24.02.1955
Neðri deild: 52. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

120. mál, ríkisreikningar fyrir árið 1952

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það kann að vera rétt, sem hv. þm. V-Húnv. (SkG) tók fram, að það sé hér einhver stofnun, sem hafi farið hlutfallslega meira fram úr áætlun fjárl. heldur en Ríkisútvarpið. Ein stofnun er það náttúrlega, sem hefur á þessu ári, 1952, farið langt fram úr Ríkisútvarpinu hvað þetta snertir, og það er Skipaútgerð ríkisins, sem hefur eytt í gjöld umfram fjárl. nærri 5 millj. kr. (SkG: Það var nú önnur stofnun, sem ég meinti.) Og hitt er sjálfsagt rétt, sem hv. þm. V-Húnv. tók fram, að Innkaupastofnun ríkisins hefur farið fram úr áætlun hlutfallslega hærra en Ríkisútvarpið, en við gerðum nú athugasemdir við reikninga þeirrar stofnunar.

Við skulum taka stofnun eins og t.d. Ríkisútvarpið. Það fer á þessu ári fram úr áætlun í gjöldum um 1461 þús., svo að maður sleppi hundruðum og smærri upphæðum. Þessu fé er eytt, það er farið. Ríkisstj. hefur ekkert gert þar til breytinga, og það er ekkert þægilegt fyrir Alþ. núna tveimur árum seinna að gera ráðstafanir, aðrar en þær að óska eftir því og krefjast þess, að svona fjármálastjórn endurtaki sig ekki. Eins er það með Skipaútgerð ríkisins; þessar tæpu 5 millj., sem hún hefur á þessu ári eytt umfram fjárl., eru farið fé, það er búið að eyða því, og þáverandi ríkisstj. hefur látið sér þetta lynda. Svona löngu eftir á er þess vegna ekki svo mjög þægilegt að gera ráðstafanir út af því, sem orðið er, af því að það hefur ekki verið hafður á sá háttur að koma fram ábyrgð á hendur þeim mönnum, sem hlut hafa átt að máli, en teknar til greina þeirra varnir. En þeirra varnir, sem koma fram árlega við okkar athugasemdum, eru yfirleitt á eina lund, að þetta hafi verið nauðsynlegt fyrir stofnunina o. s. frv.; þeir hafi nú orðið að gera þetta og þeir hafi orðið að gera hitt, þeir hafi orðið að kosta þessu til og þetta og þetta hafi verið nauðsynlegt. Þessar varnir ganga alltaf í sömu átt hjá þessum hv. valdamönnum. En ég fyrir mitt leyti lít svo á, að þessar varnir séu haldlitlar, enda þótt það geti í einstökum tilfellum komið fyrir, að það verði að eyða umfram fjárlög, en þá yrði það að gerast í samráði við starfandi ríkisstj. En úr því að við höfum fjárl. og það er eytt í það löngum tíma og mikilli vinnu að undirbúa þau lög, þá ætlast Alþ. til þess, að eftir þeim lögum sé farið, og ef einhver stofnun er þannig sett, að hún þykist ekki geta komizt af með þetta til að halda sinni starfsemi í fullum gangi með þau gjöld, sem henni eru ætluð á fjárl., þá á hún að draga saman. Þá á að gera ráðstafanir til þess að minnka þá starfsemi, sem er umfram það, sem fjárl. ætlast til að þetta kosti, og hjá stofnun eins og t.d. Ríkisútvarpinu er þetta ákaflega auðvelt mál, ef til þess væri nokkur vilji, að ég nú ekki tali um hjá stofnun eins og t.d. Innkaupastofnun ríkisins, sem margir efast nú um að sé nauðsynlegt að hafa sem ríkisstofnun. Hjá Skipaútgerð ríkisins er þessi leiðin líka möguleg. Ef fjvn. og um leið Alþ. og ríkisstj. ákveða í fjárl., að þessu og þessu megi þessi stofnun eyða í gjöldum, þá eiga framkvæmdirnar, sem um er að ræða, að miðast þar við, en ekki hitt, sem hefur verið reglan og Alþ. hefur alltaf látið sér lynda, að viðkomandi forstjóri láti eins og engin fjárl. séu til og eyði bara eftir því, sem hann telur nauðsyn bera til, og til þess að halda sinni starfsemi eins og hann óskar og hans starfsmenn óska, að það sé sem ýtrast. Þetta er atriði, sem kemur ekki beinlínis við einum reikningi fremur en öðrum. En þetta er atriði, sem er ástæða til, að Alþ. geri sér grein fyrir, hvort á ekki að taka í framtíðinni miklu harðara á en gert hefur verið og á annan hátt en það hefur staðið, því að í raun og veru er þinginu ósæmilegt að láta það viðgangast ár eftir ár, eins og gert hefur verið, að við fáum fjáraukalög upp á marga tugi milljóna, þar sem vissulega er margt að óþörfu.