19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

120. mál, ríkisreikningar fyrir árið 1952

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Fjhn. d. mælir með samþykkt þessa frv. Frv. virðist vera í fullu samræmi við ríkisreikninginn 1952, eins og hann hefur verið lagður fyrir Alþ. Heimild hefur þingið gefið nú þegar fyrir öllum útgjöldunum, sem á reikningnum eru, með því að samþ. fjáraukalögin fyrir árið 1952.

En þó að n. mæli með því, að frv. verði samþ. óbreytt, þá telur hún, eins og kemur fram í nál. hennar á þskj. 579, að ekki sé sem skyldi, frekar en að undanförnu, gengið frá öllu, sem reikningnum viðkemur.

Ekki verður í neinu séð, að yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna hafi fylgt því eftir, að teknar væru til greina athugasemdir þær, sem þeir létu fylgja ríkisreikningnum 1951 og voru um atriði, sem snerta ríkisreikninginn 1952. Á ég þar fyrst og fremst við athugasemdir, sem hljóða á þá leið, að þær séu „til eftirbreytni framvegis“.

Engin skýrsla fylgir heldur frá bókhaldi Ríkisins um það, að athugasemdirnar hafi verið teknar til greina í framkvæmd, þótt fjhn. lýsti yfir í grg. sinni um frv. til samþykktar á ríkisreikningnum 1951, þegar það var til afgreiðslu í fyrra, að sú skýrsla ætti að fylgja framvegis.

Þetta vill fjhn. átelja og gerir það í álitinu. Yfirskoðunin nær ekki tilgangi sínum, ef svo laust er á haldið, að athugasemdir falla í gleymsku og dá með samþykkt hvers reiknings. Ráðuneytunum ber hverju um sig að láta sér athugasemdir þær, sem fram koma, að kenningu verða, eftir því sem þær snerta þau og stofnanir, sem heyra undir þau.

Fjmrn. eða bókhald þess á að láta skýrslu fylgja hvers árs ríkisreikningi um, hvernig tekizt hefur framkvæmd á því, sem athugasemdirnar ætlast til að gert verði.

Yfirskoðunarmennirnir eiga að vera á verði um þetta frá ári til árs og sjá um, að skýrslan sé samin.

Fjhn. fól mér fyrir sína hönd að athuga og fá upplýst, hvort og hvernig athugasemdir yfirskoðunarmanna, sem fylgdu reikningnum 1951 og áttu að verða til eftirbreytni 1952, hefðu verið teknar til greina. Ég leitaði upplýsinga um þetta hjá fjmrn., og var mér auðvitað vel tekið á þeim bæ, en á það var bent, að yfirskoðuninni væri stundum svo seint lokið og athugasemdir þá svo síðbornar, að búið væri að ljúka reikningi næsta árs á eftir, þegar þær kæmu fram. Færi þá svo, að athugasemd, sem ætti að vera til eftirbreytni, næði ekki næsta reikningi. Til þess að þetta komi ekki fyrir, þ.e. að athugasemd missi þannig af strætisvagni sínum árlangt, ætti að gæta þess að hraða yfirskoðuninni nægilega.

Það voru 10 athugasemdir, sem fylgdu reikningnum 1951 og áttu að vera til eftirbreytni eða viðvörunar. Ég vil nú minnast á þær og þær upplýsingar, sem ég fékk um framgang þeirra.

Fyrst er þá 7. aths. Hún er um, að herða beri á innheimtu sektarfjár. Það hefur verið samkvæmt upplýsingunum mikil áherzla lögð á það af ráðuneytinu, að sektarfé væri innheimt, en það er ekki hægt að innheimta sektarfé, svo sem auðskilið er, eins og tolla, sem eru gjaldkræfir samkvæmt vissum gjalddögum, því að þeir, sem fyrir sektunum verða, hafa rétt á því að sitja þær af sér, og þess vegna getur orðið bið á því, að féð komi inn, enda sektir oft „unnar af sér“ á þennan hátt, þegar til kemur.

Þá er annað, en það er 9. liðurinn í aths. Það er athugasemd um, að keppa beri að því, að tóbaksverzlunin hafi sem minnst útistandandi um áramót. Það er sagt, að þetta sé gert. En samkvæmt reglum, sem gilt hafa langa hríð, hafa þeir, sem kaupa af tóbaksverzluninni, rétt til 40 daga gjaldfrests, og þess vegna er það, að um áramót getur aldrei verið fullinnheimt. Fer það mjög eftir því, hvernig stendur á innkaupum fyrir áramót, hve mikið er þá útistandandi.

Talið er, að þarna sé ekki um neinar skuldir að ræða, sem nokkuð séu athugaverðar.

Þá er það þriðja atriðið, en það er 15. aths. við reikninginn. Aths. er um, að Skipaútgerð ríkisins eigi útistandandi rúmlega 200 þús. kr. hjá afgreiðslum hér og þar. Svarið, sem ég fékk þar um, var það, að þær skuldir væru komnar niður í 38 þús. kr.

Í fjórða lagi er svo aths. 16. Hún er um það, að skuldamál fiskimálasjóðs séu ekki í æskilegu lagi, þ.e. að innheimta þeirra skulda, sem myndazt hafa við útlán sjóðsins, sé ekki nægilega reglubundin eða þær innborgist ekki svo sem samningar standa til. Um þetta var ekki hægt að fá upplýsingar, vegna þess að forstöðumaður sjóðsins hefur verið sjúkur um stund.

Í fimmta lagi er svo 17. aths., en hún er um það, að ríkissjóður skuldi Fiskifélaginu um 370 þús. kr. og geri ekki upp eins og skyldi þau skipti. Skuldir þessar eru nú allar greiddar.

18. aths. er um það, að óeðlilegt sé, að fastir kennarar við menntaskóla Reykjavíkur kenni svo mikið í aukatímum sem þeir geri. Um það sagði bókhaldið orðrétt: „Ástandið er óbreytt. Á undanförnum þremur árum eru þess enn dæmi, að fastakennarar hafa hér um bil eins miklar tekjur af tímakennslu, þ.e. aukavinnu, og föstum launum þeirra nemur.“

Þetta sama mun eiga sér stað í fleiri skólum, einkum hærri skólum. Þegar ákveðin er kennsluskylda, sem gerð er eftir kröfum kennara, þá er miðað við, hvað er hæfilegt erfiði á dag, og full laun ákveðin samkvæmt því. Meiri vinna, a.m.k. við sams konar störf, er þá ekki talin heppileg. Það er litið svo á, að það komi einnig niður á nemendunum, ef kennari leggur á sig lengri kennsludag en þannig er ákveðið. Þarna er auðvitað einhver maðkur í mysunni, þegar kennarar kappkosta að lengja daginn og hækka launin með tímavinnu og það máske um helming. Þetta þarf að færa til betri vegar að sjálfsögðu. En þó að svona standi sakir, getur það ekki staðið í vegi fyrir samþykkt rétts reiknings.

Þá er 19. aths. Hún er um, að umframgreiðsla hafi verið 120 þús. kr. frá fjárl. 1951 til fyrirhleðslu í Þverá og Markarfljót. Svarið er, að ekki hafi verið greitt meira en fjárl. heimiluðu 1952.

Þá er 21. aths. við reikninginn eða 8. liðurinn. Hann er um það, að ekki liggi fyrir skrá yfir málverk ríkisins frá menningarsjóði. Svarið við þessu fékk ég sent skriflegt, og það er á þessa leið:

„Skrá yfir listaverk ríkisins er nú til og liggur nú frammi í Listasafni ríkisins.“

Þá er 23. aths. Hún er um, að aukaframlög til vega utan fjárl. hafi átt sér stað og megi ekki endurtaka sig.

Þetta mál telur ráðuneytið að ekki hafi endurtekið sig og þannig sé ástatt, að ekki sé ástæða fyrir áframhaldandi aths.

Þá er það 25. aths., þ.e. 10. liðurinn. Hún er um, að innheimta þurfi innstæðu, sem ríkissjóður yfirtók hjá Trésmiðju ríkisins, þegar hún gekk fyrir stapa. Þetta voru 250 þús. kr., og þessi innheimta er ógerð enn að mestu leyti eða er alls ekki lokið, en verið er nú að gera gangskör að því að innheimta. Skuldirnar eru að mestu hjá opinberum aðilum, t.d. hjá landssmiðjunni 24460.00 kr., sem hún tók að sér af vörum frá trésmiðjunni til sölu. Enn fremur hafði þá skrifstofa húsameistara tekið til sölu ýmislegt og fyrir það óinnkomið kr. 75991.00. Einnig áttu nokkrir skólar og eiga enn eftir að greiða fyrir hluti, sem þeir höfðu fengið keypta hjá trésmiðjunni, sömuleiðis Þjóðleikhúsið.

Yfirleitt eru skuldirnar hjá opinberum aðilum, og nú er verið að gera gangskör að því að innkalla þær, en fer hjá sumum eftir því, sem hlutirnir hafa þá selzt.

Þá hef ég minnzt á alla þessa tíu liði, sem fylgdu í aths. ríkisreikningnum 1951 og vísuðu til framtíðarinnar.

Ein aths. fylgdi reikningnum 1951, sem hljóðaði á þá leið, að athugasemdarefninu væri vísað „til aðgerða Alþ.“ Hún var við hag og rekstur útvarpsins. Engin till. fylgdi frekar venju frá yfirskoðunarmönnum, sem gerðu þessa aths., um, hverjar aðgerðir þeir legðu til að viðhafðar yrðu af hálfu Alþ. En það er eðlilegt, að Alþ. liti svo á, að ekki fylgi hugur máli hjá yfirskoðunarmönnum, þegar svo er, enda gerði það enga ályktun út af aths. þessari, þegar reikningurinn var afgreiddur fyrir 1951, og jafnvel yfirskoðunarmennirnir sjálfir samþ. þá afgreiðslu. Hins vegar er ófært, að yfirskoðunarmenn hafi þessi orð í aths., ef þeir meina ekkert með þeim. Eigi þau að verða til þess að skjóta þeim starfsmönnum ríkis skelk í bringu, sem aths. bendir á, þá verður lítið úr því, að af því verði, þegar engar eru aðgerðir ár eftir ár.

Þá virðist vera einboðið að krefjast þess, að yfirskoðendur leggi fram ákveðnar till., ef þeir ætlast til, að sérstakar aðgerðir þingsins verði upp teknar. Til þess hljóta þeir að vera kosnir. Þeir eru í þessum efnum trúnaðarmenn Alþ. og bera ábyrgð gagnvart Alþingi á verkum sínum. Máske er það svo, að það vanti lög um starfssvið yfirskoðunarmannanna og skyldur, en þá er að setja þau. Annars er þetta um skyldur þeirra til þess að gera ákveðnar till., ef þeir í raun og veru ætlast til aðgerða Alþ., svo sjálfsagt og augljóst mál, að um það þarf engan lagabókstaf.

Ég hef þá gert grein fyrir því, sem ég hafði upp úr að spyrjast fyrir um áhrif aths. við ríkisreikninginn 1951.

Aths. við reikninginn 1952 hafa hv. þm. hjá sér og hafa sennilega kynnt sér þær, eins og þær liggja þar fyrir. Verður að vænta þess fastlega, að með ríkisreikningnum 1953, þegar hann verður lagður fyrir þingið til samþykktar, verði skrá um það, hvernig aths. frá 1952 hafi þá verið teknar til greina. Tvær þessara aths. hljóða á þá leið, að þeim sé „visað til aðgerða Alþ“. Fjhn. Nd. segir í nál. sínu á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni af aths. yfirskoðunarmanna við ríkisreikninginn vill n. benda á þá nauðsyn, að gert verði það, sem unnt er, til þess að ríkistekjurnar og tekjur Tryggingastofnunar ríkisins innheimtist á réttum tíma. Enn fremur, að hlutaðeigandi ráðuneyti brýni það fyrir forstöðumönnum ýmissa ríkisstofnana, að þeir takmarki útgjöld stofnana við fjárveitingar á fjárl., og að viðskiptastofnanir ríkisins festi ekki fé í útlánum.“

Það má segja, að í þessari ádrepu n. komi það fram, sem líklegt er að yfirskoðunarmennirnir telji fullnægjandi út af þeim aths., sem er vísað til aðgerða Alþ., því að undir þetta ritar annar yfirskoðunarmaðurinn, sem á sæti á Alþ., og innan þessa ramma, sem þarna er markaður, er efni aths.

Fjhn. Ed. sá ástæðu til þess í sínu áliti, eins og það ber með sér, að taka undir ábendingu nefndarinnar í Nd.

Af því að hæstv. fjmrh. er staddur í þd., teldi ég æskilegt, að hann vildi láta í ljós, hvort hann telur ekki sjálfsagt fyrir sitt leyti, að orðið verði framvegis við þeirri kröfu, sem kemur fram í næstsíðustu málsgr. nál. fjhn. Ed., en þar stendur:

„Þá telur n. og, að hvers árs ríkisreikningi eigi að fylgja glögg skýrsla um það, hvernig fullnægt hafi verið í sambandi við hann aths., er hann snerta, frá næsta ári á undan. Fjmrh. og yfirskoðunarmenn ríkisreikninga sjái um, að ríkisbókhaldið geri þessa skýrslu.“

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Fjhn. leggur til, eins og ég sagði í upphafi, að frv. verði samþ. án breytinga, en leggur áherzlu á, að tekið verði til greina í framtíðinni það, sem hún lýsir yfir í nál. sínu að hún telji nauðsynlegt í sambandi við reikningana.