22.11.1954
Efri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

25. mál, læknaskipunarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að koma með brtt. í samræmi við það, sem ég sagði að ég teldi að þyrfti að gera, fyrr en ég sé, hvort n. athugar málið eða ekki, en ég mun þá koma með þær við 3. umr., svo að það liggi fyrir, hvað ég vil.

En ég vil bara benda síðasta hv. ræðumanni á það, að geti hann sannfært mig um það, að það komi svo mikill snjór, meiri snjór núna á veturna heldur en hafi verið áður, að það sé þess vegna þörf á fleiri læknum, — læknum, sem fari meira en hlutfallslega fjölgandi með bættum vegasamgöngum, — þá skal ég beygja mig. En ég held, að tíðarfarið sé ósköp líkt og það hefur verið, og hafi Skagstrendingar getað sótt lækni á Blönduós á hestum, frá því að landið byggðist, og utan af Skagatá, og til þessa dags, þá er þó ólíkt hægara núna að gera það heldur en var, eins og þeir hafa þurft að gera um langan tíma.

En það, sem ég stóð upp til núna, var að leggja hérna fram tvær brtt., sem eru báðar skriflegar, og þær eru fluttar eftir ósk íbúanna í Loðmundarfjarðarhreppi. Þeir hafa alla tíð heyrt til Seyðisfirði og óska eftir að fá að heyra til Seyðisfjarðarlæknisumdæmi áfram. Þangað er yfir einn, að vísu brattan, en stuttan fjallgarð að fara. En oftast er farið á sjó, og er stutt á sjó og að sumrinu til fastar áætlunarferðir þangað. Þar reka þeir alla sína verzlun, öll sín viðskipti, og þangað liggja allar þeirra leiðir, meðan þær liggja ekki til Borgarfjarðar, enda bæði lengra og verri fjallgarð yfir að fara og aldrei yfirleitt farið á sjó nema þá um hásumarið, því að það er miklu lengri leið og þar fyrir utan út á opið haf.

Ég legg þess vegna til, að á eftir orðinu „Seyðisfjarðarhérað“ í upphafi 38. töluliðar í I. gr. komi: Loðmundarfjarðarhreppur, — og úr 2. gr., tölulið 12, falli burt orðin „og íbúar Loðmundarfjarðarhrepps til Seyðisfjarðar“.