07.02.1955
Neðri deild: 41. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

139. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Í lögum nr. 42 frá 1954, þ.e.a.s. frá síðasta þingi, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, er svofellt bráðabirgðaákvæði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin lætur fara fram endurskoðun á lögum nr. 101 30. des. 1943, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, í samráði við stjórn sjóðsins. Verði m.a. athugað, hvort ekki sé rétt með hliðsjón af breyttum aðstæðum að hækka aldurstakmark frá því, sem nú er um rétt til fullrar lífeyrisgreiðslu, svo og annað það, sem af slíkri breytingu kann að leiða. Skal endurskoðuninni lokið á þessu ári.“

Samkvæmt þessu hefur fjmrn. látið fara fram endurskoðun á þessari löggjöf og falið stjórnendum lífeyrissjóðsins endurskoðunina, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ávöxtur þessa starfs.

Um einstök atriði málsins leyfi ég mér að vísa til grg.

Þá vil ég enn fremur taka það fram, að um þau tvö frv., sem hér eru næst á eftir á dagskránni, er alveg það sama að segja og þetta frv., sem ég nú hef talað fyrir. Mun ég því ekki mæla neitt fyrir þeim frv., en leyfi mér að fara fram á, að þessum málum verði öllum þremur vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umræðu.