08.11.1954
Neðri deild: 14. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

71. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Landbn. hefur haft þetta frv. til athugunar og mælir með því, að það verði samþykkt eins og það liggur fyrir. Ég vil fyrir n. hönd þakka hæstv. stjórn fyrir að hafa lagt þetta frv. fram, og sömuleiðis vil ég sem formaður nýbýlastjórnar flytja þakkir fyrir, að þessi framlenging er ákveðin.

Fyrri gr. frv. fjallar um að framlengja um 10 ára skeið það ákvæði í þessum lögum um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, að fé skuli lagt til undirbúnings nýbýla og styrkja til stofnunar nýbýla. Sannleikurinn er sá, að á þessu er mikil þörf, enda held ég, að það geri allir ráð fyrir því, að það sé haldið áfram með þá starfsemi, sem hafin hefur verið á þessu sviði. Verði ekki teknar upp neinar stórar breytingar frá því, sem verið hefur í þessu efni, þá ætti þetta framlag að vera nokkurn veginn nægilegt.

2. gr. frv. fjallar um það að framlengja um sama tíma, 10 ára skeið, framlag til byggingarsjóðs, sem eru 21/2 millj. kr. á ári. Um byggingarsjóðinn er það að segja, að hann hefur ákaflega mikið og viðtækt verkefni, því að eftir því sem meira er byggt í sveitum landsins, þá þarf hann að leggja fram meiri lán og ekki einasta á hinum eldri býlum, heldur og til nýbýlanna. Byggingarsjóður, sem er gömul stofnun, var á tímabili mjög takmarkaður í lánveitingum, þannig að þá var ekki veitt nema 6 þús. kr. til einstakra bygginga, lengi nokkuð. Svo var það fært upp í 9 þús. kr., en þegar þessi lög voru sett árið 1946, var þessu gerbreytt og gert miklu rýmra um lánveitingar á þessu sviði, og þá var hámarkið til einstakra bygginga fært upp í 45 þús. kr. Sú ákvörðun stóð til 1951. Þá var þetta hámark hækkað upp í 60 þús. kr. Nú er það svo, að frá því 1946 mun láta nærri að byggingarkostnaður hafi þrefaldazt eða a.m.k. allt að því, svo að sú upphæð, sem nú er lögð fram í þessu skyni, er miklu lægri hlutfallslega en var 1946 og þá á næstu árum.

Sannleikurinn er því sá, að þó að þetta sé framlengt, eins og hér er lagt til, þá fer því fjarri, eftir því sem horfur benda til, að það sé fullnægjandi, en landbn. hefur samt ekki séð sér fært á þessu stigi að leggja til, að þessi upphæð væri hækkuð, enda þótt einstakir nm. og jafnvel n. öll hefði haft tilhneigingu til að hækka þetta framlag. — Ég skal ekki um þetta fara fleiri orðum, en vænti þess, að hv. þd. samþ. frv. eins og það er.