22.11.1954
Efri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

25. mál, læknaskipunarlög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef aðeins rétt til að gera stutta athugasemd. Þar af leiðandi get ég ekki svarað síðustu ræðu lið fyrir lið. Ég ætla þó að láta hv. þm. S-Þ. vita það, að ég sem gamall forseti, eins og hann orðaði, var vanur því, og ég býst við, að flestir forsetar geri það, að bera fyrst upp brtt. við 1. gr. og þar á eftir brtt. við 2. gr. Brtt. n. um það að flytja Svalbarðsstrandarhrepp í Akureyrarhérað er við 1. gr. Mín brtt. er við 2. gr. og hlaut því að berast upp á eftir till. n. (Gripið fram í: En yrði hún felld, till. nefndarinnar?) Yrði till. n. felld, þá fyrst ætti hún við allt þetta svæði. En ég lýsti því yfir, að ég væri þeirri till. fylgjandi, þannig að ég hefði þá sennilega tekið þessa till. aftur við þessa umr. og borið hana fram í breyttri mynd við 3. umr., ef svo hefði farið.

Út af því, að ég taldi, að það væri í raun og veru gengið á Eyfirðinga með því, að læknir þeirra þyrfti oft að sitja tepptur austur í Fnjóskadal, hafði hv. þm. það að segja, að það væru nógir læknar til á Akureyri að hlaupa í skarðið. Þetta er rétt að því er Akureyrarbúa snertir, en það er ekki rétt að því er snertir íbúa sveitanna í kringum Akureyri. Læknar á Akureyri, aðrir en héraðslæknirinn, telja sér yfirleitt ekki skylt að fara út í sveitir og gera það ekki, nema alveg sérstaklega standi á. Það er mér kunnugt um.

Ég get ekki kannazt við, að ég sé á neinu undanhaldi í þessu máli. Menn verða oft að lúta ofureflinu. Ég býst við, að nú í þetta sinn sé nefndin í málinu mér ofurefli. En það verður hafin sókn á nýjum vígstöðvum, ef þessi till. mín fellur, eins og ég hef þegar getið um. Með því móti að hafa Akureyrarlæknishérað eins stórt og það hefur verið, — og ég tel, að það verði það að mestu leyti, ef mín till. verður felld, þá verði lítil raunveruleg breyting á því héraði, — þá er það óhjákvæmilegt, að innan mjög skammstíma verður að skipta læknishéraðinu í tvennt.