú er það svo, sem hann veit vel, en kannske ekki allir hv. þm. í þessari d., að fjölmennasta sveitin er Grýtubakkahreppur, og þar er talsvert stórt þorp, sem heitir Grenivík, og þar situr læknirinn. Nú er enginn vafi á því, að þessi fjölmennasti hreppur og þorpsbúarnir þar mundu verða mjög óánægðir með það, að læknissetrið yrði flutt frá þeim, og þeir hafa veruleg rök að mæla. A.m.k. þyrfti til þess miklu meiri undirbúning að sætta menn við slíka hluti og gera ráðstafanir um læknissetur heldur en hægt er að gera við afgreiðslu málsins nú.

Þá minntist hv. 1. þm. Eyf. á, að það væri ekki tilræði við Fnjóskdæli, þó að af þeim yrði tekinn rétturinn til að leita læknis til Akureyrar, heldur mætti segja, að það væri tilræði við Ákureyringa eða þá, sem eru í því læknishéraði, þegar læknirinn þaðan færi austur í Fnjóskadal og veðurtepptist þar, sem gæti komið fyrir. En á það vil ég benda, að ekki er það sambærilegt, vegna þess að á Akureyri eru margir læknar. Þar eru spítalalæknar, og þar eru sérlæknar, sem vitanlega hlaupa í skarðið, þegar lífsnauðsyn er, ef héraðslæknirinn er fjarverandi. En í Fnjóskadal er ekkert að leita, nema þá leitað væri ofan í Grenivík, sem venjulega er torveldara að komast heldur en til Akureyrar. Ég sendi því gjöfina aftur.

Ég verð að segja það, að mér finnst þessi till.

hv. 1. þm. Eyf. í alla staði óviðeigandi. Það hefði verið miklu mannborlegra af honum að flytja till. um það, að læknishéraði Akureyrar væri skipt, ef hann telur, sem líklega er rétt, mjög erfitt fyrir einn lækni að þjóna því héraði. En þar er þó bót í máli þetta, að á Akureyri eru fleiri læknar, sem hjálpa jafnan til, þegar mikið liggur við.

Ég vænti þess, að hv. þdm. felli brtt. 1. þm. Eyf., enda mun hann nú gera ráð fyrir því. Það réð ég af orðum hans, þeim sem hann sagði áðan og boðaði undanhald með.