28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

139. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem upphaflega var lagt fram hér í d., hefur nú borizt hingað aftur frá hv. Ed., en þar voru gerðar nokkrar breytingar á frv. Fjhn. þessarar d. hefur athugað þær breytingar, sem gerðar voru á frv. í hv. Ed., og getur ekki mælt með frv. eins og það kom þaðan, en flytur hér þrjár brtt. á þskj. 666.

1. brtt. er við 7. gr. Í Ed. var sú breyting gerð á þeirri gr., að fellt var niður ákvæði um það, að þegar sjóðfélagi hefði greitt iðgjöld til sjóðsins í 30 ár, skyldu iðgjaldagreiðslur hans falla niður svo og iðgjaldagreiðslur launagreiðanda hans vegna. Þetta ákvæði leggur fjhn. þessarar d. til að verði tekið inn í frv. aftur. Virðist öll sanngirni mæla með því, vegna þess að reglurnar um lífeyrisgreiðslur eru einmitt miðaðar við það, að iðgjöld séu greidd í 30 ár. Iðgjaldagreiðslur í 30 ár gefa hámarkslífeyri, og ekki þykir rétt að leggja þá kvöð á sjóðfélaga, að þeir greiði lengur gjöld til sjóðsins, þar sem þeir fá enga lífeyrishækkun fyrir það, sem þeir kunna að greiða fram yfir þetta. Það er því till. n., að þetta atriði verði fært í sama horf og upphaflega var í frv.

2. brtt. er við 19. gr. — 19. gr. frv., eins og hún upphaflega var, kvað svo á, að fósturbörn, er sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, njóti sama réttar og börnum og kjörbörnum er veittur. Hv. Ed. gerði á þessu nokkra breytingu, og þar var samþ., að málsgr. skyldi orðast þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Fósturbörn, sem sjóðfélagi hefur haft á framfæri sínu 5 ár samfleytt eða frá því þau voru á fyrsta ári, skulu njóta sama réttar og börnum og kjörbörnum er veittur hér að framan“ — þ.e.a.s. sama réttar til lífeyris, ef fósturforeldrar falla frá. Fjhn. þessarar d. telur réttara að hafa þetta ákvæði orðað á þann veg, sem upphaflega var í frv. Eins og frv. er nú komið frá Ed., þá mundi þetta verða þannig, að fósturbarn, sem tekið hefur verið í fóstur, þegar það var á fyrsta ári, mundi hljóta lífeyri, þegar fósturforeldrar falla frá, en hefði það verið komið á annað ár, þegar það var tekið í fóstur, þá mundi það ekki hljóta neinn lífeyri, ef fósturforeldrarnir falla frá, áður en 5 ár eru liðin frá því barnið var tekið í fóstur. Þetta teljum við í fjhn. ekki sanngjarnt. En eins og gr. var í frv. upphaflega, þá er það matsatriði, hvenær talið verður, að sjóðfélagi hafi framfært barn að mestu eða öllu leyti, og stjórn lífeyrissjóðsins hefur skýrt okkur frá því, að það hafi engir árekstrar orðið undanfarið út af þessu ákvæði.

3. brtt. er loks um það að setja aftur inn í frv. grein, sem felld var úr því í Ed.gr. var þannig:

„Enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða kröfurnar á nokkurn hátt, og eigi má halda lífeyrisfé eftir til greiðslu opinberra gjalda.“

Það er lögð á það nokkur áherzla af stjórn lífeyrissjóðsins, sem samdi þetta frv., að þetta verði þannig í frv., þegar það verður afgr. frá þinginu, og meiri hluti fjhn. hefur talið rétt að setja þessa grein inn í frv. aftur. En einn nm., hv. þm. A-Húnv. (JPálm), taldi þó ekki ástæðu til þess, og gerir hann ef til vill grein fyrir áliti sínu á því máli, ef honum þykir ástæða til.

Ég skal geta þess, að um þessi atriði öll hefur fjhn. haft samráð við stjórn lífeyrissjóðsins, sem samdi frv., og sömuleiðis við formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem er samþykkur þessum brtt., en bandalagið hafði sent bréf hingað til Alþ. viðkomandi þeim breytingum, sem gerðar voru á frv. í hv. Ed., og er þar mælt gegn því, að frv. verði afgr. í þeirri mynd.

Næstu tvö málin á dagskrá þessa fundar eru einnig um lífeyrissjóði, þ.e.a.s. um lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna og lífeyrissjóð barnakennara og ekkna þeirra, og ég vil leyfa mér að láta þess getið í umr. um þetta mál, að þær brtt., sem fjhn. flytur við þau frv., eru efnislega alveg um sömu atriði og hér eru brtt. um, og sé ég því ekki ástæðu til, þegar þau mál verða tekin fyrir, að gera sérstaklega grein fyrir þeim brtt., sem þar eru fluttar af fjhn.