19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

120. mál, ríkisreikningar fyrir árið 1952

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. Barð. (GíslJ) sagði áðan, að sér hefði skilizt af því, sem ég tók fram, að ég teldi endurskoðunardeild fjmrn. ekki skylt eða nauðsynlegt að skipta sér rukkuð af því, hvort farið væri að heimíldum eða lögum um ríkisútgjöldin, heldur ætti þar eingöngu að vera töluleg endurskoðun. Ég skil ekki, hvernig hv. þm. fékk þetta út úr því, sem ég sagði. Ég minntist ekkert á þetta, gaf ekkert tilefni til þess, að hann gerði mér upp þessa skoðun, enda fer því fjarri, að ég líti svona á. Ég álít, að endurskoðunardeild fjmrn. eigi að líta m. a. eftir því, að farið sé að lögum og heimildum við útgjöldin, þó að yfirskoðunarmennirnir eigi svo að lita yfir það endurskoðunarverk á eftir.

Ég vil benda hv. þd. á, og það er mín skoðun, að ef hv. Alþ. er ekki ánægt með það, hvernig yfirskoðunarmenn rækja starf sitt eða hvernig þeir fara að í starfi sínu, þá verður Alþ. að gera ráðstafanir til þess að breyta því. Það er óhugsandi, að ríkisstj. taki það að sér að segja yfirskoðunarmönnum ríkisreikninganna fyrir verkum, enda væri það blátt áfram óviðeigandi, þar sem yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna eru fulltrúar Alþ. gagnvart framkvæmdavaldinu. Það eru þeir, sem eiga að líta eftir því fyrir Alþingis hönd, að framkvæmdavaldið fari rétt að í fjárhagsmálum, og það væri með öllu óþolandi, ef ríkisstj. ætlaði sér að fara að segja þeim fyrir verkum. Ef alþm. eða hæstv. Alþ. finnst starfið ekki rækt á réttan hátt, þá verður hæstv. Alþ. að skerast í leikinn.

Um skyldur yfirskoðunarmanna mætti sjálfsagt margt segja, en auðvitað tel ég það ekki skyldu yfirskoðunarmanna að gefa fyrirskipanir um það, sem aðrir menn eiga að ráða. Það er misskilningur, ef menn halda, að ég hafi átt við það, áðan þegar ég talaði. Það er ekki á valdi yfirskoðunarmanna að sjá um, að athugasemdir þeirra séu teknar til greina, og getur aldrei orðið á þeirra valdi. Skylda þeirra er að gera athugasemdir nm það, sem þeim þykir miður fara, og fylgjast síðan með því, hvort þær athugasemdir eru teknar til greina, og séu þær ekki teknar til greina, að vekja þá á ný á því athygli þeirra aðila, sem hafa aðstöðu til að grípa í taumana, og gera á ný kröfur um, að breytt sé til. En yfirskoðunarmenn geta vitanlega aldrei fengið framkvæmdavaldið í sínar hendur.

Ég endurtek svo að lokum það, sem ég sagði áðan, að ég álít, að yfirskoðunarmönnum beri að fylgjast með því, hvernig athugasemdir þeirra séu teknar til greina og hvort þær séu teknar til greina, og láta Alþ. í té yfirlit eða skýrslu um það. Og ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því, að þeir fái sér til aðstoðar við það verk þá starfskrafta, sem fjmrn. hefur yfir að ráða, þar með talið starfslið ríkisbókhaldsins.