10.03.1955
Neðri deild: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

25. mál, læknaskipunarlög

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að tala langt mál. Hv. 2. þm. Rang. minntist hér á skiptingu Rangárhéraðs 1938, sem hefði komið til mála. En þá voru bara þrír hreppar í vestanverðri sýslunni, sem áttu að vera með, og þegar hann fer að tala um þetta, þá minnir mig, að það hafi átt að vera einhverjir hreppar í Árnessýslu líka, — er það ekki rétt? En þetta þótti nú víst að athuguðu máli ekki heppileg skipting. Og það hefur legið í landi núna lengi umtal um að skipta Rangárhéraði, vegna þess að þetta var orðið langstærsta sveitahéraðið, en var látið kyrrt liggja vegna þess, að héraðslæknirinn beitti sér ekki fyrir því, og þetta hefur nú sem betur fer ekki orðið til neinnar slysni. Hins vegar veit ég, að bæði hann og hans staðgenglar, sérstaklega staðgenglar hans, hafa kvartað mikið undan því, hvað það væri allt of mikið að gera. Sérstaklega þessi síðasti, Valtýr Bjarnason, sem er nú orðinn alþekktur fyrir dugnað, hefur látið það í ljós við mig og marga, að það væri allt of mikið að gera. Og þegar læknirinn fær ekki að sofa kannske nótt eftir nótt nema örfáa tíma, þá er of mikið að gera fyrir einn mann. Það er nú ekkert um það að ræða, enda erum við ekki að deila um það núna.

Við erum sammála um það, að þarna eigi að vera tveir læknar. Við erum að deila um annað, og það er það, hvort þeir eiga að vera á sama stað eða hvort hvor læknir á að vera búsettur í sínu héraði. Og af því að hv. 2. þm. Rang. endurtók aftur þá staðhæfingu, að sýslunefndin hefði verið á einu máli um það að hafa læknana á sama stað, og síðan, að aðeins einn hefði viljað hafa hann á Heilu og tveir hefðu viljað hafa hann á Vegamótum, þá get ég upplýst, að sýslunefndarmaður Holtahrepps vildi hafa hann á Hellu, sýslunefndarmaður Landhrepps vildi hafa hann á Hellu, sýslunefndarmaður Vestur-Landeyjahrepps vildi hafa hann á Hellu. Sýslunefndarmaður Ásahrepps var einn af þeim, sem skrifuðu undir í vor, en fyrir áróður sýslumanns Rangæinga og hv. 2. þm. Rang., af því að þetta er nú ágætur flokksbróðir þeirra, gerði hann það fyrir þá að snúast í þessu máli. Sýslunefndarmaður Rangárvallahrepps, Oddur Oddsson á Heiði, skrifaði einnig undir í vor, og hann sagði við mig í vetur eftir þennan aukasýslufund, að hann hefði komið seint á fundinn og ekki verið búinn að átta sig á þessu, en að sjálfsögðu hlyti hann að vilja hafa lækninn á Hellu, eins og augljóst hlýtur að vera, því að þetta er í hans hreppi. (Gripið fram í.) Það er náttúrlega ágætt að lesa upp bréfið, en svona er nú þetta, að bæði sýslunefndarmaður Rangárvallahrepps og Ásahrepps voru í fararbroddi í vor með áskorun um það, að læknirinn yrði búsettur í hinu nýja héraði.

Þá er, held ég, ekki ástæða að vera að ræða um þetta meira, annað en það, að það er vilji fólksins, að læknarnir séu tveir, að þeir séu hvor í sínu lagi, búsettir í sínu héraði.

Hv. 2. þm. Rang. taldi það furðulegt, að það væri verið að minnast hér á frystihús í sambandi við þetta, en hann verður að fyrirgefa mér, að það vaknaði í huga mínum, vegna þess að mér fannst, að á bak við þetta hvort tveggja væri sami hugsunarhátturinn og var, þegar verið var að ræða um stofnun og staðsetningu þessa nefnda frystihúss. — Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða meira um þetta við þessa umr. málsins.