04.04.1955
Efri deild: 67. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

139. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Það er fullkomlega rétt hjá hv. þm. Barð. (GíslJ), að ég lét ógert að bera fram rök hv. meiri hl. n. fyrir því að fella niður ákvæðið um, að iðgjaldagreiðslur skyldu falla niður, eftir að hlutaðeigandi hefur greitt iðgjald í 30 ár. Ég taldi eðlilegt og sjálfsagt, að þeir, sem að þessari till. standa, gerðu sjálfir grein fyrir henni, svo að víst væri, að rök þeirra kæmu öll fram í þessu efni. Sama gildir einnig um síðustu brtt., að fella niður 24. gr. frv.

Þau rök, sem færð voru fram í n. fyrir brtt. og hv. þm. gerði grein fyrir, eru þau í fyrsta lagi, að bagur sjóðsins sé ekki svo góður sem skyldi. Það er án efa rétt. Að vísu liggur ekki fyrir nú fullkominn útreikningur á, hve miklu eignir sjóðsins nema á móti þeim skuldbindingum, sem hann hefur. En nú um næstu áramót er ætlunin að láta tryggingafróðan mann reikna það út og gefa þannig sæmilega glöggt yfirlit yfir hag sjóðsins. Síðasta yfirlit um þetta efni er frá því í árslok 1949 eða 1950, og samkvæmt því var bersýnilegt, að sjóðinn skorti talsvert mikið á að eiga fé fyrir þeim skuldbindingum, sem á honum hvíla. Meginorsökin til þess er sú, að gífurlegar breytingar hafa orðið á launakjörum sjóðfélaganna frá þeim tíma, þegar þeir fyrst gengu í sjóðinn og iðgjaldagreiðslur hófust, og til þess tíma, sem nú er og lífeyrisgreiðslurnar væntanlega verða miðaðar við. Breytingar á verðgildi peninga og á launum hafa verið svo stórkostlegar, að það er alveg bersýnilegt, að sjóðinn vantar allmjög til þess að mæta þessum skuldbindingum, þó að ríkissjóður beri nokkurn hluta þessarar áhættu. En sá tekjuauki, sem af því hlytist að láta menn greiða iðgjöld til sjóðsins lengur en 30 ár, mundi áreiðanlega hrökkva skammt til þess að jafna þennan mismun, þó að eitthvað kæmi á þennan hátt upp í það.

Höfuðrökin fyrir því að samþykkja brtt. eru þau, — og ég skal viðurkenna, að þau eru allveigamikil, — að ef maður byrjar mjög ungur að greiða til sjóðsins, þá er ekki ósennilegt, að hann setjist í hærri launaflokk og fái hærri laun og þar af leiðandi hærri eftirlaun, eftir að iðgjaldagreiðslur falla niður, þannig að fullkomið ósamræmi verði á milli iðgjaldagreiðslna hans til sjóðsins og þeirra lífeyrisupphæða, sem hann fær rétt til, þegar hann hættir. Ef maður byrjar að starfa hjá sjóðnum 20 ára gamall og hættir greiðslum fimmtugur, þá er ekkert ósennilegt, að hann eigi eftir að flytjast upp í hærri launaflokk, kannske um eitt eða tvö set, og muni ávinna sér á þann hátt rétt til hærri lífeyris. Þetta er veigamikið atriði, — ég skal játa það, — og er skylt að taka nokkurt tillit til þess, enda hygg ég, að þetta muni vera höfuðrök tillögumanna fyrir því að vilja ekki fella niður greiðslurnar eftir 30 ár.

En þar á móti kemur það að minni hyggju, að sá maður, sem byrjar ungur í starfi og byrjar ungur að greiða til sjóðsins, hefur þegar eftir 30 ár greitt þá áætlunarfúlgu, sem gert er ráð fyrir að eigi að mæta hans lífeyrisgreiðslu, og ef hann byrjar tvítugur, þá eru eftir 15 ár, þangað til hann fær rétt til nokkurrar greiðslu úr sjóðnum, og allan þann tíma hefur sjóðurinn þetta fé til ávöxtunar. Og þegar um svo ungan mann er að ræða, sem byrjar svona ungur í starfi, þá eru 15 ára vextir af öllum greiðslum til sjóðsins veruleg upphæð. Ég hygg því, að það sé ekki full sanngirni í því að ætlast til þess, að slíkur maður haldi áfram að greiða næstu 15 árin full iðgjöld til sjóðsins, eins og sá maður, sem ekki byrjar fyrr en hann er 35 ára og hefur ekki greitt í 30 ár fyrr en hann er orðinn 65 ára gamall.

Um þetta má að sjálfsögðu deila. En ég mundi telja, að einmitt það, hversu lengi sjóðurinn hefur innborganir hlutaðeigandi starfsmanns til ávöxtunar, áður en til lífeyrisgreiðslu kemur, ætti að vega nokkurn veginn á móti þeirri áhættu, sem fylgir því fyrir sjóðinn, ef hann kemst upp í hærri launaflokk á þessu tímabili og skapar sér þannig rétt til hærri lífeyris.

Ég álít því rétt að halda sig að ákvæðum frv., eins og það nú er og eins og stjórn lífeyrissjóðsins hefur lagt til að það yrði framvegis.

Að því er snertir síðustu brtt., að fella niður ákvæðið um, að ekki megi halda eftir af lífeyrisgreiðslum til greiðslu opinberra gjalda, þá er ég sama sinnis og ég gerði grein fyrir í fyrri ræðu minni. Ég álít, að lífeyririnn sé fyrst og fremst til þess veittur að tryggja hlutaðeigandi sjóðfélaga til sinna persónulegu þarfa þann lífeyri, sem hann hefur rétt til. Ef hann hefur aðrar tekjur annars staðar frá, sem valda því, að á hann eru lögð há opinber gjöld, þá er eðlilegra að ganga að þeim tekjum, sem þar er um að ræða, til þess að mæta þeim, því að lífeyrisgreiðslurnar eru ekki nema í örfáum tilfeilum það háar, að á þær sé lagður verulegur skattur til hins opinbera, hvorki til ríkis né sveitar. Þá fyrst verða greiðslur sjóðfélaga, skattar og opinber gjöld, svo háar, að nokkru verulegu nemi, ef þeir hafa tekjur eða eignir, sem gefa af sér tekjur til viðbótar því, sem þeir fá úr lífeyrissjóðnum. Að vísu eru örfáir menn, sem hafa það háar greiðslur samanlagt úr lífeyrissjóði og samkv. 18. gr. fjárl., að nálgast full laun, en þá er líka hægt að ganga að öðrum aðila en sjóðnum til greiðslu á þeim opinberu gjöldum, sem á þá kynnu að vera lögð.