10.12.1954
Neðri deild: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

4. mál, hegningarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fram, hefur þegar hlotið samþykki hv. Ed. og var þar samþ. breytingalaust, en það er um breyt. á núgildandi hegningarlögum. Frv. hafa undirbúið þeir prófessor Ármann Snævarr og hæstaréttardómararnir Jónatan Hallvarðsson og Þórður Eyjólfsson, og hafa þeir samið það í samráði við dómsmrn. og dómsmrh.

Þessum mönnum hefur verið fengið það verkefni að endurskoða hegningarlögin, en þeir komust fljótt að því, að það var svo viðamikið og umfangsmikið starf, að það mundi taka nokkur ár að ljúka því, og kom þá til athugunar, hvort hyggilegra væri að bíða með frv. byggt á endurskoðuninni, þangað til henni væri allri lokið, eða leggja fram einstaka kafla, jafnskjótt sem þeim væri lokið af hálfu n. Að athuguðu máli urðu dómsmrn. og n. sammála um, að þau vinnubrögð væru hagkvæmari að taka einstaka kafla og leggja þá fram strax og búið væri að gera till. um þá af hv. n., einkanlega þar sem margir þeirra, eins og sá fyrsti, sem hér liggur fyrir, eru alveg sjálfstæðir að efni. Það er ekki aðeins, að slíkt greiði fyrir því, að réttarbætur nái fram að ganga, heldur einnig er sennilegra, að málið fái betri meðferð hjá Alþ. og almenningur átti sig gjör á því, um hvað er að ræða, með því að taka þetta í smáskömmtum, heldur en allt í einu lagi, þar sem vitað er, að hegningarlögin sjálf eru ærið flókin og sannast sagt ekki nema fyrir sérfræðinga að átta sig á þeim í heild.

Sá kafli, sem hér er um að ræða, fjallar um skilorðsbundna frestun ákæru og skilorðsbundna dóma og er um viðtækari heimild en áður hefur verið, bæði til þess að kveða upp skilorðsbundna dóma og eins um það að falla frá ákæru, ef viss skilyrði eru fyrir hendi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja það frekar. Um þetta eru ýtarlegar skýringar í grg. Og eins og ég segi, hefur hv. Ed. þegar fjallað um málið, og þar komu engar athugasemdir fram. Ég vonast því til, að málið fái greiðan framgang í þessari hv. d., legg til, að það gangi nú til 2. umr. og til hv. allshn.umr. lokinni.