14.04.1955
Efri deild: 68. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

139. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. er flutt sem stjfrv., eins og hv. þdm. vita, að lokinni endurskoðun á löggjöfinni um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem framkvæmd var af hendi stjórnar lífeyrissjóðsins.

Það var á sínum tíma leitað samkomulags við stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um þetta mál. Það var ekki óeðlilegt, að það væri haft samband við bandalagsstjórnina um þetta efni, þar sem þetta snertir mjög kjör opinberra starfsmanna, og bandalagsstjórnin var meðmælt frv. eins og það var lagt fyrir hv. Alþingi. Það voru að vísu ákvæði í því, sem samtök opinberra starfsmanna töldu vera heldur til hins lakara frá því, sem verið hafði fyrir opinbera starfsmenn, en þá önnur, sem að þeirra dómi vógu þar á móti.

Nú tel ég mér skylt að láta hv. þd. vita, að þær breytingar, sem gerðar hafa verið hér á frv. í hv. deild að tillögu meiri hl. fjhn., eru þannig vaxnar, eftir því sem stjórn bandalags opinberra starfsmanna hefur ritað ríkisstj., að stjórn bandalagsins, sem var meðmælt frv., mundi fara fram á það, að þetta frv. yrði ekki gert að lögum, ef það fæst ekki fært í upphaflegt horf. Leyfi ég mér að lesa bréf bandalagsstjórnarinnar til að skýra viðhorf hennar:

„Á Alþingi því, er nú situr, voru að tilhlutan hæstv. Ríkisstjórnar flutt frumvörp til laga um breyting á lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, lífeyrissjóð barnakennara og lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna. Í tilefni af brtt. við frv. þessi, sem hv. fjhn. Ed. hefur flutt á Alþingi, leyfum vér oss að rita yður, hæstv. fjármálaráðherra, eftirfarandi til skýringar á afstöðu bandalagsins til þessa máls.

Í gildandi lögum nm lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og lífeyrissjóð barnakennara er sú regla, að starfsmenn eiga rétt á að hætta störfum með fullum eftirlaunarétti, þegar þjónustutími þeirra og lífsaldur er samanlagt 95 ár, enda greiða þeir ekki iðgjöld lengur en til þess tíma. Í frv. þeim, sem lögð voru fram að tilhlutan ríkisstj., er regla þessi felld niður, en bandalagið taldi sig geta fallizt á, að svo yrði gert, þó fyrst og fremst vegna þess, að í frv. var mælt svo fyrir, að enginn skyldi greiða iðgjöld lengur en 30 ár, en við þann greiðslutíma miðast hámarkslífeyrir, en samkvæmt núgildandi lögum getur greiðslutími orðið allt að 381/2 ár.

Brtt. fjhn. Ed. er á þá leið, að menn mundu greiða iðgjöld meðan þeir gegna starfl. Yrði þá greiðslutími manns, sem kemur í þjónustu hins opinbera 18 ára gamall, 47 ár, miðað við, að hann starfi til 65 ára aldurs, en lífeyrisréttindi hans aukast ekki fyrir síðustu 17 árin, sem hann greiðir. Vér leyfum oss að taka hér upp orðrétt það, sem segir í grg. frv. um þetta atriði, eins og það var upphaflega lagt fyrir:

„Samkvæmt 12. gr. laga nr. 101 1943 er hámarkseftirlaunarétti náð, þegar iðgjöld hafa verið greidd í 30 ár. Nú getur staðið svo á, að sjóðfélagi hafi lokið 30 ára iðgjaldagreiðslu nokkrum árum áður en hann öðlast rétt til að hætta störfum og fá eftirlaun. Engin réttindi fást fyrir þau iðgjöld, sem greidd eru eftir að 30 ára iðgjaldagreiðslu er lokið. Iðgjaldagreiðsla, sem engin réttindi veitir, er óréttlát, og er því lagt til, að iðgjaldagreiðslan standi aldrei lengur en 30 ár.“

Verði brtt. samþykkt, leiðir það af sér, að starfsmaður, sem kemur ungur í þjónustu ríkisins og vinnur allt ævistarf í þágu þess, kaupir eftirlaunarétt sinn miklum mun hærra verði en sá, sem byrjar á nær miðjum starfsaldri. Er vissulega ekki fráleitt að ætla, að starfsmenn fyndu hvöt til að hætta störfum í þágu ríkisins að loknum 30 ára greiðslutíma, þá á bezta starfsaldri, og gegna öðrum störfum til aldursmarks, en geyma eftirlaunarétt sinn þangað til.

Ástæðan til brtt. fjhn. getur naumast verið önnur en að auka tekjur sjóðsins, en vegna misréttis þess, sem af henni leiðir, má benda á, að sé miðað við nokkuð stöðuga launahæð um árabil, nýtur sjóðurinn vissulega miklu meiri arðs af iðgjöldum þess, sem greiðir þau ungur, svo að þau standa lengi í sjóðnum.

Um lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna gildir sama og hér hefur verið sagt, að öðru en því, að hámarkslífeyrir er þar miðaður við 25 ára greiðslutíma.

Þá var í hinu upphaflega frv. lagt til, að eftirfarandi málsgr. yrði lögfest:

„Enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða kröfurnar á nokkurn hátt, og eigi má halda lífeyrisfé eftir til greiðslu opinberra gjalda.“

Málsgr. þessi átti að vera til viðbótar svo hljóðandi grein í lögum allra sjóðanna: „Óheimílt er að framselja eða veðsetja lífeyriskröfur samkvæmt lögum þessum, og ekki má leggja á þær löghald né gera í þeim í járnám eða lögtak. Enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða kröfurnar á nokkurn hátt.“

Í tilefni af þessari brtt. leyfum vér oss að taka hér upp orðrétt þann hluta grg. frv., sem fjallar um þetta atriði:

„Orð 20. gr. l. 101 1943 eru svo viðtæk og ótvíræð, að augljóst er, að vilji löggjafans hefur verið að undanskilja kröfur um lífeyri öllum skuldheimtumönnum kröfuhafans til þess að tryggja það, að hann fái sjálfur persónulega að njóta lífeyrisfjárins. Þrátt fyrir þetta hefur það átt sér stað, að skuldheimtumenn hafa látið halda eftir af lífeyrisfé til greiðslu opinberra gjalda. Þetta er a.m.k. andstætt anda laganna, og þykir rétt að taka fyrir það með skýlausu ákvæði.“

Það er álit bandalagsins, að verði framangreindar brtt. samþykktar,“ — sem nú hefur verið gert, ef ég hef ekki misskilið, hvernig ástatt er, — „sé stigið stórt spor aftur á bak í eftirlaunamálum opinberra starfsmanna, og með þeim er brostin aðalforsenda bandalagsins fyrir því, að það, er álits þess var leitað, féllst á frumvörpin eins og þau upphaflega lágu fyrir. Er bandalagið því algerlega andvígt lagafrumvörpunum eins og þau nú eru orðin í meðferð hins háa Alþingis og telur óæskilegt, að þau verði þannig samþykkt.

Eru það því eindregin tilmæli vor til yðar, hæstv. fjármálaráðherra, að þér beitið áhrifum yðar til þess, að frumvörpunum verði breytt í sína upphaflegu mynd að því er varðar framangreind atriði eða að öðrum kosti stöðvuð.“

Þessi efni hafa verið rædd í ríkisstjórninni í morgun, og það er skoðun ríkisstjórnarinnar, að fáist þessu ekki breytt frá því, sem það hefur verið samþykkt hér í deildinni, þá muni vera rétt að gera þessi mál ekki að lögum á þessu þingi, því að við teljum, að það væri ekki góð framkoma gagnvart Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, sem hefur verið haft samband við um málið, að breyta því í þessa átt á síðasta stigi og afgreiða það þannig. Ég vildi láta hv. þd. vita af þessu nú strax, og svo er það náttúrlega á hennar valdi, hvort hún vill taka nokkurt tillit til þess, sem hér hefur verið sagt, og íhuga málið að nýju eða hvort hún vill afgreiða frá sér málin eins og þau liggja fyrir núna, en þá mundi ég gera tilraun til að fá málunum breytt í hv. Nd. í sama horf og áður var og reyna að ganga á milli deilda um, að málið gæti orðið afgreitt þannig, a.m.k. í höfuðatriðum. En ef ég sæi fram á, að það tækist ekki, þá mundi ég óska eftir því, að málið yrði ekki gert að lögum á þessu þingi.