22.11.1954
Efri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

25. mál, læknaskipunarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég var nú því miður ekki kominn í deildina, þegar framsaga var höfð í þessu máli, og veit þess vegna ekki gerla, hvað n. hefur athugað af því, sem ég bað hana að gera við 1. umr. þessa máls. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. látið útbýta þeirri skýrslu, sem mþn., sem skipuð var til að athuga heilbrigðismál og spítalamál landsins, hefur samið og ég taldi að læknaskipunin væri svo nátengd, að varla væri hægt að gera það án þess að athuga læknaskipunina líka.

Ég bað hv. n. að athuga það vel, að þegar læknalögin voru samþykkt, eins og nú kemur líka ákaflega greinilega fram í nál., þá var miðað við það, að læknar væru það þétt, að þeir gætu veitt læknisþjónustu sóttir ríðandi eftir þeim vegum, sem þá voru, út um byggðirnar. Þá var og það, að ég taldi, að þar sem væru spítalar og kæmu spítalar, þar væri óumflýjanlega nauðsyn á að hafa tvo lækna, þetta bæri henni að athuga. Hafi hún gert þetta, þá hefur hún a.m.k. ekki komizt að þeirri niðurstöðu, sem ég vildi, — og hvort hún hefur gert það eða ekki, veit ég ekki, af því að ég var ekki hér staddur við framsöguræðuna.

Nú liggur fyrir þetta nál. frá milliþn., og ég skal nú ekki fara langt út í það, en það upplýsir, að læknarnir hér og þar um landið séu á ómagaframfæri hjá ríkinu. Það er hvorki meira né minna. Þeir eru á ómagaframfæri. Þeir hafa ekkert að gera. Og fleira segja þeir í því sambandi og virðast vera á því, að læknarnir í heild séu óþarflega margir, — svo óþarflega margir, að þeir leyfa sér að segja, að þeir séu á ómagaframfæri hjá ríkinu, hafi ekkert að gera. Það er sagt á 2. bls. í nál.

Nú vil ég enn á ný biðja n. að athuga gaumgæfilega þetta mitt sjónarmið, — það sjónarmið, að þar sem sé spítali, þar sé nauðsynlegt að hafa tvo lækna, og það sé óforsvaranlegt að láta liggja á spítala kannske 20, 30, 40 manns, hafa einn lækni til að stunda sjúklingana, og svo á hann líka að hafa hérað til að þjóna. Það geti oft kostað mannslíf á spítölunum sjálfum, ef hann fer frá, — eða útí í byggðinni, geti hann undir þeim kringumstæðum ekki farið, þó að hann sé sóttur, jafnvel hvað sem liggur við, af því að hann sé kannske nýbúinn að skera upp sjúkling, sem hann getur ekki farið frá.

Þetta sjónarmið vil ég að komi skýrt fram, og þess vegna vil ég líka, að Alþ. taki ákvörðun um það, hvar eigi að vera spítalar, og setji þar tvo lækna, og þá ekki lækni alveg þar ofan í. Og ég skal þá taka sem dæmi, að hérna 1 nál. á bls. 12 telja þeir, að það eigi að vera spítali á Blönduósi, það er að verða búið að byggja hann. Þeir segja, að sjúkrahús séu í smíðum á Blönduósi, Keflavík og Neskaupstað. 20 km frá Blönduósi er kominn annar læknir, sem hefur ósköp lítið læknishérað. Hvaða vit er í því að hafa annan lækni á Skagaströnd og einn lækni á Blönduósi og setja svo á Blönduósi spítala, sem á að rúma marga tugi manna, sem geta ekki án læknis verið og læknir getur ekki frá farið nærri því alltaf og yrði þess vegna að neita um að fara, þegar hann væri sóttur út úr kaupstaðnum? Í því er ekkert vit. Það á enginn læknir að vera á Skagaströnd, en það eiga tveir læknar að vera á Blönduósi.

Það er talað hér um, að það komi spítall á Suðurlandi, og gert ráð fyrir því, að hann komi á Selfossi. Hæstv. ráðh. hélt, að hann mundi koma í Hveragerði. Mér er sama, á hvorum staðnum hann kemur. Hvar sem hann kemur, þá þurfa þar að vera tveir læknar. Og þá höfum við ekkert að gera við lækni 10, 20 km frá honum, eins og núna er. Ef hann kemur á Selfossi, þá er læknir á Eyrarbakka og læknir í Hveragerði. Þeir hafa ekkert að gera.

Við þurfum að hafa tvo lækna og spítala á einum staðnum. Og það er allt annað mál, hvort læknirinn núna þurfi að hreyfa sig á bíl 10 km, 20 km eða 30 km eða hann þurfti að gera það, á meðan engir vegir voru og engar brýr. Það er ekki saman berandi.

Alveg gegnir sama um Sauðárkrók. Þarna er þó engan lækni hægt að spara, en við þurfum að fá þar spítala og tvo lækna. N. segir, að það eigi að koma þar spítali.

Sama máli gegnir á Ísafirði. Við þurfum að fá þar tvo lækna við spítalann, en engan á Súðavík. Það er um hálftíma keyrsla, eitthvað svoleiðis. Við höfum ekkert að gera með lækni þar. Við þurfum tvo lækna á Ísafirði við spítalann, og þeir eiga að hafa læknishéraðið, sem Súðavíkurlæknirinn hefur núna. — Alveg sama máli gegnir um Húsavík. Við þurfum að fá tvo lækna og spítala á Húsavík, og þá er vafamál, hvort lækni þarf á Breiðumýri.

Þetta vil ég láta n. rannsaka. Ég mun ekki koma með neina brtt. núna. En þetta er sú stefna, sem við eigum að taka upp í læknamálunum. Það er að setja læknana það þétt, að menn undir þeim skilyrðum, sem núna eru í landinu, en ekki eins og var fyrir 50 árum, geti sótt til þeirra og haft þeirra not, og séu þar spítalar, svo að þeir geti gert að því, sem þarf hjá mönnum, þurfi ekki að senda menn með kýli suður í Reykjavík, og annað þess háttar, heldur þurfum við að hafa spítala, svo að þeir geti lagt menn þar inn, gert á þeim meiri og minni skurði, eftir því sem læknarnir eru menn til. Og það þurfa að vera tveir um hvern spítala. En svo þarf ekki að vera læknir á næstu þúfu við spítalann, eins og lítur út fyrir að verði núna.