25.03.1955
Efri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

25. mál, læknaskipunarlög

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Því miður var ég á fundi á öðrum stað hér í húsinn og hef ekki getað fylgzt með þeim umræðum, sem hér hafa farið fram. En eftir ræðu hæstv. dómsmrh. virðast umræðurnar hafa farið inn á alleinkennilega braut og eitthvað einkennilegar skoðanir, sem hafa verið túlkaðar hér í sambandi við frv. um læknaskipunarlög, sem er búið að ganga í gegnum sex umræður í þinginu.

Það er dálítið einkennileg málsmeðferð, sem þetta frv. ætlar að fá, ef nú, eftir að búið er að samþ. frv. við sex umræður í báðum deildum, er komin ástæða til þess að vísa málinu til ríkisstj., vegna þess að málið sé flutt á skökkum forsendum og í slíku formi, sem ekki samrýmist almenningsheill. Það verður að upplýsast, og það er reyndar öllum hv. þm. ljóst, að þetta frv. hefur verið til athugunar í hv. heilbr.- og félmn. beggja deilda, og ég held, að þeir, sem hafa athugað frv., hafi gert sér það fyllilega ljóst, að frv. er sniðið fyrst og fremst með það fyrir augum að gera fólkinu í landinu, hvar sem það býr, sem auðveldast að ná til læknis. Hitt er svo ágætt, ef það getur farið saman að auðvelda fólkinu að ná til læknis og að auðvelda bókhaldið hjá hagstofunni. Og þar sem það getur farið saman, er að því stuðlað. En af því að það tókst nú ekki að láta það fara alls staðar saman, þá eru nokkrir hreppar þannig, að þeir eiga jafnan rétt til tveggja lækna.

till., sem hefur valdið þessum umræðum, var samþ. í Nd. og flutt af hæstv. fjmrh. í sambandi við Eskifjarðarlæknishérað, og það eru 8 bæir, sem þar er um að ræða. Hæstv. fjmrh. segir, að það sé eðlilegra, að þessir 8 bæir vitji læknis í Eskifjarðarhéraði. Hagstofustjóri heldur því hins vegar fram, að það hæfi betur fyrir hans bókhaldsvélar, að þessir 8 bæir séu í Reyðarfjarðarhéraði. Þegar þessi till. var til umræðu í Nd., þá blandaði ég mér ekkert í málið, vegna þess að mér fannst þetta ekki vera stórmál út af fyrir sig, og lét það kyrrt liggja. Og ég býst við, að þessi hv. d. hefði ekki séð ástæðu til að flytja

till. til breyt. á frv., ef frv. hefði ekki eigi að síður orðið að fara aftur til Nd. vegna smávegis prentvillu, sem í frv. er. Og það er vegna þess, að það verður að fara til Nd. aftur, að hv. félmn. í þessari d. hefur flutt þessa brtt., en ekki af því, að .n. eða d., að ég hygg, álíti .þetta það stórmál, að það væri þess vegna tilvinnandi að fara að hrekja málið á milli deilda.

Ég mótmæli því alveg, að frv. verði vísað til ríkisstj. Ég tel eðlilegt, að frv. verði gert að lögum, og ég tel allt annað til vansæmdar hv. Alþingi. Það er búið að samþ. kjarna frv. við sex umræður, og nú við þessa umr. er verið að deila um hreint aukaatriði. Ég ætla ekkert við þessa umr. að leggja til um það, hvort brtt. verður samþ. eða ekki. Það er smámál frá mínu sjónarmiði séð í hv. Ed., eins og það var í Nd.

Ég veit, að þessi hv. d. hefur ekki skipt um skoðun, frá því að frv. var hér áður til umr., og að hún mun samþ. frv., annaðhvort óbreytt eða með því að samþ. brtt., sem flutt hefur verið.