01.03.1955
Neðri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

139. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta frv., og eins og fram kemur í áliti hennar á þskj. 412, leggur n. til, að frv. verði samþ. með nokkrum breytingum, sem prentaðar eru á því þskj.

Fyrsta brtt. n, er við 16. gr. frv., og er þessi brtt. flutt eftir tilmælum stjórnar lífeyrissjóðsins, sem samdi frv. Breytingin er um það, að í stað orðsins „ellilífeyris“ í 16. gr. komi: lífeyris. Þetta er leiðrétting samkv. þeirri skýringu, sem höfundar frv. hafa gefið nefndinni.

Þá er næst brtt. við 17. gr. og um umorðun á henni. Til glöggvunar á þessu máli held ég að það sé rétt, að ég lesi upp 7. mgr. 14. gr. l. nr. 101 frá 1943, sem hér er verið að breyta. Sú mgr. er þannig nú í lögunum:

„Réttur til lífeyris samkv. þessari gr. fellur niður, ef hinn eftirlifandi maki gengur í hjónaband að nýju, en kemur aftur í gildi, sé hinu síðara hjónabandi slitið, enda veiti hið síðara hjónaband eigi rétt til lífeyris úr sjóðnum.“ Þessi ákvæði 14. gr. l. eru, eins og sjá má af þessu, nm lífeyri eftirlifandi maka, þegar sjóðfélagi er látinn. Með frv. er lagt til að breyta niðurlagi mgr. þannig, að í stað „rétt til lífeyris úr sjóðnum“ komi: rétt til hærra lífeyris úr sjóðnum. En við nánari athugun þótti rétt að orða þetta nokkuð á annan veg, til þess að ekki gæti valdið misskilningi, og hafði n. um það samráð við þá, er sömdu frv. N. leggur til, að þessi 17. gr. verði umorðuð og verði þannig, að við þá mgr. í l., sem ég las áðan, bætist: „Veiti síðara hjónabandið einnig rétt til lífeyris, má eftirlifandi maki velja um, hvort hann tekur lífeyri eftir fyrri eða síðari makann.“ Þetta var það, sem vakti fyrir þeim, sem sömdu frv., en þykir réttara að orða það á þennan veg, svo að það komi ótvírætt fram, að hverju er stefnt með breytingunni.

Þriðja brtt. n. er um það, að á eftir 19. gr. komi ný gr. í frv., er verði 20. gr., og er þar um að ræða breyt. á 16. gr. laganna. Fjórir fyrstu málsl. 16. gr. l. hljóða nú þannig:

„NÚ lætur sjóðfélagi í lifanda lífi og af öðrum ástæðum en elli eða örorku af stöðu þeirri, er veitti honum aðgang að sjóðnum, og á hann þá rétt á að fá endurgreidd vaxtalaus iðgjöld þau, er hann hefur greitt í sjóðinn. Hafi hann verið sjóðfélagi í 15 ár, er hann lætur af stöðunni, getur hann — með samþykki sjóðsstjórnarinnar valið um, hvort hann fær iðgjöld sín endurgreidd eða hann lætur þau standa inni í sjóðnum. Velji hann síðari kostinn, fellur niður skylda hans til að greiða framvegis iðgjöld til sjóðsins og réttur hans til örorkulífeyris. Ellilífeyrir hans og lífeyrir eftirlátins maka miðast þá við starfstíma hans og meðallaun síðustu 10 starfsár hans samkv. 12. og 14. gr.

Við leggjum hér til í þessari brtt., að í stað „15 ár“ komi: 10 ár. Þetta er byggt á því, að samkv. l. öðlast menn rétt til ellilífeyris, ef þeir hafa starfað og greitt tillög til sjóðsins í 10 ár, og virðist okkur þá eðlilegt, að eftir að þeim starfsaldri er náð, hafi sjóðfélagarnir möguleika til þess að velja um, hvort þeir taka út þau iðgjöld, sem þeir hafa greitt, án vaxta eða láta iðgjöldin standa inni í sjóðnum og geyma sér rétt til lífeyris, þegar þeim aldri er náð, að lífeyrir er greiddur yfirleitt.

Við ræddum um þetta atriði við sjóðsstjórnina, og hefur hún ekkert við það að athuga. Fjórða brtt. n. er við 22. gr. Í þeirri gr. frv. er ákvæði um það, að ef starfsmaður, sem hefur verið í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, flytur í annað starf, sem veitir aðgang að öðrum lífeyrissjóði, sem stofnaður er með lögum, þá megi endurgreiða með vöxtum öll iðgjöld, sem greidd hafa verið í sjóðinn vegna þessa sjóðfélaga, og nánari ákvæði eru um skilyrði í þessu sambandi. Þá segir einnig, að sjóðsstjórninni sé heimilt að nota sömu endurgreiðslureglu, þegar sjóðfélagi flyzt í annan sjóð, sem viðurkenndur er af fjmrn.

Við athugun á þessu kom í ljós, að aðstaða þeirra manna, sem hverfa úr starfi hjá ríkinu og eru tryggðir í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, getur orðið ójöfn eftir því, hvort þeir fara til starfa hjá öðru fyrirtæki, sem hefur lífeyrissjóð, eða hverfa að öðrum störfum, t.d. í eigin atvinnurekstur eða til einhverra þeirra starfa, sem veita ekki aðgang að neinum sérstökum lífeyrissjóði; ef þeir hefðu ekki starfað 10 ár eða lengur hjá ríkinu og verið félagar í sjóðnum, þá mundu þeir aðeins fá sín iðgjöld endurgreidd vaxtalaus, en hinir, sem færu til starfa við aðra stofnun, sem hefði lífeyrissjóð, gætu samkvæmt greininni fengið yfirfærð þangað öll þau iðgjöld, sem þeirra vegna hafa verið greidd í sjóðinn, ásamt vöxtum til þess að öðlast þar ný lífeyrissjóðsréttindi.

Okkur kom því saman um, að það væri rétt að gera á þessu nokkra breytingu, og leggjum til, að við gr. bætist, að þetta gildi einnig, ef sjóðfélaginn kaupir sér lífeyri hjá tryggingarfélagi eða stofnun, sem starfar eftir reglum, er fjármálaráðuneytið samþykkir, enda gildi þar sömu reglur um endurkaup og greiðslu lífeyris og ákveðnar eru í þessum lögum. Þá hafa þeir, sem hverfa frá störfum hjá ríkinu, ef þetta verður samþ., möguleika til þess að kaupa sér lífeyri hjá einhverri stofnun, sem selur slík réttindi, og nota til þess það fé, sem greitt hefur verið þeirra vegna í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Skilyrðin, sem hér eru sett, eru þan sömu sem nú gilda samkvæmt skattalögunum, þegar menn óska eftir því að fá að draga frá tekjum sínum iðgjöld af keyptum lífeyri.

Það skal tekið fram, að einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja fleiri brtt. eða fylgja till., sem fram kunna að koma, og getur vel verið, að einhverjar slíkar komi fram fyrir 3. umr.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að gera að umtalsefni aðrar gr. frv. Það er nokkuð rækileg grein gerð fyrir efni frv. og einstakra gr. í þeirri grg., sem fylgir því, en eins og þar er tekið fram og ég hef minnzt á áður, þá er frv. samið af stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það er ekki hægt að segja, að þarna sé um neinar veigamiklar breytingar að ræða, heldur ýmsar smærri lagfæringar og leiðréttingar, sem reynslan hefur sýnt, að áliti sjóðsstjórnarinnar, að ástæða sé til að gera á lögunum.