08.11.1954
Efri deild: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

2. mál, stýrimannaskólinn í Reykjavík

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Efni þessa litla frv. er um það að fjölga um einn hinum föstu kennurum við stýrimannaskólann, og er þó talið, að ekki þurfi að verða af því verulegur kostnaðarauki, sökum þess að stundakennsla muni þá minnka að einhverju leyti þar á móti. En þörf er á því að fá sérmenntaðan mann til þess að taka þessa kennslu að sér, og þannig stendur á, að ekki eru líkur til, að maður fáist til þess að leggja stund á þá sérfræði, sem hér er um að ræða, nema öruggt sé, að hann fái starf að framhaldsnámi sínu loknu. Af þessum ástæðum er frv. borið fram.

Að öðru leyti má segja, að í frv. séu aðeins leiðréttingar á eldri lögum til samræmis við það, að nú er stýrimannaskólinn kallaður heyra undir samgmrn., heyrði áður undir atvmrn., en eftir að því rn. var skipt, er það svo samgmrn., sem skólinn er kominn undir. Hins vegar hefur mér með sérstökum úrskurði verið falin meðferð þess hluta samgmrn., sem hefur með þennan skóla að gera, og þannig kemur hann undir mig, þó að ég að öðru leyti sé ekki samgmrh. En af því tilefni vakti ég athygli á því í hv. Nd., að það er í raun og veru óeðlilegt, að ýmsir skólar eru látnir heyra undir sérstök fagráðuneyti, ef svo má segja, en ekki undir menntmrn. Þannig heyrir þessi skóli undir samgmrn., þó að vélstjóraskólinn, sem að ýmsu leyti er sambærilegur, heyri undir menntmrn. Búnaðarskólar heyra nú undir landbrn. og eins húsmæðraskólar í sveitum. Aftur á móti húsmæðraskólar í bæjum heyra undir menntmrn. (Gripið fram í.) Það má vera í þessu síðasta nokkur misskilningur hjá mér, og getur verið, að húsmæðraskólar í sveitum séu lagðir undir núverandi landbrh. með sérstökum úrskurði, en skólarnir sjálfir séu að öðru leyti meðhöndlaðir í menntmrn. Verzlunarskólar aftur á móti heyra undir atvmrn., en hafa með sérstökum úrskurði verið lagðir undir mig. Iðnskólar heyra undir iðnmrn. eða þann mann, sem fer með iðnaðarmál. Eðlilegast væri, að þetta allt heyrði undir menntmrn. og siðan væri hægt að skipta því á mismunandi ráðherra, ef menn sjá ástæðu til. Hins vegar hef ég nú ekki gert till. til breytingar á þessu, bæði vegna þess, að til þess að koma slíkum breytingum fram mundi þurfa samkomulag á milli flokka, þegar samstjórn á sér stað, eins og nú, og eins hitt, að ef til vill er þörf á því, að það verði gert sem fyrst að endurskoða alla starfsskiptingu milli ráðuneyta í stjórnarráðinu og setja ný heildarlög um stjórnarráðið, og væri þá sennilega bezt að taka þessi atriði þar til meðferðar. Ég vildi þó benda á þetta atriði hér í hv. d., til þess að menn gætu hugleitt það og þá borið fram brtt., ef þeim svo sýnist.

Mál þetta var í Nd. til meðferðar í hv. sjútvn., og er sennilega eðlilegast, að það fari til hennar hér, en ekki til hv. menntmn., þótt málið í eðli sínu sé ekkert annað en menntamál, þar sem hér er um að ræða ráðningu á nýjum kennara. En hv. Nd. felldi beinlínis að láta málið ganga til menntmn., og geri ég því að till. minni hér, að það gangi til sjútvn. Vonast ég svo til, að málið megi ganga til 2. umr.