29.10.1954
Neðri deild: 10. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

71. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það er hér á þskj. 93 borið fram stjórnarfrv., sem er frv. til l. um breyt. á l. nr. 20 frá 31. jan. 1952, um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, en þau lög eru að stofni til frá 1947. Þá voru samþ. hér á hinu háa Alþingi lög um þetta efni, sem nokkrar breytingar voru gerðar á aftur 1952, og þetta frv. hér er um breytingar við það. Þessar breytingar eru í raun og veru ósköp einfaldar, og þarf því ekki langa framsögu til þess að skýra þær, en ég vil þó leyfa mér að fara örfáum orðum um þetta mál hér við 1. umr. málsins í hv. deild.

Hér er um tvær breytingar að ræða, og er önnur við 4. gr. laganna, þar sem svo er ákveðið, að næstu 10 ár skuli ríkissjóður greiða til þeirra framkvæmda, sem þar er um rætt, en það eru nýbýlamál, undirbúningur nýbýlahverfa og styrkur til einstakra nýbýla, minnst 2.5 millj. kr. á ári í þessu skyni. Nú er mjög farið að líða á þennan 10 ára tíma, eins og kunnugt er. Að vísu verða samkv. núgildandi lögum greidd framlög árið 1955 og 1956, en þá er því lokið. Og þótt segja megi, að það hefði kannske mátt bíða eitt ár að framlengja þessi ákvæði, þannig að ekki stöðvuðust framkvæmdir, þá lítur ríkisstj. svo á, að það sé að öllu leyti heppilegt og sjálfsagt, að þeir, sem ávaxta þetta fé og ráða yfir því, viti, að áfram verði haldið á sömu braut um framkvæmdir eins og þarna er gert ráð fyrir. Þótti ríkisstj. því sjálfsagt, að nú yrðu framlengd um önnur 10 ár sömu framlög. Þess vegna er þetta frv. fram borið.

Ég ætla að leyfa mér að gefa örfáar upplýsingar um framkvæmdir varðandi landnám og nýbýli, eins og það nú liggur fyrir, til þess að hv. þdm. geti gert sér því ljósari grein fyrir, að hér er um hið mesta nauðsynjamál að ræða, sem ekki kemur til mála að stöðvað verði.

Fyrst má geta þess, að af því fé, sem landnámið hefur nú fengið til umráða, sem eru átta ára framlög, samkv. lögunum frá 1947, þá er til að vísu enn kringum 31/2 millj. kr. í reiðu fé. Fyrstu árin, sem samkv. þessum lögum var starfað; safnaðist nokkurt fé saman, — var ekki unnið fyrir það allt, — en nú hin síðustu árin hefur aftur verið unnið meira en fyrir árlegt framlag, og hefur því mjög gengið á þann sjóð, sem einu sinni var til, og með þeim framkvæmdum, sem nú er unnið að varðandi landnámið, bæði einstök nýbýli og eins nýbýlahverfi, þá er auðséð, að sá sjóður, sem nú er til, ézt algerlega upp, þó að sama framlag verði lagt fram hin allra næstu árin, og er þetta í raun og veru nægilegur rökstuðningur fyrir því, að sjálfsagt sé að halda áfram á þessu sviði. Það hefur gengið nægilega erfiðlega að fá fólk til þess að halda áfram starfi í sveitum, og víða hafa mörg byggðarlög goldið mikið afhroð vegna fólksflutninga burt. Þó má í þessu sambandi geta þess, að á þessum árum, þó að við tökum ekki nýbýlalöggjöfina nema frá 1947, hafa verið reist í kringum 80 nýbýli á ári að meðaltali síðustu árin. Eitthvað var það minna fyrstu árin. En þetta sýnir, að þarna er um verulega miklar framkvæmdir að ræða. Ef þetta hefði ekki verið gert, þá hefði að sjálfsögðu hlutfallslega miklu fleira fólk farið úr sveitunum, því að fólk það, sem á nýbýlunum situr, mætir vitanlega brottflutningi, hvort sem er í sömu héruðum og nýbýlin eru reist eða þá annars staðar.

Ég vil líka geta þess, að þessi ár hefur verið unnið að undirbúningi að stofnun nýbýlahverfa, sem svo eru kölluð, þ.e.a.s. þar sem skipulega er unnið að framkvæmdum af hálfu nýbýlastjórnar og landnámsstjóra og þar sem síðar á svo að reisa nýbýli í skipulegu hverfi og þangað séu þá lagðar skólpleiðslur, vegir og vitanlega sími og raforka sem allra fyrst í hverfin. Nú er búið að stofnsetja 10 slík hverfi víðs vegar um landið, og þó í raun og veru búið að tryggja sér land undir hið 11. Framkvæmdum er mjög misjafnlega langt komið á þessum stöðum. Í nokkrum hverfanna er farið að reisa býli á því landi, sem undirbúið er. Í öðrum er enn unnið einungis að framræslu, vegalagningu og öðrum slíkum framkvæmdum. En í þessum 10 nýbýlahverfum munu sennilega verða upp undir 80 býli, þegar búið er að fullgera þau og koma þeim á stofn.

Það er nú ljóst, að það þarf miklu meira fé til þessara framkvæmda í nýbýlahverfum heldur en að koma fótum undir menn með einstöku nýbýlum, þar sem oft er þá að einhverju leyti stuðzt við eldri jarðir, svo sem t.d. þar sem tveir bræður skipta jörð sinni, annar býr á gömlu jörðinni og hinn tekur nýbýli í landi hennar og nýtur þá að einhverju leyti jarðarnytja og aðstoðar meðan hann er að reisa býlið. Þetta er auðsjáanlegt, og hefur alltaf verið vitað, að þetta er að vissu leyti ódýrasta leið til þess að reisa nýbýli. En fullur vilji er og hefur verið fyrir því að reyna hina leiðina til fullnustu, þ.e. að stofna til skipulegra hverfa, þar sem nokkur nýbýll væru reist eftir ákveðnu, föstu skipulagi.

Það er að vísu enn of snemmt að dæma af þeirri reynslu, sem þar er fengin, því að fyrstu býlin eru nú nýlega fullgerð í þessum hverfum; nokkur býli komin, eins og t.d. í nýbýlahverfinu í Ölfusinu, sem er elzta nýbýlahverfið. En viðar eru nýbýli nú að rísa, svo sem í Hornafirði, norður í Skagafirði, Húnavatnssýslu og víðar, en þetta er enn í svo smáum stíl, að það má segja, að það sé ekki fengin full reynsla fyrir þessu. En ég hygg, að Alþingi sé, eins og það var fyrir átta árum og hefur verið síðan, sammála um að halda þessu áfram og reyna þessa nýjung í landbúnaði okkar til fullnustu. Landnámsstjórnin eða nýbýlastjórnin, eins og hún heitir raunar, er einhuga um, að sjálfsagt sé að halda þannig áfram. Það orkar því ekki tvímælis, að það verður að veita a.m.k. sama fé til þessara framkvæmda næstu árin eins og gert hefur verið, og á þessum grundvelli er það, sem þessi breyting er hér fram flutt, að það sé vitað með nokkurn veginn hæfilegum fyrirvara, að ekki verði kippt fyrir það fjármagn, sem til þessa hefur verið ætlað að undanförnu.

Í þeim upplýsingum, sem ég fékk frá landnámsstjóra, sést, að á árabilinu frá 1947–53 hefur verið samþ. stofnun 460 einstaklingsnýbýla, en eins og gefur að skilja eru allinörg af þeim, eða í kringum 160, enn þá á því stigi, að það er verið að vinna að þeim, fólk að vísu flutt á mörg þeirra, en önnur ekki einu sinni komin það langt, að fólk sé komið þangað. En þetta ber það með sér, hve sterkur þáttur í því að halda fólki í sveitum landsins þessi löggjöf er og hve nauðsynlegt það er að gera slíkt. Þarna er að ræða um allt að því 500 býli á þessum árum, og ef við reiknuðum með, að fimm menn væru til jafnaðar á hverju býli, þá er þarna um 2500 manns að ræða, sem á þennan hátt hefur fest rætur í sveitum, en búast hefði mátt við að öðru leyti, að a.m.k. margt af því hefði horfið þaðan burt og til annarra starfa.

Ég held nú, að ég láti þetta nægja sem rökstuðning fyrir því, að framlengt verði þetta 21/2 millj. kr. framlag til landnámsins í önnur 10 ár frá því að tímabilið rennur út 1956.

Þá kem ég að síðari breyt., sem er við 13. gr. sömu laga og fjallar um framlag til byggingarsjóðs. En byggingarsjóður er, eins og allir hv. þm. vita, sjóður, sem veitir lán ettir föstum reglum til byggingar íbúðarhúsa í sveitum, og hefur sá sjóður nú starfað um aldarfjórðungsskeið eða í 25 ár. Að sjálfsögðu hafa verið gerðar ýmsar breytingar, frá því að slíkt frv. varð fyrst að lögum hér, en meginhugsunin er þó algerlega óbreytt, og hún er sú að veita ódýr lán til endurbygginga á íbúðum í sveitum, og hefur þessi sjóður gert alveg ómetanlegt gagn fyrir uppbyggingu sveitanna. Ef til vill eru húsakynnin eitt af því, sem útlendingar athuga fyrst og fremst, þegar þeir koma hingað og fara út um sveitir, en hafa álitið, að hér væri að mestu leyti búið í lélegum torfkofum, sem menningarþjóðum væru algerlega ósamboðnir, en hafa svo rekið sig á það, að í mörgum sveitum má nú segja að slíkir bústaðir sjáist varla, heldur mjög myndarlegar íbúðarhúsabyggingar, svo að við þurfum engan kinnroða fyrir því að bera að sýna mönnum, sem koma frá öðrum menningarríkjum, byggingar hér á landi og bera saman við þau híbýli, sem þar tíðkast.

Nú er hér farið nákvæmlega fram á sömu breytingu á lögunum um byggingarsjóð og um lagaákvæðin um framlag til landnáms og nýbyggða. Í upphafi, þegar lög þessi voru sett, var gert ráð fyrir, að 21/2 millj. kr. yrðu næstu 10 ár árlega lagðar til byggingarsjóðs. Í frv. þessu er gert ráð fyrir að framlengja þetta um næstu 10 ár, nákvæmlega á sama hátt og með framlagið til landnámsins. Byggingarsjóður hefur alltaf veitt lán með mjög vægum vaxtakjörum, og sérstaklega eru það nú, þegar athuguð eru önnur vaxtakjör, geysilega vaxtalág lán, það eru 2%, eins og við vitum. Hins vegar hefur lánsupphæðin verið mjög takmörkuð, hún er aðeins 60 þús. á hvert býli, og eins og nú er með byggingarkostnað, þá vita allir, að þetta er ekki nema nokkur hluti og tiltölulega lítill hluti af því, sem sæmilegt íbúðarhús í sveit kostar, sem aldrei getur kostað minna, ef allt væri reiknað, þó að ekki sé stórt, en milli 200 og 300 þús. kr., þannig að segja má, að þessi lán, sem fást samkvæmt þessum kjörum, séu afskaplega lág og þyrftu vitanlega að hækka, en þessir lágu vextir hjá]pa þarna mikið; því er ekki að neita. En það er eins með þetta og hitt atriðið, að ríkisstj. lítur svo á, að sjálfsagt sé að framlengja þessi ákvæði nú strax, þannig að vitað sé, að byggingarsjóðurinn í Búnaðarbankanum haldi þessari sömu fjárveitingu eftir 1956 eins og verið hefur s.l. 8 ár.

Byggingarsjóðurinn verður að sjálfsögðu að miklu leyti að fá fé að láni til útlána. Það er í kringum 17 millj. kr., sem byggingarsjóðurinn skuldar nú, — það er náttúrlega ekki mjög stór upphæð, ég skal viðurkenna það. En þessi lán eru sum með mjög háum vöxtum, allt upp í 7%, og verður því að sjálfsögðu vaxtamismunurinn mjög mikil upphæð. Árlegir vextir af þeirri fjárhæð, sem Búnaðarbankinn nú skuldar vegna byggingarsjóðsins, eru eitthvað rúm 1/2 millj. kr. Sjóðurinn á í útlánum aftur í kringum 50 milljónir. Og vaxtatekjur af því eru þá, þar sem vextirnir eru 2%, í kringum 1 milljón, en svo verður bankinn að standa straum af teiknistofu landbúnaðarins, sem gerir uppdrætti að húsum, veitir leiðbeiningar, og er sá kostnaður nú mjög farinn að nálgast 1 millj. kr. Og enginn vafi er á því, að bankinn verður á næstu árum að taka mjög verulega mikil lán til starfsemi sinnar til þess að geta fullnægt því, sem óskað er eftir og þörf er á að veita á þennan hátt. Bankastjórinn telur, að það verði að taka kringum 10 millj. kr. lán árlega næstu ár, og hefur þar reiknað með 61/2% ársvöxtum, en þar sem útlánsvextirnir eru aðeins 2%, þá verður vaxtamismunurinn geysilega mikill, eða í kringum 450 þús. á ári, ef reiknað er með 10 milljónum. Þessi lán eru löng, eins og við vitum, til 42 ára, þannig að lánin koma mjög seint inn, en þetta er hins vegar feikilegt hagræði fyrir lántakendur. En það eru þessi tiltölulega mjög góðu kjör, sem hafa gert það að verkum, hve sveitirnar hafa byggzt ört upp á undanförnum árum, þó að hver bóndi sem byggir hús yfir sig hafi ekki fengið hærri upphæð en hér er um að ræða, 60 þús. kr. nú upp á síðkastið og miklu lægri upphæð náttúrlega áður fyrr.

Þetta eru þær breytingar á þessari löggjöf, sem ríkisstj. leggur nú til að gerðar verði, og eru þær gerðar nú, eins og ég tók fram áðan, til þess að tryggja það, að þær stofnanir, sem með þetta fara, viti, að ekki verði um neina brotalöm að ræða, þegar árið 1956 kemur. Ég vil taka það fram, að þó að hér sé aðeins farið fram á að framlengja þau ákvæði, sem nú eru í lögum, sem er bráðnauðsynlegt að gera, þá geri ég ráð fyrir því, að framvinda hlutanna sýni, að það verði að hækka þessi framlög og það allverulega. En ríkisstj. hefur talið rétt að bera ekki fram till. um það að þessu sinni, m.a. vegna þess, að það er ekki alveg bráð nauðsyn vegna starfsemi þessara deilda, hvorrar sem er, hvort sem það er landnámið eða byggingarsjóðurinn, að gera það. Þeir geta vonandi starfað nokkurn veginn áfram, a.m.k. næsta ár. En ég er ekki í neinum vafa um, að það mun sýna sig, að það þarf að hækka þessi framlög allverulega, til þess að segja megi, að þessi mál verði í viðunandi horfi og komi að fullu gagni fyrir það fólk, sem á að njóta þessara lánsstofnana. Þetta vildi ég nú leyfa mér að taka fram, og veit ég, að þetta er ekki eingöngu skoðun mín, heldur flestra hv. þingmanna, að þessi nauðsyn muni verða fyrir hendi mjög fljótlega. En þetta frv. fjallar ekki um önnur atriði en þau, sem ég hef hér nefnt, og sé ég ekki ástæðu til að lengja þessa framsögu, en leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.