10.03.1955
Neðri deild: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

25. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Helgi Jónasson):

Ég ætla að byrja á því að víkja örfáum orðum að ræðu hv. 6. þm. Reykv. (GMM). Það er ekki nóg að fá læknishérað sett í lög og að það sé svona tilbúið, þegar enginn fæst til þess að starfa í því. Og reynslan er sú nú úti um land, að fámennu héruðin standa auð, óskipuð. Héraðsbúum er enginn hagur að því, þó að þar sé lögskipað hérað, þegar enginn fæst til þess að starfa í því. Þannig er reynslan, sem eðlilegt er í þessum fámennu héruðum, að þangað fást ekki læknar.

Hann sagði náttúrlega skemmtilega sögu um það byggðarlag. En ef það þarf ekki annað en fjölga prestum til að fjölga mönnum í héraðinu, þá styð ég þá till., að prestum verði fjölgað miklu meira eða um helming og ráðnir þangað tveir prestar, þangað til þar er komið upp í 700 manns. Þá getur komið þangað læknir kannske með tímanum. Og ef það er eina ráðið og það dugir úti á landsbyggðinni að fjölga prestum, og þá fjölgar fólkinu með, þá sýnir það, hvað þeir eru miklu duglegri að fjölga fólkinu en læknarnir eru. Það er það vissa. Læknarnir fást ekki til að fara út í þau fámennu héruð, af því að þeir grotna þar niður og verða að engu. — Reynslan er sú, því miður. Og það var núna ekki fyrir löngu, að héraðslæknirinn á Ísafirði, — ég held hann hafi verið héraðslæknir í einum þremur eða fjórum héruðum, — ég man ekki, hvað þau voru mörg, að minnsta kosti þrjú, — sem honum var skipað að gegna. Það hefur verið gott fyrir hann. Hann fékk hálf laun úr 2–3 héruðum auk fullra launa fyrir eitt hérað. En fyrir fólkið var það engin bót, þó að það væri lögskipað hérað, þegar enginn læknir var í því.

Nú er svo komið, sem betur fer, að nú er þó hægt með hjálp flugvéla oft og einatt að komast á þá staði, sem ókleift var að komast á áður á sjó og landi, og nú er svo komið, að það er hægt að ná til þessara staða flestra eða allra með hentugum og góðum flugvélum, sjúkraflugvélum. Og er það mikil bót. Á svona stöðum með svona fátt fólk á að vera, eins og hefur verið á Suðureyri, hjúkrunarkona, sem getur haft það hvort heldur sem aðal- eða aukastarf til þess að vera til aðstoðar næsta héraðslækni til daglegrar umönnunar. Og svo vitanlega, þegar á þarf að halda, þá má komast þangað oft með flugvélum, sem nú eru orðnar fyrir hendi hér á landi, sem betur fer. Það er bara ekki nóg, að héruðin séu til í lögum, eins og búið er að vera með sum héruð í 10 ár, en aldrei hefur fengizt þangað skipaður læknir; það dugir ekki. Það er engin hjálp í því fyrir héraðsbúa, þó að það séu lög fyrir, að það sé læknishérað, þegar enginn læknir fæst til þess að starfa í því.

Þá skal ég víkja örfáum orðum að hæstv. heilbrmrh. Hann byrjaði á því að tala um sláturhús og frystihús. Ég sé nú ekki, að það eigi neitt skylt við skipun læknishéraða. Ætla ég að vona, að ekki verði slátrað í þessu nýja læknishéraði að Heilu, að það sé ekki meiningin að slátra íbúunum þar, það sé ekki gert ráð fyrir því, heldur væri það svona til gamans hjá honum að koma því að. Og ég átti engan þátt í því og stóð alveg nákvæmlega á sama um það, hvort byggt var sláturhús á Hellu eða ekki; það kemur ekki þessu máli við, ekki skapaðan hlut. Hann sagðist nú heldur vilja hafa fólkið með sér en sýslunefndina. En ég held, að það sé nokkuð sama, af því að sýslunefndin er líka fólkið. Og ég hef talað við fjölda Rangæinga núna síðan þetta frv. kom fram, og ég held, að það séu hér um bil allir á einu máli um það, að þeir vilja hafa læknana á sama stað. Og sýslunefndin öll, tólf menn, var einnig sammála um það, að læknarnir dveldust báðir á sama stað.

Ég tók það fram áðan, að það hefðu verið þrír af tólf, sem gerðu ágreining um staðinn. Einn þeirra — það var sýslunefndarmaður VesturLandeyjahrepps — óskaði eftir, að hann sæti á Heilu. Tveir sýslunefndarmenn, Landhrepps og Holtahrepps, óskuðu þess, að læknirinn sæti á Vegamótum í miðjum Holtahreppi. Níu og þar á meðal þrír sýslunefndarmenn, sem eru í hinu nýja héraði, sem á að vera Helluhérað eftir frv., voru með því, að læknir sæti á Stórólfshvoli. Og ég er alveg sannfærður um það, að sýslunefndarmennirnir hafa vitað vel um vilja fólksins. Þeir hefðu ekki gert þessa samþykkt á móti vilja sinna hreppsbúa.

Ég man það líka, að 1938 komu fram hér Alþingi undirskriftir um skiptingu Rangárhéraðs í tvö héruð. Ég flutti till. á Alþingi um það á því ári, að þetta yrði gert, og fyrir því fékkst heimild. Þá átti að skipta því um Ytri-Rangá. Þar voru þá 3 hreppar í Rangárhéraði og svo átti auk þess að taka tvo eða 3 hreppa úr Árnessýslu í nýtt hérað og læknirinn sæti í Þjórsártúni. Þessi heimild var samþ. hér á Alþingi 1938. Ég flutti þá till. samkv. ósk hreppsnefnda og fólksins í þessum hreppum, sem allir mæltu með því, nema einn hreppur, Landmannahreppur, hann var á móti því. Landlæknir fór austur til þess að athuga þessi mál, og þegar á átti að herða, þá var bara áhuginn enginn. Hann var ekki til staðar fyrir því, að héraðinu yrði skipt, og ekkert varð úr því. Þegar hann fór að kynna sér málið, þá var enginn maður á því, að honum fannst, og ekkert varð úr þessari skiptingu þá.

Eins og ég tók fram áðan, þá er það rétt, að nú vilja menn fá 2 lækna. Það er rétt. Þeir vilja

fá þá og telja sig með því fá betri læknisþjónustu. En ég held, að það sé óhætt að fullyrða það, að mikill meiri hluti þeirra vill hafa læknana á sama stað, eins og ég gat um áðan, og skal ég ekki endurtaka það. Þeir mundu með því fá betri læknisþjónustu og á allan hátt heppilegri fyrir héraðið í framtíðinni.

Þá minntist ráðherrann hér á sjúkrahúsmálin. Ég skal játa það, að ég flutti hér á Alþ. fyrir nokkrum árum frv. til l. um fjórðungssjúkrahús, sem varð að lögum, og ég taldi þá réttast, að það yrði rekið eitt sjúkrahús á Suðurlandsundirlendinu og þá á Selfossi. Síðan hefur nú margt breytzt í þessum sjúkrahúsmálum. Þegar ég flutti frv., þá voru fjórðungssjúkrahúsin þau einu, sem áttu lögum samkvæmt von á rekstrarstyrk frá Alþ. Nú er þessu breytt. Nú er farið að veita svo að segja öllum sjúkrahúsum einhvern styrk til rekstrar, sem var ekki þá, svo að náttúrlega hefur að því leyti aðstaðan breytzt frá því, sem áður var, þegar ég flutti mitt frv. Og ég fyrir mitt leyti held það enn þá, þó að þetta sé nú breytt, að þessar sýslur þyrftu að vera saman um sjúkrahús. En það er fleira en sjúkrahús, sem þarf að reisa. Eins og ég gat um áðan, þá er það heilsuverndarstarfsemi alls konar, sem þarfnast að fá húsnæði yfir sig, gamalmennahæll, kannske fyrir sængurkonur líka, hæli o.s.frv., og þá er það heppilegra, — og það sá sýslunefnd Rangvellinga, — að héraðið hafi á sama stað eina miðstöð, heldur en dreifa því í tvo eða fleiri staði.

Við vitum það, sem kunnugir erum í sveitunum, að það er nú komið svo, að hver lítill hreppur verður að hafa sína kirkju, sinn barnaskóla og sitt félagsheimili. Þetta er til svo að segja í hverjum hreppi á landinu nú orðið. Og við vitum það vel, að það er hægt að koma þessu upp með aðstoð ríkisins og með fórnfúsu framlagi þeirra manna. En það gengur ákaflega erfiðlega fyrir þetta fólk að halda þessum húsum við og halda í horfinu; það er svo dýrt. Og með allri viðleitni, sem miðar að því að gera þetta smærra og fólkið þannig færra, sem að því stendur, þá sjáum við allir, að það stefnir að því, að þeir komist í þrot með að geta rekið svona stofnanir. Við sjáum skjöldóttar kirkjur, gluggalaus félagsheimili úti um land, þeir sem um landið fara, og þó eru þau ekki gömul, því miður. Fólkið er búið að taka það nærri sér að koma þessu upp. Það hefur komið þessu fram fyrir mikið átak. En svo þegar fram í sækir, þá er erfiðara um vik að geta haldið þessu í horfinu eins og þyrfti vegna fjárskorts, sem meðal annars stafar af því, hvað fólkið er fátt, sem að þessu stendur.

Alveg sama máli gegnir með það, ef eitthvað verður gert í þessum málum með heilsuverndarstöðvar. Það verður vitanlega heppilegra, að það sé ein miðstöð í sama héraði, a.m.k. þar sem hægt er að koma því við með góðu móti, heldur en að þær séu tvær eða fleiri, því að það verður aldrei nema svipur hjá sjón um það að geta rekið þær á sæmilegan hátt.

Eins og ég tók fram áðan, þá er ég að fara úr Rangárhéraði, svo að mér kemur þetta ekkert við í sjálfu sér frá mínu hagsmunasjónarmiði séð. En ég vildi bara, að fólkið fengi með þeirri breytingu, sem nú verður gerð á héraðinu, hver sem hún verður, þá þjónustu, sem því hentaði bezt og vildi helzt fá. Og ég fullyrði það, að það vill fá tvo lækna og helzt hafa báða á sama staðnum.