18.03.1955
Neðri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

167. mál, fasteignamat

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir og er 167. mál, er stjórnarfrv. og felur það í sér í stuttu máli að láta fara fram samræmingu á fasteignamati frá 1943 og að sú samræming verði látin fram fara á þessu ári. Það, sem sérstaklega er fært fram til meðmæla með því, að þetta sé nauðsynlegt, er það, að fasteignamatið er nú orðið 12 ára gamalt og er í rauninni byggt á verðgrundvellí, sem er a.m.k. 15 ára gamall, og á því tímabili hafa gerzt mjög miklar breytingar á hlutföllum milli hinna ýmsu byggðarlaga. Samkvæmt gildandi lögum á ekki að fara fram nýtt fasteignamat fyrr en árið Í965. En það, sem einkum rekur á eftir því, að það séu gerðar ráðstafanir til samræmingar á matinu, er það, að upplýst er, að það er ekki nema á sumum stöðum á landinu, sem fram hefur faríð millimat á húseignum samkvæmt því, sem lögin áskilja. Þar að auki eru ekki teknar inn í matið ræktunarframkvæmdir og margar aðrar meiri háttar umbætur, sem gerðar hafa verið.

Í þessu frv. er farið inn á þá leið að gera framkvæmd þessa máls svo einfalda og ódýra sem framast er kostur með því að nota skattayfirvöldin til þess að gefa skýrslur og gera tillögur til landsnefndarinnar um þær breytingar, sem skattanefndir og yfirskattanefndir og skattstofur telja nauðsynlegar á hverjum stað.

Í öðru lagi má telja það til kosta, að frv. setur í 6. gr. fast hámark fyrir því, að enga fasteign megi hækka meira, eftir að samræming hefur farið fram, heldur en fimmfalda hið gamla fasteignamat.

Í þriðja lagi er það mikið meginatriði í þessu frv., að samkv. 9. gr. er ákveðið, að um leið og hið samræmda fasteignamat gengur í gildi, skuli breyta ákvæðum laga um eignarskatt og fasteignaskatt og önnur prósentugjöld, sem lögð eru á fasteignir, þannig að þessir skattar hækki ekki almennt frá því, sem nú er, við þessa hækkun fasteignamatsins.

Fjhn. hefur athugað þetta frv. og orðið ásátt um að mæla með því, að það verði samþ. með þeirri einni breytingu, að inn í 9. gr. sé tekið fast ákvæði um það, að lögin frá 4. febr. 1952 séu felld úr gildi, um leið og hið nýja fasteignamat verður lögfest. Þau lög eru heimildarlög til sveitar- og bæjarstjórna um að mega allt að því fjórfalda fasteignaskatt og önnur gjöld, sem á fasteignum hvíla, og sum bæjar- og sveitarfélög hafa notað sér þessa heimild. En ef það er ekki beinlínis fastákveðið í frv., að þessi lög séu felld úr gildi, þá gæti orðið nokkur árekstur þarna á milli, enda þótt ákvæði 9. gr. stæðu eins og þau eru í frv.

Ég sé ekki fyrir n. hönd ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál, en n. er sammála um að mæla með framgangi þess með þessari einu breytingu.