10.03.1955
Neðri deild: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

139. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hér liggja fyrir tvær brtt. á þskj. 442, sem 1. flm. þeirra, hv. 1. landsk. (GÞG), hefur nú gert grein fyrir.

Ég hef átt tal um þessar brtt. við stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en eins og áður hefur verið frá skýrt og fram kemur í aths., sem fylgja frv., þá var það einmitt stjórn lífeyrissjóðsins, sem samdi þetta frv.

Fyrri brtt. á þskj. 442 er við 2. gr. frv. Í lögunum, sem nú gilda, segir, að starfsmenn við sjálfseignarstofnanir, er starfa í almenningsþarfir, sé heimilt að taka í tölu sjóðfélaga auk starfsmanna við ríkisstofnanir og starfsmanna bæjar-, sýslu- og sveitarfélaga, en höfundar frv. leggja til í frv., að þessi ákvæði um starfsmenn við sjálfseignarstofnanir verði felld þarna niður, og þeir segja um þessa breytingu í aths. með frv., með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Samkvæmt 4. gr. laga 101 1943 er heimilt — en ekki skylt — að taka í tölu sjóðfélaga: 1. starfsmenn við ríkisstofnanir, er sérstakan fjárhag hafa, 2. starfsmenn bæjar-, sýslu- og sveitarfélaga og 3. starfsmenn við sjálfseignarstofnanir, er starfa í almenningsþarfir.

Í frv. er ákvæðum þessum breytt á tvo vegu. Annars vegar er leyft að taka í tölu sjóðfélaga starfsmenn við stofnanir, er tilheyra bæjar-, sýslu- eða hreppsfélögum, sem hafa sérstakan fjárhag, þannig að starfsmennirnir mundu taldir starfsmenn stofnunarinnar, en ekki starfsmenn bæjar-, sýslu- eða hreppsfélagsins. Í annan stað er í frv. felld niður heimildin til að taka í tölu sjóðfélaga starfsmenn sjálfseignarstofnana, sem starfa í almenningsþarfir. Liggja til þessa tvær ástæður aðallega. Önnur er sú, að nú er eigi lengur þörf á þessari heimild, eftir að lög hafa rýmkað mjög rétt manna til að draga lífeyrisiðgjöld frá tekjum sínum til skatts, sbr. l. nr. 46 14. apríl 1954, 10. gr. Hin ástæðan er sú, að mjög örðugt reynist í framkvæmdinni að ákveða það, hverjar stofnanir fylli skilyrði þau, sem áskilin eru í 3. lið 4. gr. laga 101 1943.“

Stjórn lífeyrissjóðsins hefur látið uppi, að álit hennar um þetta sé óbreytt, og hún leggur á móti því, að þessi brtt. verði samþ.

Mér hefur skilizt á hv. flm., að þeir bæru sérstaklega hér fyrir brjósti einhverja starfsmenn við sjúkrasamlög annars staðar en í Reykjavík, en hins vegar hefur mér skilizt á stjórn lífeyrissjóðsins, að þessir starfsmenn sjúkrasamlaga mundu ekki vera í neinum vandræðum með að komast í einhverja lífeyrissjóði, þó að 2. gr. frv. verði samþ. eins og hún nú er. Ég skal ekki fullyrða um það, hvernig á það yrði litið reyndar með sjúkrasamlögin, en núna stendur í frv., í 2. tölul. 2. gr.: „Starfsmenn bæjar-, sýslu- og hreppsfélaga og stofnana, er þeim heyra til og sérstakan fjárhag hafa.“ Mér finnst fyrir mitt leyti, að vel megi segja, að sjúkrasamlög heyri til bæjar- og hreppsfélögum, en ég skal ekki segja um lagalegan skilning eða skýringar á því. Ég tel fyrir mitt leyti, að það hefði gilt nokkuð öðru máli, ef þeir flm. brtt. hefðu sérstaklega flutt hér till. um starfsmenn sjúkrasamlaga, sem þeir virðast sérstaklega hugsa um; það hefði gilt nokkru öðru máli heldur en að taka þarna inn ákvæðið um sjálfseignarstofnanir yfirleitt, ótiltekið hverjar þær eru, en það er einmitt það atriði, sem stjórn lífeyrissjóðsins leggur á móti að verði haft í l. framvegis eins og það nú er.

Þá er önnur brtt. við 8. gr. — 8. gr. frv. er um breyt. á 1. málsgr. 12. gr. í l. frá 1943, og vil ég til viðbótar því, sem ég sagði um þetta við 2. umr. málsins, fara um þetta atriði nokkrum orðum.

1. málsgr. 12. gr. laganna, sem nú gilda, hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Hver sjóðfélagi, er greitt hefur iðgjöld til sjóðsins í 10 ár eða lengur og annaðhvort er orðinn fullra 65 ára að aldri eða samanlagður aldur hans og þjónustutími er orðinn 95 ár, á rétt á árlegum ellilífeyri úr sjóðnum.“

Í frv. er lagt til, að úr þessari málsgr. falli ákvæðin um rétt manna, þegar samanlagður aldur þeirra og þjónustutími er orðinn 95 ár, þannig að lífeyrisrétturinn sé bundinn við 65 ára aldur, og höfundar frv. gera grein fyrir þeirri breytingu. Þeir segja svo:

„Hér er gert ráð fyrir að fella niður ákvæðið um, að sjóðfélagi, sem hefur náð 95 ára samanlögðum aldri og þjónustutíma, megi hætta störfum og taka eftirlaun. Breyting þessi getur þó ekki tekið til þeirra, sem orðnir eru sjóðfélagar fyrir gildistöku hennar.“

Þeir segja enn fremur:

„95 ára ákvæðið var í l. nr. 51 1921, um lífeyrissjóð embættismanna. Þegar þau lög voru sett, mun hafa verið algengast, að embættismenn væru fyrst skipaðir í embætti um 30 ára aldur, og var ákvæðið þá ekki óeðlilegt. Öðru máli gegnir nú í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, þar sem reynslan sýnir, að mikill fjöldi sjóðfélaga kemur inn á aldrinum 18–25 ára. 95 ára ákvæðið skapar þeim rétt til að hætta störfum á aldrinum 561/2 árs til 60 ára, þótt þeir hafi þá óskerta starfsorku. En það er alls ekki tilgangur laganna um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins að skapa starfhæfu fólki aðstöðu til að hætta störfum og taka eftirlaun, heldur hitt, að tryggja þeim mönnum lífeyri, sem vegna elli eða örorku verða að hætta störfum og missa þar með vinnutekjur sínar.“

Það var enginn ágreiningur um það í fjhn., að rétt væri að samþ. þessa breytingu, fella niður ákvæðin um rétt manna til að fá lífeyri, þegar samanlagður aldur þeirra og þjónustutími væri orðinn 95 ár.

En hv. fim. brtt. á þskj. 442 virðast ekki telja það nógu öruggt, að þessi eldri ákvæði verði látin gilda áfram fyrir þá starfsmenn, sem nú eru í tölu sjóðfélaga. Þetta segir hins vegar stjórn lífeyrissjóðsins að sé alveg öruggt og þess vegna eigi þessi breyting ekkert erindi inn í frv., og í þeirra hópi er meðal annarra vísra manna á þessu sviði lagaprófessor við háskólann. Ég hefði því talið æskilegast, að hv. flm. tækju þessa till. aftur. En vilji þeir það ekki, þá vil ég enn fremur vekja athygli á því, að þeir orða þetta nokkuð öðruvísi en nú er í l. Þeir segja í brtt.: „Sá, sem við gildistöku þessara l. er sjóðfélagi, skal njóta fullra lífeyrisréttinda, þegar samanlagður aldur hans og þjónustutími er orðinn 95 ár.“ En í l. segir nú, að slíkur maður eigi rétt á árlegum ellilífeyri úr sjóðnum. Mér finnst vera nokkur munur á þessu, og e.t.v. mætti túlka þetta þannig, ef þessi brtt. hv. 1. landsk. og hv. 9. landsk. yrði samþ., að þá skyldu menn, eins og þar stendur, taka lífeyri, þegar samanlagður þjónustutími og aldur væri orðinn 95 ár, en það getur orðið þegar menn eru innan við sextugt, og ættu þeir þá, hvort sem þeim líkaði betur eða verr, að hætta störfum og fara að taka fullan lífeyri.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. En með tilvísun til ummæla sjóðsstjórnarinnar, sem ég hef þegar vitnað til, tel ég, að það sé engin ástæða til að samþykkja þessa till. frekar en hina. Og bezt væri, ef flm. vildu taka hana aftur, þar sem enginn vafi virðist leika á því, að menn þeir, sem nú eru í sjóðnum, njóta þeirra réttinda áfram, sem l. nú gera ráð fyrir.