14.10.1954
Efri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

4. mál, hegningarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Um hin almennu hegningarlög gildir það framar flestum öðrum lögum, að hin mesta nauðsyn er á, að vel sé til þeirra vandað og þau séu í sem beztu samræmi við þjóðfélagshætti og réttarmeðvitund almennings á hverjum tíma. Hegningarlög þau, sem við eigum nú við að búa, eru frá 1940 og því tiltölulega ung, enda verður ekki talið, að þau séu enn orðin úrelt í neinum höfuðatriðum eða samsvari ekki í öllu verulegu kröfum tímans. Með núgildandi hegningarlögum voru gerðar margar og mikilvægar breytingar frá því, sem áður gilti, enda leystu þau af hólmi hegningarlög frá 1869, sem voru, eins og við var að búast, orðin úrelt í mörgum greinum og voru miðuð við aðrar stefnur og sjónarmið í refsimálum en síðar hafa rutt sér til rúms.

Á þeim tíma, sem liðinn er síðan hegningarlögin frá 1940 komu í gildi, hefur fengizt allmikil reynsla, sérstaklega í dómframkvæmd, um einstök atriði laganna, m.a. um nýmæli þau, er í þeim fólust. Á þessum tíma hefur einnig farið fram endurskoðun hegningarlaga í ýmsum löndum, þar á meðal á Norðurlöndunum þremur, Danmörku, Noregi og Svíþjóð, þar sem fastar nefndir refsilagafræðinga hafa á undanförnum árum unnið að endurskoðun hegningarlaga. Hefur það leitt til þess, að ýmsir kaflar hegningarlaga þeirra landa hafa nú verið færðir í nýtt horf.

Ég hef talið, að tímabært væri einnig hér á landi að taka hegningarlögin til endurskoðunar og gera á þeim þær endurbætur, sem teljast mega nauðsynlegar eða heppilegar, miðað við þá reynslu, sem þegar er fengin af þeim, og með hliðsjón af þeim nýjungum í refsimálefnum, sem á síðustu tímum hafa rutt sér til rúms erlendis og til bóta þykja horfa. Af þessum sökum skipaði ég árið 1952 n. þriggja manna til að vinna að þessum málum, þá hæstaréttardómarana Jónatan Hallvarðsson og Þórð Eyjólfsson og Ármann Snævarr prófessor í refsirétti við háskólann. Hafa þeir síðan jafnframt öðrum störfum sínum unnið að endurskoðuninni og samið frv. það, sem hér liggur fyrir. Kemur það í stað VI. kafla hegningarlaganna, um skilorðsbundna refsidóma, og 30. gr. laganna, um heimild dómsmrh. til að fresta ákæru eða láta saksókn niður falla með tilteknum skilyrðum. Raska þessi ákvæði frv. ekki að neinu leyti öðrum fyrirmælum hegningarlaganna, og eru þau svo sjálfstæð, að leiða má þau í lög, þó að endurskoðun laganna að öðru leyti sé ekki lokið.

Það kom til álita, hvort bíða ætti með þetta frv., þangað til allri endurskoðun laganna væri lokið, en bæði mér og nefndarmönnum sýndist það einsætt, að með því væri skapaður alveg óþarfur dráttur. Þetta frv. er alveg sjálfstæð heild, þó að það fjalli um sérstakan kafla hegningarlaganna, og ef menn á annað borð telja, að í því felist réttarbætur frá því, sem nú er, þá er vinningur við að fá þær sem fyrst. En greinilegt er, að endurskoðun hegningarlaga er svo vandasamt verk, að það hlýtur að taka alllangan tíma, jafnvel mörg ár. Ég ætla því, að það sé fyrir allar sakir heppilegra að leggja jafnóðum fram þá einstöku kafla, sem lokið er við endurskoðun á, heldur en að geyma allt til einnar meðferðar, enda eru meiri líkur til þess, ef þetta er tekið í slíkum hlutum, að þá átti almenningur sín betur á málinu, geri sér frekar grein fyrir, í hverju breytingarnar eru fólgnar, og eins fari hér á Alþingi, að menn fái frekar yfirlit um það, hvað er að gerast, hverjar brtt. eru. En vitað er, að ef lagður er fram svo stór lagabálkur og torlesinn sem hegningarlög í heild, þá er öllum almenningi og raunar þingmönnum ofætlun að setja sig inn í það, svo að nokkru nemi. Ég efast því ekki um, að það er til bóta að hafa þennan hátt á, að n. komi frá sér jafnóðum þeim hlutum verksins, sem hún lýkur, og síðan séu þeir lagðir fyrir Alþ. eftir þá athugun, sem dómsmrn. hverju sinni telur heppilegt að fram fari. og þá breytingar gerðar á af því og síðan Alþ., eftir því sem samkomulag verður um.

Í athugasemdum við þetta frv. er gerð ýtarleg grein fyrir efni þess. Ég mun því láta mér nægja að skýra í stuttu máli frá höfuðstefnu þess og hinum helztu breytingum, sem það hefði í för með sér.

Skilorðsbundnir refsidómar og heimild til að fella saksókn niður með skilyrðum fór ekki að ryðja sér til rúms í Norðurálfunni fyrr en síðast á 19. öld og þó aðallega á þessari öld. Alls staðar, þar sem slík ákvæði hafa verið leidd í lög, mun það vera einróma álit manna, að hér sé um að ræða heppilega aðferð til að draga úr afbrotum, sérstaklega unglinga, en einnig eldri manna, sem leiðzt hafa til að fremja afbrot fremur af tilviljun en af því, að þeir séu afbrotamenn í eðli sinn. Skilorðsbundinn dómur veitir þeim tækifæri til að samlaga sig á ný þjóðfélaginu og getur bjargað þeim frá þeirri vanvirðu, sem því fylgir í augum þeirra sjálfra og annarra manna að sæta refsivist í varðhaldi eða fangelsi. Það er vitað, að hér á landi eins og annars staðar sleppur mikill hluti þeirra manna, sem skilorðsdóm hljóta, við refsingu, með því að þeir halda skilorðið og hverfa út af afbrotabrautinni, og er það mikill hagur, bæði fyrir þá og þjófélagið í heild. Mikið er og undir því komið, að eftirlitsmenn eða umsjónarmenn þeir, sem skilorðsdæmdum mönnum eru settir, styðji þá, hvetji og aðstoði á skilorðstímanum til að snúa aftur inn á réttar brautir.

Ákvæðin í 3. gr. frv., sem verður 56. gr. laganna, koma í stað 30. gr. núgildandi hegningarlaga.

Ræðir þar um heimild dómsmrh. til að fresta ákæru skilorðsbundið. Helztu breytingar hér eru þær, að heimildin til að láta ákæru eða saksókn falla niður með skilyrðum er talsvert rýmkuð frá því, sem nú gildir. Samkv. 30. gr. er nú aðeins heimilt að láta saksókn falla niður skilorðsbundið, þegar í hlut eiga unglingar á aldrinum 15–18 ára, en samkv. frv. tekur þetta til unglinga 15–21 árs. Einnig er heimilað í frv. að viðhafa þessa aðferð um eldri menn, þegar ekki er um stórfelld brot að ræða og ætla má, að aðrar ráðstafanir en refsing séu vænlegri til að koma viðkomandi sakborningi á réttan kjöl, aftur og gera hann löghlýðinn þjóðfélagsþegn.

Að því er tekur til skilorðsbundinna dóma, þá eru aðalbreytingarnar frá núgildandi rétti í 4. gr. frv., sem verður 57. gr. laganna. Samkv. núgildandi hegningarlögum er skilorðsdómur í því fólginn, eins og kunnugt er, að dómari kveður upp refsidóm með tiltekinni refsingu, en ákveður jafnframt, að fullnustu refsingarinnar skuli frestað um tiltekinn tíma og að refsingin skuli niður falla, ef skilorð er haldið. Þessi heimild er látin haldast í frv., en jafnframt er dómara veitt heimild til að kveða upp skilorðsdóm með öðrum hætti, þ.e. að frestað er að tiltaka nokkra refsingu í dómi. Verður aðila þá engin refsing dæmd, ef hann heldur skilorðið út skilorðstímann. Ef hann hins vegar rýfur skilorðið, er heimilt að taka málið upp að nýju og dæma þá refsingu. Þessi aðferð hefur verið mjög tíðkuð í Englandi, og hefur hún í ýmsum tilfeilum þótt gefast betur en sá háttur, sem nú er í okkar lögum, að dæma refsingu, en fresta fullnustu hennar.

Þá eru og í 4. gr. frv. talin tæmandi upp þau skilyrði, sem setja má aðila í skilorðsdómi, en í núgildandi lögum er gert ráð fyrir, að aðila séu sett tiltekin skilyrði, án þess að þau séu sérstaklega greind í lögunum. Það fer vitanlega eftir aðstæðum sakbornings og öðrum atvikum, hvaða skilyrði sett eru hverju sinni, og er gert ráð fyrir í frv., að breyta megi um skilyrði á skilorðstímanum, eftir því sem við þykir eiga og hegðun sakbornings gefur tilefni til.

Það nýmæli er í 8. gr. frv., að maður, sem dæmdur er skilorðsbundnum dómi, verður ekki sviptur réttindum samkv. 3. málsgr. 68. gr. hegningarlaganna, þ.e. kosningarrétti og kjörgengi. Markmiðið með skilorðsbundnum dómum er fyrst og fremst að veita sakborningi tækifæri til að gerast hæfur þjóðfélagsborgari að nýju, og er þá ekki rétt, að þjóðfélagið geri honum erfiðara fyrir um það með því að svipta hann réttindum.

Ég hef þá drepið á, í hverju aðalefni frv. er fólgið. En aðrar breytingar, sem það hefur í för með sér, miða flestar að því, að sakborningur sæti viðeigandi umsjón á skilorðstímanum og honum verði sett þau skilyrði ein, sem á hverjum tíma má ætla að helzt komi að notum. Læt ég að öðru leyti nægja að vísa til hinnar rækilegu grg., sem frv. fylgir. En ég tel, að hinir ágætu menn, sem frv. sömdu, hafi unnið þar mjög gott verk, þó að auðvitað geti sitt sýnzt hverjum um einstakar breytingar og tillögur í þessu máli eins og öðrum.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni og til hv. allshn.