25.03.1955
Efri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

25. mál, læknaskipunarlög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég sé það, að hér eru brtt. við þetta frv. á þskj. 506. Sú fyrri, aðaltill., er um að breyta því ákvæði frv., að suðurbyggð Reyðarfjarðar skuli tilheyra Eskifjarðarlæknishéraði, m.ö.o. að breyta frv. að þessu leyti í sama horf og það var, þegar það fór hér frá hv. Ed. og þegar það kom fram. En í hv. Nd. var samþ. brtt. frá mér um það, að Eskifjarðarhérað skyldi haldast óbreytt eins og það hefur verið og er í dag, sem sé þannig, að suðurbyggð Reyðarfjarðar, þó að hún sé í Fáskrúðsfjarðarhreppi, skuli vera í Eskifjarðarlæknishéraði.

Ég held því fram, að það sé að öllu leyti miklu eðlilegri skipan að hafa þetta eins og það er og hefur verið. Það leikur ekki á tveim tungum, að það fólk, sem hér á hlut að máli og er eitthvað 8 eða 10 fjölskyldur, er miklu betur sett að eiga læknissókn á Eskifjörð heldur en á Fáskrúðsfjörð og það á að öllu leyti heima í læknishéraði með Eskfirðingum og öðrum, sem tilheyra Eskifjarðarhéraði. Það væri hægt að færa fyrir þessu margvísleg rök, og kunnugir menn þekkja þetta gerla. Þessi byggð er við Reyðarfjörð, en ekki Fáskrúðsfjörð, þó að hún heyri til Fáskrúðsfjarðarhreppi. Það er yfir vondan fjallveg að fara til Fáskrúðsfjarðar á vetrum eða þá með sjó nær algerlega ófæra leið, svokallaðar Vattarnesskriður. Það dettur engum manni í hug að sækja lækni til Fáskrúðsfjarðar að vetrarlagi úr suðurbyggð Reyðarfjarðar. Það eru margar fleiri ástæður, sem hér koma til greina, t.d. eins og það, að það er hægt að hafa símasamband 22 tíma á sólarhring til Eskifjarðar, en 9 klst. á sólarhring til Fáskrúðsfjarðar.

Það er ekki borið á móti þessu. Eina ástæðan, sem færð er fyrir því að breyta nú til og færa þennan hreppshluta yfir í Búðahérað, er sú, að það sé auðveldara að gera skýrslur á hagstofunni með því móti að haga þessu þannig, að hver hreppur um sig heyri í heilu lagi til sama læknishéraði; það sé auðveldari skýrslugerð. Ég hef nú kynnt mér það, hvaða skýrslugerð hér er um að ræða, og það er aðallega skýrslugerð um mannfjölda í hverju læknishéraði um sig. Það eru skýrslur um dána og fædda. Á hinn bóginn verða sjálfar heilbrigðisskýrslurnar auðvitað að gerast með allt öðru móti og á vegum landlæknis, og þær koma þessu máli ekkert við.

Nú ber ég ekki á móti því, að það muni vera dálítið þægilegra og spara örlítið verk, — ég skal ekki gizka á, hvað það er, það getur verið tveggja tíma verk fyrir einn mann, sem hægt væri að spara með því að hafa þetta þannig, að þessi hreppshluti tilheyrði Fáskrúðsfjarðarlæknishéraði í staðinn fyrir Eskifjarðarlæknishéraði. En við því segi ég það, að við erum að setja lög um læknaskipun, en ekki lög nm skýrslugerð, og það sýnist mér vera höfuðatriðið í þessu. Þess vegna get ég ómögulega skilið það, að það þurfi að vera að gera það að nokkrum ágreiningi eða vekja nokkra óánægju um þetta. Það fólk, sem hér á hlut að máli, vill endilega fá að vera áfram í Eskifjarðarlæknishéraði, og ég get ekki séð, að hér sé um slíkan verksparnað að ræða eða slíka verkatöf að ræða við skýrslugerð, að það þurfi þess vegna að ganga á móti vilja þess og lögleiða, að byggðahlutinn skuli tilheyra Fáskrúðsfjarðarlæknishéraði.

Nú er því haldið fram, að það sé gert ófyrirsynju að vera að finna að þessu og þetta sé gert vegna þess, að í lögunum standi, að þessir íbúar eigi rétt til þess að sækja lækni á Eskifjörð áfram, ef þeim svo sýnist, lagabreytingin sé í raun og veru form eitt og þess vegna taki því ekki að vera að gera veður út af þessu. En frá mínu sjónarmiði er þetta nú ekki alveg svona einfalt, vegna þess að læknishérað er ekki bara samfélag um lækni. Læknishérað er líka elns konar elning í heilbrigðismálum. T.d. á læknishérað að standa saman um læknisbústað og sjúkraskýli, ef það kemur til. Og þessu fólki finnst, að ef þessu sé breytt þannig, að það tilheyri orðið Fáskrúðsfjarðarlæknishéraði, þá sé það orðið hálfgert utanveltu í Eskifjarðarlæknishéraði. Ef t.d. kemur til með læknisbústað eða sjúkraskýli í Eskifjarðarlæknishéraði, þá sé ekki ætlazt til þess, að þetta fólk eigi þar hlut að. Þó er það einmitt vilji þess að vera þar með. Mér finnst þetta rök, sem eigi að taka til greina í þessu máli, og mér finnst það langt frá því nokkur knýjandi nauðsyn að vera að lögbjóða þessa breyt., þar sem íbúarnir í þessu byggðarlagi mjög gjarnan vilja fá að vera áfram í héraðinu eins og verið hefur.

Ég vildi þess vegna fara fram á það við hv. deild, að hún geti fallizt á að samþykkja ekki þessa brtt., sem hér liggur fyrir, og samþ. þá aðeins varatill., en hún er eins konar leiðrétting á frv.