15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

167. mál, fasteignamat

Pétur Ottesen:

Það eru aðeins fáein orð, sem ég vildi segja út af ræðu hv. frsm., þm. Á-Húnv. (JPálm).

Hann segir, að hér sé ekki um venjulegt fasteignamat að ræða. Hér á í því mati, sem fram fer, ekki einasta að meta þær nýju umbætur, sem gerðar hafa verið á jörðunum, þ.e.a.s. ræktunarumbætur, — húsabætur munu flestar vera komnar til skila í sambandi við þau millimöt, sem fram hafa farið, — heldur á hér einnig að meta jarðirnar að nýju með tilliti til breyttra aðstæðna, sem orðið hafa úti um byggðir landsins, alveg eins og gert er þegar venjulegt fasteignamat fer fram. En munurinn er bara sá, að þetta mat eða flokkun, eins og stendur í 6. gr., miðast í stórum dráttum við þá breytingu, sem orðið hefur síðan aðalmat fór fram á verðgildi fasteigna, eftir því hvar þær eru. Það var eins og mætti skilja orð hv. frsm. þannig, að þetta væri ekkert annað, sem hér ætti að gera, en að bæta inn í fasteignamatið þeim umbótum, sem orðið hafa á jörðunum síðan fasteignamatið fór fram og að sjálfsögðu hafa áhrif á verðgildi þeirra. Það er ekki einasta þetta, heldur á nú í þessu tilfelli, eins og alltaf endranær, þegar fasteignamat hefur farið fram, að miða þetta nýja mat við breyttar aðstæður, sem ég var að lýsa hér áðan og eru ákaflega margvíslegar. En mönnum hlýtur að vera það ákaflega vel ljóst, að það er ærið mikill munur á því, að þetta sé gert heima í héraðinu af nákunnugum mönnum þar eða eftir upplýsingum, sem þessari landsnefnd hér í Reykjavík berast frá þeim aðilum, sem talið er í 4. gr. að eigi að gefa þessar upplýsingar. Þar er sá stóri munur á, að að undanförnu hefur grundvöllurinn verið lagður heima í héruðunum í einu og öllu af mönnum, sem til þess eru valdir þar og þar eru búsettir. Þeir bera ábyrgð á því starfi, sem þeir eru að framkvæma, og eiga að standa við það. En í þessu tilfellí eru þeir, sem upplýsingar eiga að gefa, algerlega ábyrgðarlausir; þeir leggja gögn upp í hendur landsnefndarinnar í því formi sem hún kýs, því að það er hún, sem á að kveða á um það, hvað það er, sem þeir eiga að svara, og hvaða upplýsingar þeir eiga að veita. Á þessu er vitanlega ákaflega mikill munur.

Að því leyti sem það mat, sem fyrir er á jörðunum, á að létta undir samkv. þessu frv., þá getur það náttúrlega alveg eins komið að liði með því, að matið fari fram heima fyrir af mönnum þar. Þess vegna eru engar líkur til þess nú, að þetta þyrfti að taka 2 eða 3 ár. Það hefur stundum gert það áður. En það var nú allt annað þegar byrjað var fasteignamatið 1916 og ekkert lá fyrir í þessu efni, þó að það tæki langan tíma þá, ellegar nú, eftir að búið er að framkvæma fasteignamat tíunda hvert ár. Það er ólíku meira á að byggja í þessu efni á ýmsan hátt, sem að sjálfsögðu léttir þetta starf. Þess vegna tel ég ekki neinar líkur fyrir því, að það þyrfti að taka neitt lengri tíma, þó að farið yrði að mínum till. um að koma matinu áleiðis, heldur en það muni gera samkvæmt þessu, og ég hef ekki heldur trú á því, að það mundi verða fjárhagslega meiri kostnaður með þeirri framkvæmd, sem ég legg hér til, heldur en hann geti orðið samkvæmt ákvæðum þessa frv.

Það er þess vegna allt, sem að mínu viti mælir með því, að nú séu viðhafðar sams konar varúðar- og öryggisástæður fyrir réttu mati og verið hefur að undanförnu. Að þessu frv. stendur óskipt nefnd í þinginn, og það er venjulega sigursælt, þegar svo ber að. En það er ég ekki í neinum vafa um, að menn eiga eftir að sjá það, að miklar óánægjuraddir eiga eftir að berast Alþ. og öðrum aðilum utan úr landsbyggðinni yfir mistökum að því er snertir samræmingu eignanna. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um, að þannig verður það, ef gengið er þannig frá málinu sem gert er í þessu frv., en mundi vera fyrirbyggt með mínum till. Það er alkunna, að þær raddir hafa verið tiltölulega litlar og fáar, sem látið hafa í ljós óánægju yfir fasteignamatinu, eins og frá því hefur verið gengið að undanförnu. En aðstaðan til þess að koma á góðu samræmi í þessu efni og ganga vel frá þessu öllu saman hefur vitanlega farið batnandi eftir því, sem matið hefur verið framkvæmt oftar.