10.03.1955
Neðri deild: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

139. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lýsti ég því fyrir hönd okkar hv. 9. landsk. þm. (KGuðj), sem skipum minni hl. í hv. heilbr: og félmn., að við hefðum hug á því að reyna að fá fram tvær smávægilegar breytingar á því frv., sem hér liggur nú fyrir til umr. Við ákváðum þó þá að fresta flutningi brtt. um þetta mál til að freista þess að fá samkomulag innan n. allrar um stuðning við þessar hugmyndir okkar. Það hefur því miður ekki tekizt, og höfum við því leyft okkur að flytja tvær brtt. á þskj. 442, og skal ég í örstuttu máli reyna að gera grein fyrir efni þeirra.

Með þeirri breytingu, sem gerð er á gildandi lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins í 2. gr. þessa frv., er felldur niður réttur starfsmanna sjálfseignarstofnana, er starfa í almenningsþágu, til þess að vera aðili að lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Svo er mál með vexti, að undir þetta mundu t.d. falla starfsmenn þeirra sjúkrasamlaga í landinu, sem eru ekki félagar í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins samkvæmt öðrum lagaákvæðum en þeim, sem hér er um að ræða, en t.d. starfsmenn sjúkrasamlags Reykjavíkur og starfsmenn sjúkrasamlagsins á Seyðisfirði eru samkvæmt öðrum reglum félagar í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ef frv. næði fram að ganga óbreytt eins og það er, með meðmælum hv. meiri hl. heilbr.- og félmn., þá þýddi það, að starfsmenn annarra sjúkrasamlaga í landinu yrðu ekki . eða gætu ekki orðið, ef ný sjúkrasamlög yrðu stofnuð, félagar í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þetta teljum við óeðlilegt og viljum kveða svo á í brtt. okkar, að starfsmenn við sjálfseignarstofnanir, er starfa í almenningsþágu og lúta stjórn, sem að öllu er skipuð eftir tilnefningu eða kosningu sveitarstjórnar, ríkisstjórnar eða Alþingis, geti orðið félagar í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Hin brtt. skiptir ef til vill minna máli, en hún er sú, að í 8. gr. verði tekið upp það lagaákvæði, að við gildistöku þessara laga skuli sá, sem er sjóðfélagi, njóta áfram fullra lífeyrisréttinda, þegar samanlagður aldur hans og þjónustutími er orðinn 95 ár. Eins og hv. deildarmönnum er vafalaust kunnugt, er ein breytingin, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sú, að felld er niður sú regla, að 95 ára samanlagður aldur og þjónustutími skuli veita rétt til lífeyris úr lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Sú skýring hefur að vísu fylgt frá stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, að þessi breyting geti ekki náð til þeirra, sem nú eru sjóðfélagar, heldur taki eingöngu til hinna, sem verða sjóðfélagar eftir að lagaákvæðið gengur í gildi, þ.e., að með þessari lagabreytingu sé ekki hægt að svipta þá, sem nú eru sjóðfélagar, þeim rétti, sem þeir hafa notið. Við hv. 9. landsk. þm. teljum hins vegar ekki algerlega öruggt, að þessi skilningur fái staðizt, ef það er ekki alveg skýrt kveðið á í lögunum, að þeir, sem nú eru sjóðfélagar, skuli halda þeim rétti sínum að fá fullan lífeyri, þegar samanlagður aldur og þjónustutími er orðinn 95 ár, og viljum við þess vegna kveða skýrt á um þetta í lögunum.

Til grundvallar þessari brtt. liggur sem sagt ekki skoðanamunur innan n., heldur er einungis spurningin um það, hversu skýrt á að kveða á um þetta í l. sjálfum. Hitt atriðið er efnisatriði, og vona ég, að hv. þdm. fallist á, að það sé sanngirnisatriði gagnvart þeim starfsmönnum t.d., sem ég nefndi áðan. En um fleiri slíka starfsmenn er vafalaust og gæti vafalaust orðið að ræða, að vafasamt væri, hvort þeir gætu haft rétt til þess að verða félagar í lífeyrissjóðnum, en mundu verða það, ef fyrri brtt. okkar á þskj. 442 yrði samþ.