03.03.1955
Neðri deild: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

25. mál, læknaskipunarlög

Eiríkur Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. á þskj. 239 við frv. til læknaskipunarlaga, sem fyrir liggur til umræðu. Hún er í því fólgin, að Súgandafjörður verði sjálfstætt læknishérað. Áður hefur hann heyrt undir Flateyrarhérað. Er þetta svípuð breyting, að því er mér virðist, og margar þær breytingar, sem þegar hafa átt sér stað, og svipuð réttindi, sem þarf að gera þar, eins og á allmörgum héruðum víðs vegar um landið. Ég var ekki viðstaddur, þegar þetta frv. fór í gegnum 1. umr., og gat þess vegna ekki talað fyrir till. Ég bjóst þó við, að till. mundi mæta skilningi n., þegar hún fjallaði um málið, en mér virðist nú, að einhvern veginn hafi verið gengið fram hjá henni. En ég þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir það, að hann mælir með till., og jafnhliða skilst mér á frsm. n., að hann telji, að n. muni sjá ástæðu til að taka hana til athugunar, þegar n. íhugar betur frv. í heild og till., sem fyrir liggja.

Eins og hv. dm. víta sjálfsagt, þá er Suðureyri afskekkt hérað, fjöllum lukt á þrjá vegu og útsæ á fjórða veg. Það er því oft og einatt á vetrum, þegar vont er veður, algerlega ómögulegt fyrir þessa menn að nálgast lækni. Á Suðureyri er bátaútvegur í einna bezta ástandi, sem er á Vestfjörðum. Þar er duglegt, þróttmikið fólk, sem hyggst lifa þarna á sinni framleiðslu, á sjávarútvegi, og elnmitt það gefur ástæðu til að vinna að málinu á þennan hátt, því að oft er óþægilegt, þegar menn koma t.d. slasaðir að landi af sjó, ef ekki er hægt að ná undireins til læknis. Þetta veit ég að hv. dm. og hv. n. hlýtur að vera og verða ljóst, þegar málavextir eru athugaðir.

Ég vil ekki vera að telja upp hér einstök héruð, sem líkt stendur á um og eru búin að fá réttindi til læknissetra. En þess má geta, að það eru t.d. þrjú læknishéruð við Ísafjarðardjúp og það eru læknishéruð víðs vegar með Breiðafirði, sunnan, austan og norðan. Suðureyrarhéraði yrðu um 350 búsettir menn, og á vetrum hefur safnazt nokkurt fólk að bátaútveginum, og þá hygg ég, að það komist á fimmta hundrað manns. Eg tel, að vel megi stofna læknishérað um þennan fjölda manna, þar sem launakjör og aðstæður lækna eru orðin mjög breytt frá því, sem áður var, og þeir ættu að geta haft sæmilega lífsafkomu af því að vera þar. Og ekki sízt er ástæða til, finnst manni, að nýútskrifaðir læknar gefi kost á sér til að vinna skylduverk í þessu héraði, eins og l. um læknaskipan gera ráð fyrir að þeir geri.