10.03.1955
Efri deild: 56. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

170. mál, lækningaferðir

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til laga um lækningaferðir.

Eins og kunnugt er, þá hefur að undanförnu tíðkazt, að augnlæknar færu út um land á sumrin til þess að auðvelda fólki úti um byggðina að ná til þeirra. Sérfræðingar eru yfirleitt ekki búsettir úti á landsbyggðinni. Þeir ern sem sagt eingöngu hér í Reykjavík og aðeins örfáir á Akureyri. Því var það fyrir nokkrum árum tekið upp, að augnlæknar ferðuðust umhverfis landið einu sinni á ári og gæfu fólki kost á því að ná til þeirra þar.

Þetta frv. ætlast til þess, að fleiri sérfræðingar taki upp þann hátt, sem augnlæknar hafa áður gert, þ.e. háls-, nef- og eyrnalæknar og tannlæknar, en slíkir sérfræðingar eru ekki búsettir úti á landi, eins og áður er sagt. Með þessu frv. er ætlazt til, að það sé tekin upp fjárveiting á fjárlögum árlega í þessu skyni, til þess að mæta að nokkru leyti þeim kostnaði, sem þessar ferðir hafa í för með sér. Á núgildandi fjárlögum eru 7200 kr. í því skyni að auðvelda augnlæknunum að komast út á land og hafa samband við fólkið, og ef háls-, nef- og eyrnalæknum og tannlæknum væri bætt þarna við, þá mætti gizka á, að það þyrfti að þrefalda þessa upphæð, til þess að lögin næðu tilgangi sínum. Og það er náttúrlega ekki nein stór upphæð, en gæti haft hins vegar ákaflega mikla þýðingu fyrir fólkið úti í hinum dreifðu byggðum að eiga þess kost að fá þessa sérfræðinga til sín.

Það er nú orðið áliðið þingsins, og má segja, að frv. komi nokkuð seint fram. En vegna þess, hvað þetta er lítið frv. í sjálfu sér og einfalt og ber lítinn kostnaðarauka í för með sér, en er þó þýðingarmikið, þá vil ég samt gera mér vonir um, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, þótt það sé seint fram komið. Ég leyfi mér að fela hv. d. frv. til afgreiðslu og leyfi mér að óska þess, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og heilbr: og félmn.