25.03.1955
Efri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

25. mál, læknaskipunarlög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hæstv. ráðh. hefur upplýst hér, að það hafi ekki verið eftir hans ósk, að væri verið að spara ríkissjóði þau útgjöld, sem eru samfara þeim breytingum, sem hér er verið að ræða nm. Mér þykir mjög leitt, að hæstv. ráðh. skuli hafa gefið slíka yfirlýsingu. Hún sannar, að hann fylgist ekki sérlega mikið með þeim stofnunum, sem heyra undir hans ráðuneyti. Þó er vitað, að ráðh. gerir árlega kröfur til hv. fjvn. og stofnananna um að gera allt til þess að draga úr kostnaði við reksturinn. En nú er hér upplýst, að sjálfur hæstv. fjmrh. veit ekkert um, hvernig þessum málum er stjórnað, og honum er það alveg óþekkt fyrirbrigði, að stofnun, sem heyrir undir hans ráðuneyti, gerir tillögur um stórkostlegan sparnað í rekstri, sem betur má fara. — Ég held nú, að hann sé að segja ósatt hér um sitt ágæta starf. Ég heid, að hann hljóti að hafa vitað um þetta og hann hafi einmitt staðið, sem eðlilegt er, á bak við slíka sparnaðarráðstöfun; það sé bara eitthvað, sem hann hefur gleymt að skýra frá hér í dag.

Það er þó ekki það, sem er afgerandi í þessu máli, sem hér er til umræðu, hvort það kostar nokkrum krónum meira eða minna fyrir ríkissjóðinn að samþykkja, að eitt hérað skuli hafa hér sérstöðu, heldur hitt, sem er kjarni þessa máls, að ef á að taka þessa stefnu upp í einu læknishéraði, þá á að taka hana um allt land. (Dómsmrh.: Ég er sammála því.) Já, þá á að taka hana um allt land, og hvað kostar það þá ríkissjóðinn? (Dómsmrh.: Eigum við ekki að vísa þessu til stjórnarinnar? — Fjmrh.: Kannske 300 kr. eða eitthvað svo]eiðis.) Hér er um stjórnarfrv. að ræða, og það hefur verið lögð á það mjög mikil áherzla af hagstofunni og landlækni, að málið næði fram að ganga, m.a. til þess að spara ríkissjóði ákveðin óþarfaútgjöld, eins og ég gat um áðan.

Ég skal svo ekki að öðru leyti ræða frekar um málið. Málið liggur alveg ljóst fyrir, og ég vona, að þessi hv. d. haldi sér að því að skapa hér hinum ýmsu mönnum í landinu sömu lög, en gefa ekki einum meiri rétt en öðrum, eins og hér er hugsað að gera samkv. kröfu hæstv. ráðherra.