28.04.1955
Efri deild: 75. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

167. mál, fasteignamat

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Fjhn. mælir með samþykkt þessa frv., en leggur þó til, að 7. gr. þess verði breytt. Einn maður úr n., hv. 4. þm. Reykv. (HG), gat ekki verið við umræður um málið í n., og ég veit ekki um afstöðu hans til málsins.

Enginn ágreiningur getur orðið manna á milli um það, að gildandi fasteignamat er orðið úr sér gengið. Að matinu var unnið á árunum 1938 –42, og síðan hefur verðgildi fasteigna gerbreytzt vegna verðlagsbreytinga í landinu. En auk þess hafa breytingar á fasteignum orðið svo stórfelldar á þessu tímabili, að aldrei hefur slíkt gerzt áður. Kot hafa orðið stórbýli á þessum tíma. Eldri hús í kaupstöðum, kauptúnum og þorpum hafa ýmis verið stækkuð og endurbætt og gerð sem nýtízku hús. Opinberar framkvæmdir, svo sem hafnargerðir og vegagerðir, hafa aukið verðmæti fasteigna á ýmsum stöðum. Hið gagnstæða hefur einnig gerzt. Á einstöku stöðum hafa jarðir farið í eyði, jafnvel byggðarlög. Og einstakar húseignir á sumum stöðum hafa grotnað niður. Aukamöt, sem átt hafa að fara fram og farið hafa fram, hafa alls ekki náð til að viðhalda samræminu að því er þetta snertir, enda ná þau alls ekki til sumra fasteigna, t.d. ná þau ekki til jarðræktarframkvæmda. Í fáum orðum sagt, gildandi fasteignamat er alls ekki lengur sá grundvöllur til þess að byggja á, sem því er ætlað að vera.

Enn þá eru 10 ár, þangað til aðalmat á fram að fara samkvæmt lögum. Nú er gripið til þess með frv. þessu að leggja til, að fasteignamatið verði samræmt á þessu ári. Og til þess að gera sem auðunnast og ódýrast samræmingarmatið eru önnur vinnubrögð hugsuð og aðrir til mats kvaddir en þegar um aðalmat á að vera að ræða. Fjhn. gerir ekki við þetta athugasemdir að öðru leyti en því, að hún telur, að skylt sé að gefa fasteignaeigendum kost á að bera fram athugasemdir og kærur við samræmingarmatið. Þetta er líka eitt af grundvallaratriðum gildandi laga um fasteignamat frá 1945, og því má ekki raska, enda væri óþolandi réttleysi fyrir þá, sem eignirnar eiga, sem metnar eru, ef þeir fengju ekki að gera sínar athugasemdir. N. ber vegna þess arna fram brtt. við 7. gr. og leggur til, að hún verði orðuð þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar landsnefndin hefur endurskoðað fasteignamatið samkvæmt 6. gr., skal n. senda skattanefndum til umsagnar afrit af fasteignamatinu í hlutaðeigandi sveitarfélagi, eins og hún hefur gengið frá því, ásamt þeim reglum, er n. hefur fylgt í störfum sínum. Skattanefndir skulu, hver í sínu sveitarfélagi, láta samrit af afriti fasteignamatsins liggja frammi í 3 vikur fasteignaeigendum til sýnis. Ef kæra berst skattanefnd út af matinu innan þess tíma, skal skattanefndin senda landsnefndinni hana ásamt umsögn frá sér, og leggur landsnefndin úrskurð á málið.

Landsnefndin skal einnig senda yfirskattanefndum afrit af fasteignamatinu í umdæmi þeirra.

Landsnefndin setur undir- og yfirskattanefndum frest um það, hvenær þær skuli hafa skilað svörum til hennar.

Að fengnum athugasemdum og till. skattanefndanna skal landsnefndin taka fasteignamatið til endanlegrar afgreiðslu.“

Ef greinin verður samþykkt eins og fjhn. leggur til, þá hafa verið upp í gr. tekin ákvæði um, að fasteignamatið skuli vera til sýnis, kærur megi leggja fram, og enn fremur ákveðið um það, hvernig málsmeðferð að öðru leyti skuli haga í því sambandi. Greinin er að öðru leyti umorðuð í samræmi við þessi meginatriði. Í frv. er tryggt, að hækkun á fasteignamatinu megi ekki nema neins staðar meiru auk samræmingar en 400%, eða fimmföldun. Er með því mjög í hóf stillt, eftir því sem verðlag er nú í landinu. Enn fremur er tryggt, að skattar eða álögur á fasteignir hækki ekki sérstaklega vegna matsins, hvorki til ríkis né sveitarfélaga. Þetta verður að telja eðlilegt ákvæði. — Að öllu þessu athuguðu leggur fjhn. til, að frv. verði samþykkt, en leggur áherzlu á það, að till. hennar um breytingu á 7. gr. verði samþykkt.