18.11.1954
Efri deild: 19. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

2. mál, stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Það þarf ekki langa ræðu um þetta mál. Þetta eru mjög einfaldar lagabreytingar, sem hér er um að ræða. Eins og frv. nm stýrimannaskólann í Reykjavík ber með sér, er aðalbreytingin sú, að kennurum verði fjölgað um einn, eða frá fjórum upp í fimm. Ekki er talið, að þessi breyting auki á kostnað við skólahaldið svo að neinu nemi, því að kennslustundum aukakennara á að fækka að sama skapi. Hinn nýi fasti kennari þarf að vera sérmenntaður, en slíkur maður fæst jafnvel ekki, nema hann fái fasta stöðu, þar sem um alveg sérstakt námsefni er að ræða, enda er það yfirleitt reynsla í skólum, að betra sé að hafa fastráðna kennara, þar sem því verður við komið.

4. gr. laganna, sem lagt er til að felld verði niður, er bráðabirgðaákvæði, sem er orðið úrelt; það er um það, að þeir, sem höfðu minna fiskimannapróf, gátu fyrstu fimm árin, eftir að skólinn hafði nægjanlegt húsnæði, gengið undir próf þar. Nú er það óþarft orðið.

Í 6. gr. er orðið „djúpmælar“ fellt niður, en það er vegna þess, að á skrá um námsefni fyrir fiskimannapróf er það talið upp ásamt öðru, og er því óþarfi að endurtaka það, þegar námsefni til farmannaprófs er sett fram.

Um 1.–3. gr. er það að segja, að þar er ákveðið, að stjórn stýrimannaskólans falli undir samgmrn., en hafði verið undir öðru ráðuneyti áður, eins og sýnt er.

Við 1. umr. þessa máls hér í d. fylgdi hæstv. menntmrh. frv. úr hlaði og sagði m.a., að spurning væri um það, hvort ekki gæti verið rétt, að stjórn stýrimannaskólans heyrði undir menntmrn., svo og aðrir skólar í landinu, svo sem t.d. bændaskólar, sem nú eru undir stjórn landbrn., og iðnskólinn, sem fellur undir iðnmrn. Vék hæstv. ráðh. því til sjútvn., að hún tæki þetta til athugunar, en fór annars fram á það, að frv. yrði samþ. eins og það lægi fyrir. N. minntist á þetta, en gerir enga sérstaka till. um þetta efni, enda er dálítið erfitt við þetta að eiga. Skipting starfa á milli ráðherra er gerð þegar ný ráðuneyti eru stofnuð og er með ýmsu móti í hinum ýmsu málum og breytileg frá einni stjórn til annarrar. Að vísu er hér lögfest, að stýrimannaskólinn heyrir undir samgmrh., en þetta allt þarf eflaust meiri athugunar við en n. sá sér fært að gera.

Ég legg til, að frv. verði eftir þessa umr. vísað til 3. umr.