19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

120. mál, ríkisreikningar fyrir árið 1952

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hæstv. fjmrh. vildi ég segja aðeins örfá orð.

Með ríkisreikningnum fylgja ýmiss konar skýrslur. M.a. koma þar fram þær aths., sem yfirskoðunarmennirnir gera fyrst. Í öðru lagi koma svo fram þar á eftir svör ráðuneytanna við þeim aths. Í þriðja lagi koma svo fram endanlegar aths. yfirskoðunarmannanna, og í þeim kemur fram, að sumar upphaflegu aths. hafa fengið þá afgreiðslu, að þeir telja svörin fullnægjandi. Aðrar hafa ekki fengið fullnægjandi svör á annan hátt en þann, að endurskoðunarmenu segja, að framvegis verði að gæta þess að haga á annan veg en þann veg meðferð þeirra mála, sem þeir hafa upphaflega bent á. Í þriðja lagi eru svo aths. þeirra, þegar þeir vísa til aðgerða Alþ.

Nú gerði ég grein fyrir því, hvað kom í ljós, þegar ég fékk upplýsingar hjá bókhaldinn um það, hvernig aths. frá 1951 höfðu verið teknar til greina hjá ráðuneytunum. En mér skilst, að það sé mikil fyrirhöfn — of mikil fyrirhöfn — að hafa þann hátt á hverju sinni, að fjhn. Alþ. láti ganga í það að leita þessara upplýsinga, enda er það svo, að svörin liggja ekki ljóst fyrir, þau eru ekki aðgengileg hjá bókhaldinu, ef þessi háttur er á hafður. Bókhaldsmennirnir þurftu að hafa allmikið fyrir því að afla þeirra upplýsinga, sem ég flutti hér áðan, og þess vegna er það, að ég tel ákaflega nauðsynlegt, að yfirskoðunarmennirnir sjái um það, að bókhaldið láti koma fram 4. grg. með þessa árs reikningi. Fyrst er grg. um upphaflegar aths. yfirskoðunarmanna,

svo eru svör ráðuneytanna, svo eru endanlegar aths. yfirskoðunarmannanna, eins og ég sagði áðan; þetta kemur allt fram. En í fjórða lagi tel ég svo að eigi að koma fram skýrsla um það, — og hún ætti að vera fyrsta skýrslan, — hvernig framkvæmdar hafa verið athugasemdirnar frá fyrra ári í sambandi við reikninginn. Og ég tel, að þetta sé ekki mikið verk og sjálfsagt verk.

Hæstv. fjmrh. sagði, að yfirskoðunarmennirnir væru settír til höfuðs sér, svo að honum bæri í raun og veru ekki að sjá um það, hvernig þeir ynnu sitt verk. Ég lít svo á, að það sé jafnan svo um endurskoðendur, að þeir séu meira settir sem samstarfsmenn reikningshaldara heldur en menn til höfuðs honum. Og ég álít það ákaflega eðlilegt, að þetta samstarf milli yfirskoðunarmanna og fjmrh. sé náið og að þessir aðilar hafi samstarf um það, að bókhaldið geri þá greinargerð, sem fjhn. hefur gert grein fyrir í áliti sínu að þurfi að fylgja og ég hef nú gert grein fyrir, hvernig ég tel að eigi að vera. Ég tel sem sé, ef ég má lesa, með leyfi hæstv. forseta, hér upp úr nál., að þessi ályktun sé ákaflega eðlileg og sjálfsögð: „Fjmrh. og yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna sjái um, að ríkisbókhaldið geri þessa skýrslu.“ Ef yfirskoðunarmennirnir telja skyldu sína í þessu efni litla, eins og reyndar ástæða er til að halda, svo sem hv. þm. Barð. benti réttilega á, af orðum, sem þeir létu falla í viðræðum við fjhn. þessarar d. í sambandi við reikninginn 1951, þá allt ég, að fjmrh. eigi að sjá um, að þeir sem samstarfsmenn hans geri þetta, m.ö.o.: að bókhaldið, sem hann er yfirmaður yfir, vinni þetta verk á þann hátt, sem yfirskoðunarmennirnir telja fullnægjandi. Ég held þess vegna, að það væri eiginlega sjálfsagt af hæstv. fjmrh. að líta svo á, að það sé í hans verkahring að láta bókhaldið gefa ríkisreikninginn næst út með þessari fjórðu skýrslu.