15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

167. mál, fasteignamat

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Fjhn. hefur nú tekið til athugunar, frá því að 2. umr. fór fram, þær brtt. og aths., sem fram hafa komið við þetta frv. Hún flytur á þskj. 491 brtt. um viðbót við 9. gr. frv., og er það í samræmi við aths., sem fram komu við 2. umr. frá hæstv. forseta Sþ. Brtt. er flutt í samráði við hann, og má gera ráð fyrir, að menn geti orðið sammála um að samþ. þá brtt.

Þá er á þskj. 510 flutt brtt. af hv. 2. þm. Skagf. (JS), sem nú er farinn heim, og hefur fjhn. fallizt á að mæla með þeirri brtt. með breytingu, sem hún flytur sérstaka till. um á þskj. 572 og flm. brtt. (JS) hafði fallizt á, áður en hann fór.

Þá er enn fremur að minnast aðeins á þær brtt., sem hv. þm. Borgf. (PO) flytur á þskj. 508 og hann hefur mælt fyrir. Fjhn. leggur á móti þessum till. öllum og það af þeim sökum, að þetta er gerbreyting á frv. og miðar í raun og veru að því að gera nýtt fasteignamat, og hefði þá legið miklu nær fyrir hv. þm. að flytja brtt. við lögin á þá leið, að nú skyldi fara fram nýtt fasteignamat eftir venjulegum reglum, og allar hans röksemdir, sem hann var hér að tala um, hnigu í þá átt. Virðist það vera hans skoðun, að það eigi að fara fram nýtt fasteignamat, og með því móti yrði það náttúrlega eins og venjulega. Þá yrði nefnd í hverju héraði, sem skoðaði hverja jörð o. s. frv. Það mat hlyti að standa yfir í nokkur ár, eins og undanfarið hefur gerst, og taka þyrfti þá tillit til allra breytinga og álits, sem til greina kemur í því sambandi. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, er alls ekki um nýtt fasteignamat. Það er aðeins um það að fá samræmingu á hinu gamla fasteignamati, miðað við þær breytingar, sem orðið hafa, og aðallega taka inn í fasteignamatið þær umbætur, sem gerðar hafa verið á fasteignunum, og þær nýbyggingar og annað slíkt, sem framkvæmt hefur verið á undanförnum árum.

Það er náttúrlega alls ekki rétt, sem hv. þm. Borgf. (PO) var að tala um, að það nyti sín ekki persónulegur kunnugleiki í þessu sambandi, vegna þess að það er gert ráð fyrir því, að það séu skattanefndirnar, bæði yfirskattanefndir og undirskattanefndir, um land allt, sem annast skýrslusöfnun og athugun í þessu sambandi, og það eru engir menn í landinu kunnugri þessum hlutum en einmitt skattanefndirnar, sem eru að fjalla um þessi mál á hverju ári. En þeirra starf og þetta starf í heild sinni er miklu meira skýrslusöfnun og skrifstofuvinna heldur en að það sé nýtt fasteignamat.

Það, að einstaklingar hafi tækifæri til þess að kæra eða koma fram breytingum, er náttúrlega sjálfsagt, þegar nýtt fasteignamat fer fram, eins og ævinlega hefur verið. En hér er ekki um það að ræða, heldur að taka inn í matið þær umbætur, sem gerðar hafa verið, og svo hitt, sem ákveðið er í 6. gr. þessa frv., að það er heimilað að skipta fasteignunum í flokka með tilliti til hækkunar eftir þeirri breyttu aðstöðu, sem orðið hefur í einstökum héruðum, og þar er valdsvið landsnefndarinnar aðallega.

Ég sé svo ekki fyrir hönd fjhn. ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en vænti, að hv. þm. geri sér grein fyrir því, hver hennar afstaða er.