04.04.1955
Efri deild: 67. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

139. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Á Alþ. 1954 var sett bráðabirgðaákvæði aftan við lögin um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin lætur fara fram endurskoðun á lögum nr. 101 30. des. 1943, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, í samráði við stjórn sjóðsins. Verði m.a. athugað, hvort ekki sé rétt með hliðsjón af breyttum aðstæðum að hækka aldurstakmark frá því, sem nú er um rétt til fullrar lífeyrisgreiðslu, svo og annað það, sem af slíkri breytingu kann að leiða. Skal endurskoðuninni vera lokið á þessu ári.“

Samkv. þessu bráðabirgðaákvæði fól hæstv. ríkisstjórn stjórn lífeyrissjóðs starfsmanna að endurskoða þessi lög og þá sérstaklega með tilliti til þess ákvæðis laganna, að starfsmaður, sem hefur samanlagðan aldur og þjónustualdur 95 ár, skyldi hafa rétt til að láta af störfum og taka lífeyri, þó að hann væri ekki orðinn 65 ára gamall. Jafnframt var svo stjórn þessa lífeyrissjóðs falið að endurskoða lögin um lífeyrissjóð barnakennara og ekkna þeirra og lögin um lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna með það fyrir augum að samræma ákvæði þessara þrennra laga, eftir því sem við væri hægt að koma.

Frv. það, sem lagt var fyrir hv. Nd. á þskj. 333, var óbreytt eins og lífeyrissjóðsstjórnin gekk frá því, en Nd. samþykkti á því nokkrar breytingar, flestar smávægilegar, og er það þaðan komið til þessarar hv. deildar.

Meginatriði þessa frv., þ.e.a.s. breytingarnar frá því í gildandi lögum, eru þær, sem nú skal greina.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að fella niður það ákvæði lífeyrissjóðslaganna, að sjálfseignarstofnanir svokallaðar skuli hafa heimild til þess að tryggja starfsmenn sína hjá lífeyrissjóðnum. Þetta ákvæði er lagt til í frv. að verði fellt niður, og þær ástæður, sem taldar eru til þess, ern teknar upp í grg. þeirri, sem frv. fylgdi. Þar segir svo um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Í annan stað er í frv. felld niður heimildin til að taka í tölu sjóðfélaga starfsmenn sjálfseignarstofnana, sem starfa í• almenningsþarfir. Liggja til þessa tvær ástæður aðallega. Önnur er sú, að nú er eigi lengur þörf á þessari heimild, eftir að lög hafa rýmkað mjög rétt manna til að draga lífeyrisiðgjöld frá tekjum sínum til skatts, sbr. lög nr. 46 14. apríl 1954, 10. gr. Hin ástæðan er sú, að mjög örðugt reynist í framkvæmdinni að ákveða það, hverjar stofnanir fylli skilyrði þau, sem áskilin eru í 3. lið 4. gr. l. 101/1943“ — þ.e.a.s., hvað skuli telja opinberar stofnanir í almenningsþágu.

Ég skal geta þess, að flestar þær stofnanir, sem tvímælalaust er um í þessu efni að teljist opinberar stofnanir í almenningsþágu, hafa nú þegar tryggt starfsmenn sína hjá sjóðnum. Það er fyrst og fremst Búnaðarfélag Íslands, Fiskifélag Íslands og hliðstæðar stofnanir. Aftur hafa komið umsóknir frá ýmsum öðrum stofnunum, eins og áburðarverksmiðjunni og Iðnaðarbankanum, sem hvort tveggja er hlutafélag og getur því samkv. áliti sjóðsstjórnarinnar ekki fallið undir þetta ákvæði laganna. Sjúkrasamlögin flest hin stærri hafa annaðhvort tryggt starfsmenn sína í lífeyrissjóðnum, eins og sjúkrasamlag Reykjavíkur, eða þau fá þá tryggingu, sem starfsmenn sveitar- og bæjarfélaganna njóta á þeim stað, hjá hlutaðeigandi bæjarfélögum. Enn fremur er í frv. gert ráð fyrir að rýmka mjög heimildina til þess að tryggja starfsmenn sveitar- og bæjarfélaga í sjóðnum frá því, sem nú er, þannig að það verði ekki aðeins starfsmenn bæjarfélaganna sjálfra, heldur einnig stofnana, sem bæjarfélögin eða sýslufélögin hafa með höndum og hafa sérstakan fjárhag, og mundu þessir starfsmenn þá geta fengið tryggingu hjá lífeyrissjóðnum eins og starfsmenn ríkisins.

Ég held, að það sé ekki ástæða til þess að halda þessu ákvæði lengur í lögunum, - ég er sammála stjórn lífeyrissjóðsins um það, — úr því sem komið er, sérstaklega með tilliti til þess, að rýmkaður er réttur stofnana, sem bæjar- og sýslufélög eiga og reka, til þess að fá tryggingu í sjóðnum fyrir sína starfsmenn.

Þá er gert ráð fyrir því í samræmi við bráðabirgðaákvæðið, sem ég drap á áðan, að ákvæðið um, að menn geti látið af störfum og tekið eftirlaun, þegar samanlagður aldur og þjónustualdur er 95 ár, verði fellt niður. Ég skal þó taka það fram, að lífeyrissjóðsstjórnin og aðrir þeir, sem um málið hafa fjallað, munu vera sammála um, að breytingin á þessu ákvæði taki þó ekki til þeirra manna, sem nú þegar hafa öðlazt réttindi í sjóðnum, heldur aðeins til þeirra, sem koma inn sem nýir félagar, eftir að breytingin er lögfest.

Ástæðan til þess, að rétt þykir nú að fella þetta ákvæði niður úr lögunum, er sú, að sjóðfélagar eru nú með allt öðrum hætti en þeir voru, meðan lögin um lífeyrissjóð embættismanna voru í gildi fram til ársins 1944. Þá voru réttindi sjóðfélaga takmörkuð við embættismennina eina, þ.e.a.s. í flestum tilfellum menn, sem höfðu langt skólanám að baki, áður en þeir gátu tekið sér starfa og orðið sjóðfélagar. Þá var algengt, að menn voru orðnir um 30 ára og sumir jafnvel eldri, áður en þeir fóru að greiða til sjóðsins. Nú, eftir að lögunum var breytt 1944 og starfsmenn ríkisstofnana og almennt skrifstofufólk hjá ríkissjóði og stofnunum hans er sjóðfélagar, er orðin á þessu nokkur breyting. Menn koma nú miklu yngri inn en áður og er því ekki ástæða til að hafa þetta ákvæði lengur í lögum. Segjum, að tvítugur maður hefji starf hjá ríkinu og fari að greiða til sjóðsins. Eftir 30 ár, þegar hann er fimmtugur, hefur hann samanlagðan aldur og starfsaldur 80 ár. En þegar hann er orðinn 55 ára, hefur hann samanlagðan aldur og starfsaldur 95 ár. Þegar hann er 521/2 árs, hefur hann samanlagðan aldur og starfsaldur 95 ár og ætti því eftir eldri ákvæðum laganna að geta þá látið af störfum og farið að taka eftirlaun. Þetta verður að teljast fullkomlega óeðlilegt, enda er n. sammála um það, að rétt sé að fella þetta ákvæði niður, þannig að enginn, sem er heill heilsu og er með fulla starfsgetu, geti öðlazt rétt til eftirlauna eða lífeyris, fyrr en hann hefur fyllt 65 ára aldur, og þá því aðeins til fulls lífeyris, að hann hafi greitt tilskilinn árafjölda eða 30 ár. Um þetta virðist vera fullt samkomulag, enda eðlilegt, að þessi breyting sé á gerð. En ég vil taka það fram aftur, að þessi breyting tekur að minni hyggju og þeirra, sem um þessi mál hafa fjallað, ekki til þeirra, sem hafa öðlazt réttindi sem sjóðfélagar áður en þessi breyting tekur lagagildi.

Þá er í öðru lagi lagt til í frv., að eftir að iðgjöld hafa verið greidd til sjóðsins í 30 ár, skuli iðgjaldagreiðslur falla niður, þó að hlutaðeigandi haldi áfram að starfa hjá ríki eða ríkisstofnunum, því að 30 ára iðgjaldagreiðsla gefur rétt til fulls lífeyris samkvæmt lögunum. Þó að maðurinn borgi lengur en 30 ár, þá veitir það honum þess vegna engin aukin réttindi til lífeyris úr sjóðnum, hvorki hækkaðan lífeyri né heldur að hann fái hann fyrr en ella. Ég verð því að telja fullkomlega eðlilegt, að þessi breyting verði samþ., svo sem lagt er til í frv. En hv. meiri hl. fjhn. er þar á annarri skoðun. Meiri hl. leggur til, að þetta ákvæði verði fellt úr frv., þannig að menn haldi áfram að greiða iðgjöld til sjóðsins, á meðan þeir eru í starfi og halda launum hjá ríkissjóði, þó að það sé lengur en 30 ár, og þannig sé greitt meira fyrir lengri tíma en þarf til þess að öðlast rétt til fulls lífeyris. Ég verð að telja, að ekki sé réttlátt að fella ákvæðið niður. Við skulum segja, að tveir menn hefji starf hjá ríkissjóði eða ríkisstofnun, annar 25 ára og hinn 35 ára. Sá, sem hefur byrjað starf 35 ára og greiðir í 30 ár, þangað til hann er 65 ára, fær rétt til fulls lífeyris, ef hann þá hættir störfum. Hinn maðurinn, sem byrjar 25 ára, greiðir í 40 ár, til 65 ára aldurs, fjórðungi lengri tíma, en fær engu meiri rétt til lífeyris en sá, sem aðeins greiddi fyrir 30 ára tímabil. Ég verð því að telja eðlilegast, að ákvæði frv. um þetta efni verði látin haldast óbreytt eins og þau nú eru í frv.

Þá er lagt til, að lífeyrir héraðslækna skuli jafnan miðaður við laun í hæsta launaflokki héraðslækna án tillits til þess, hvort þeir hafa verið í þessum launaflokki 10 árin síðustu áður en þeir láta af störfum. Þetta er gert með tilliti til þess, að laun lækna eru nokkuð misjöfn, eins og kunnugt er, og þau eru lægst í hinum meiri og tekjuhærri héruðum, þ.e.a.s. tekjuhærri þegar tekið er tillit til þess, hversu mikill hluti af tekjum lækna kemur fyrir unnin læknisstörf sem greiðsla frá sjúklingunum sjálfum eða sjúkrasamlögunum. Til þessa er ekki tekið tillit að sjálfsögðu í iðgjaldagreiðslum til sjóðsins. En manni, sem befur verið í læknishéraði með lágum launum og haft meiri hlutann af tekjum sínum af „praksís“ og tekjum frá sjúklingum eða samlögum, bregður náttúrlega mjög mikið við, þegar hann kemst á eftirlaun, miðuð við lág föst laun og ekkert tillit tekið til þeirra tekna, sem hann áður hefur aflað sér með sínum læknisstörfum. Ætlunin er að draga úr þessu og jafna metin með því að miða jafnan eftirlaunin hjá læknunum við hæsta launaflokk héraðslækna.

Þá hefur stjórn lífeyrissjóðsins lagt til, að 21. gr. lífeyrissjóðsl. frá 1943 yrði breytt þannig, að nokkru yrði aukið við seinustu málsgr. gr. Seinasta málsgr. greinarinnar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða kröfurnar á nokkurn hátt“ — þ.e.a.s. kröfur sjóðfélaga á hendur lífeyrissjóðnum. Við þetta er lagt til í frv. að bætt verði einum málslið enn, sem segir svo: „og eigi má halda lífeyrisfé eftir til greiðslu opinberra gjalda“. Það hefur verið talið sjálfsagt að tryggja það, að lífeyrisgreiðslur kæmu lífeyrisþeganum sjálfum til persónulegra nota, honum til lífsframfæris, og því sjálfsagt að hafa það ákvæði í lögunum, að skuldheimtumaður í dánar- eða þrotabúi gæti ekki skert þessar lífeyriskröfur á nokkurn hátt. Hins vegar hefur það komið fyrir nokkrum sinnum og ósjaldan sennilega, að innheimtumenn opinberra gjalda hafa gert kröfur til þess, að haldið yrði eftir af lífeyrisgreiðslum til þess að standa skil á gjöldunum. Stjórn lífeyrissjóðsins telur, að á þessu sé í raun og veru enginn eðlismunur, og leggur því til, að tekið verði inn þetta ákvæði í 24. gr., að ekki megi halda eftir af lífeyri til greiðslu opinberra gjalda.

Meiri hl. hv. fjhn. er andvígur þessari breytingu. Hann vill láta nægja það, sem nú stendur í lögunum, að enginn skuldheimtumaður í dánareða þrotabúi hafi rétt til að skerða kröfuna á nokkurn hátt. Ég er hins vegar á sama máli og lífeyrissjóðsstjórnin, að mér finnst eðlilegast og bein afleiðing í rauninni af því, sem nú þegar stendur í lögunum, að ekki megi skerða kröfurnar til greiðslu opinberra gjalda frekar en skuldheimtumönnum sé heimílt að skerða þær til þess að fullnægja eidri kröfum í dánarbú eða þrotabú.

Þetta, sem ég nú hef nefnt, eru höfuðbreytingarnar, sem gerðar eru frá gildandi lögum, og hef ég þá um leið gert nokkra grein fyrir brtt. þeim, sem fjhn. leggur fram eða meiri hl. hennar á þskj. 533, en þær eru sem nú skal greina:

Í fyrsta lagi við 7. gr., að efnismálsgrein gr. falli niður, en það er það ákvæði, að þegar sjóðfélagi hefur greitt iðgjöld til sjóðsins í 30 ár, þá skuli iðgjaldagreiðslan falla niður svo og iðgjaldagreiðsla launagreiðanda hans vegna. Meiri hl. nefndarinnar vill fella þetta niður og láta sjóðfélagann halda áfram að greiða, meðan hann er við störf hjá ríkinu eða stofnunum þess.

Þá flytur nefndin öll aðra brtt. á þskj. 533 við 7. gr., um rétt fósturbarna til þess að njóta lífeyris úr sjóðnum, og er sammála um það. Það er lagt til hér, að orðalaginu verði breytt og nokkru skýrar tekið fram, hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess, að barnið fái viðurkenningu sem fósturbarn. Það er mjög á reiki og engin ákvæði um það í lögum, að mér sé kunnugt um, hvað telja skuli fósturbarn, og veldur það nokkrum örðugleikum við að ákveða, hvenær barnið skuli teljast fósturbarn og hvenær ekki. Úr þessu hyggst nefndin bæta með því að orða greinina eins og segir í till. nr. 2 á þskj. 139; að fósturbörn, sem sjóðfélagi hefur haft á framfæri sínu 5 ár samfleytt eða frá því þau voru á fyrsta ári, skuli njóta sama réttar og börnum og kjörbörnum er veittur hér að framan. Þ.e.a.s., hann fær ekki viðurkenningu á barninu sem fósturbarni; nema hann annaðhvort hafi haft það í fóstri og á framfæri sínu í full 5 ár eða að öðrum kosti tekið barnið eftir fæðingu eða strax á fyrsta ári í fóstur. Það er talið fullnægjandi, til þess að um fósturbarn sé að ræða.

Þá er sömuleiðis orðalagsbreyting á 22. gr., sem í 3. till. er lagt til að orðist eins og þar segir, að „lífeyrisgreiðslur, sem börn og ekkjur sjóðfélaga fá greiddar frá slysatryggingadeild almannatrygginganna, skulu koma til frádráttar lífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum þessum.“ Í frv. er þetta orðað þannig, að bætur, sem eftirlifandi börn sjóðfélaga fá greiddar, skuli koma til frádráttar. Nefndin telur ekki eðlilegt að draga allar bætur, sem börn kunna að fá, frá greiðslu lífeyrissjóðsins. Það hefur jafnan verið talið sjálfsagt, enda ákveðið í lögum, að eingreiðslur, þ.e.a.s. bætur, sem greiddar eru í einu lagi við dauðsfall eða örorku, komi ekki til frádráttar frá lífeyrisgreiðslum, sem aðrir aðilar eða aðrir sjóðir greiða hlutaðeigandi persónu. Hins vegar er það talið rétt og eðlilegt, að hvorki barn né kona njóti lífeyris samtímis frá tveimur stöðum, bæði frá slysatryggingunni, ef maður ferst af slysi, og líka frá lífeyrissjóði starfsmanna. Því er gert ráð fyrir, að lífeyrisgreiðslur, sem slysatryggingunni ber að greiða t.d. börnum sjóðfélaga, sem farizt hafa af atvinnuslysum, komi til frádráttar þeim lífeyri, sem sjóðnum ber að greiða til barnanna. Hins vegar skulu þær bætur, sem greiddar eru í einu lagi, hvort heldur er til ekkju eða barna, greiðast út og ekki hafa áhrif til lækkunar á lífeyrisgreiðsluna eða aðrar bótagreiðslur úr lífeyrissjóði starfsmanna.

Þá er 4. brtt. á sama þskj., 533, þar sem lagt er til, að 24. gr. verði alveg felld niður og látin nægja þau ákvæði, sem standa í gildandi lögum um þetta efni, en það er 1. málsl. greinarinnar: „Enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða kröfurnar á nokkurn hátt“ — en felld verði niður siðasta málsgr. greinarinnar um, að ekki megi halda eftir af lífeyrisfé til greiðslu opinberra gjalda.

Þær brtt., sem fluttar eru af nefndinni við frv. um lífeyrissjóð barnakennara og ekkna þeirra og lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna, eru að mestu í samræmi við þær brtt., sem hér eru lagðar fram, og er það í því skyni gert að reyna að hafa samræmi milli þessara sjóða innbyrðis, að svo miklu leyti sem hægt er að koma því við.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Um 2. og 3. lið brtt. er nefndin, eins og ég hef áður greint frá, öll sammála, en um till. 1 og till. 4 er ágreiningur. Ég er mótfallinn þeim báðum, en aðrir hv. nm. virðast vera þeim meðmæltir.