22.04.1955
Efri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

139. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. dm. er kunnugt, ræddi hæstv. fjmrh. nokkuð þetta mál hér við síðustu umr. og las þá upp bréf frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, dags. 13. þ. m. Hann tilkynnti jafnframt deildinni, að bandalagið teldi það brot á samkomulagi, sem hefði verið gert við hæstv. ríkisstj., þegar þetta frv. var borið fram, ef það yrði gert að lögum með þeim breytingum, sem hér voru gerðar í þessari hv. deild.

Ég tók málið út af dagskrá sem forseti, vegna þess að ég taldi rétt, að hv. fjhn. yrði gefið tækifæri til þess að athuga þessi gögn og sjá, hvaða afstöðu hún mundi taka til málsins, eftir að þessar aths. hefðu komið fram og ljóst var, að hæstv. ríkisstj. samkv. yfirlýsingu hæstv. ráðh. hafði gefið loforð um, að þessi ákvæði skyldu aftur felld niður úr frv.

Þess er náttúrlega ekki að vænta, að hv. meiri hl. fjhn. þessarar d. geti fallizt á að leggja til, að fellt sé niður ákvæði, sem hann hefur áður lagt til að samþ. yrði og fært rök fyrir að ætti að vera í frv. Og þótt ekki hafi tekizt að halda fund í n., vegna þess að formaður. n. er veikur og hefur verið það í lengri tíma, hef ég haft samráð við hv. nefndarmenn svo og við hæstv. ráðh. út af þessu máli og það orðið að samkomulagi að leggja til, að frv. færi óbreytt héðan úr þessari hv. deild og kæmi þá að vísu aftur til hv. Nd., sem þá gæti tekið afstöðu til málsins, hvort hún vildi þá aftur breyta frv. og senda það til þessarar hv. deildar á ný. Er það eðlilegri meðferð málsins.

Mér hafði dottið í hug að reyna að fá samkomulag um brtt. við frv., þannig að lengdur yrði sá tími, sem greiða skyldi í sjóðinn, og þeir menn, sem greiða í meira en 30 ár, skyldu þá fá hærri hundraðshluta í eftirlaun, t.d. 1% hærra fyrir hvert ár, sem fram yfir yrði 30 ár. En það hefur ekki fengizt samkomulag meðal nm. um þetta atriði, og ég hef fengið þær upplýsingar frá stjórn sjóðsins, að þeir mundu ekki frekar sætta sig við þá lausn málsins, svo að sú brtt. mundi þá ekki leysa þann ágreining, sem hér er á milli þessara tveggja aðila. Sé ég því ekki ástæðu til að halda málinu lengur hér í þessari hv. deild.

Ég vil hins vegar leyfa mér að benda á, að ef frv. nær ekki fram að ganga á þessu þingi, þá verða þessir aðilar að sjálfsögðu að greiða eftir þeim reglum í sjóðinn, sem þeir nú ekki vilja beygja sig undir, þar sem engin lagafyrirmæli heimila að undanskilja þá greiðsluskyldu, þó að þeir hafi greitt í sjóðinn í 30 ár. Þetta vildi ég að kæmi hér fram.

Ég skal að öðru leyti ekki lengja þessa umr. Ef málið kemur hér á ný breytt frá hv. Nd., þá mun hv. fjhn. að sjálfsögðu fá tækifæri til þess að segja álit sitt um málið eins og það þá kann að verða, og ég legg því til f.h. nefndarinnar, þar sem hv. formaður hennar er sjúkur, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir óbreytt við þessa umr. svo og þau önnur frv., sem eins stendur á um.