15.04.1955
Neðri deild: 72. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

188. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það er orðin föst venja hér, að þegar hæstv. ríkisstj. leggur fram sín verstu mál af mörgum vondum á þinginu, þá hefur hún að jafnaði fæst orð um þau, bæði í frv. og í framsögu. Svo er t.d. með mál það, sem hér er til umræðu, um framlengingu á skatteftirgjöfum helztu gróðafélaga landsins.

Af þessu máli, sem hér liggur fyrir, svo og því máli, sem hér var til umræðu næst á undan, um skattfríðindi Eimskipafélagsins, má glögglega sjá, hvaða öfl það eru í þessu landi, sem standa á bak við hæstv. ríkisstjórn. Þegar um það er að ræða, að alþýða landsins sé neydd til að fara út í baráttu fyrir bættum kjörum, og þegar um það er að ræða, hvort þjóðfélagið á að búa við það ástand, að framleiðslan stöðvist um langan tíma og milljónir af þjóðartekjum fari í súginn, þá stendur hæstv. ríkisstj. eins og múr fyrir öllum áhrifum og lætur engan bilbug á sér finna. Þá hefur hún enga forgöngu um að reyna að leysa þau mál, hvað svo sem á dynur. En á sama tíma leggur hún fram á einum og sama degi á Alþingi tvö frv. um eftirgjöf á sköttum helztu auðfélaga landsins.

Hæstv. fjmrh. lét þess getið hér í þeim fáu orðum, sem hann flutti sem framsögu fyrir þessu máli, að ríkissjóð munaði ekki mikið um þær tekjur, sem hann yrði af við samþykkt þessa frv. Það má vel vera satt, að ríkissjóð muni ekki um milljónirnar núna, eins og veitan er í ríkiskassanum, en hann munar um milljónirnar, ef þær eiga að renna til alþýðustétta landsins. Þá þurfa það ekki að vera margar milljónir, sem hægt er að setja á pappírinn, svo að hæstv. ráðherrar komi hér upp og segi: Þetta er ekki hægt að samþykkja. Þetta þýðir svona og svona margar milljónir í útgjöld fyrir ríkissjóð. — En þegar auðfélögin eiga í hlut, þá munar það engu. Frv. það, sem hér um ræðir, er þó um að gefa helztu gróðafélögum landsins eftir 20% af tekjuskatti, tekjuskattsviðauka og stríðsgróðaskatti, eins og þessir skattar hefðu orðið, ef þeir hefðu verið lagðir á eftir þeim lögum, sem giltu um mörg ár í þessu landi og til ársins í fyrra.

Það er að vísu margt vel um það, ef stjórnarvöldin vilja taka upp þá stefnu að lækka skatta, en þó er það þá fyrst vel, ef þær lækkanir koma fátækustu stéttum þessa lands til góða. En í öllum þeim eftirgjöfum á sköttum, sem ég skal viðurkenna að eru orðnar nokkrar á síðustu tveimur árum og hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, hafa það fyrst og fremst og nær undantekningarlaust eingöngu verið ríkustu stéttirnar, sem hafa þessi fríðindi hlotið. Það hafa verið þeir, sem mestar tekjur og mestan gróða báru frá borði í þjóðfélaginu, sem hafa notið blessunar og velvildar hæstv. ríkisstj. í skattaeftirgjöfum.

Fyrir um það bil 7 vikum bárum við þingmenn Þjóðvfl. fram frv. hér á Alþingi um lækkun á ákveðnum skatti, sem sé söluskattinum. Ef hæstv. ríkisstj. hefði viljað á þá lækkun fallast, á þeim skatti, þá má telja fullvíst, að kjaradeila sú, sem nú hefur staðið í margar vikur og bakað þjóðinni mjög tilfinnanlegt tjón og allri alþýðu hér í Rvík, væri leyst nú fyrir nokkru. En þá munaði ríkissjóð um það; þá mátti ekki tala um að lækka skatta, og af hverju? Af því að það voru alþýðustéttir landsins, sem fyrst og fremst hefðu notið þeirra lækkana, og hæstv. ríkisstj. er ekki ríkisstj. þessara stétta. Hún situr ekki uppi í stjórnarráðshúsi til þess að berjast fyrir hag vinnandi fólks og alþýðustétta landsins. Hún á ekki að tryggja þeirra kjör og kaup þeirra stétta. Nei, hún er stjórn gróðafélaganna. Hún er stjórn olíufélaganna, og fyrir þær klíkur ber hún hér fram frv. um 20% eftirgjöf á sköttum. En frv. um lækkun á söluskatti var sent í nefnd hér í deildinni til þess að láta þar leggjast á það og svæfa það alveg, og það hefur tekizt með ágætum, enda form. n., hv. þm. V-HÚnv., með áratugareynslu í svæfingaraðferðum á þingfrv. Það hefur tekizt með þeim ágætum að svæfa þetta frv., að þó að við þm. Þjóðvfl. höfum borið fram þá réttlætiskröfu að fá að sitja hér við sama borð og aðrir þm. um það að fá mál tekin fyrir, þegar þingnefndir höfðu legið óeðlilega lengi á þeim, þá hefur það ekki einu sinni verið virt. Slík framkoma er að sjálfsögðu brot á öllum lýðræðis- og þingvenjum, en hv. stjórnarflokka munar ekki um að brjóta slíka hluti, þegar verið er að berjast fyrir málum, sem varða kjör og hag alþýðu landsins.

Á síðasta þingi voru sett ný lög um skatt einstaklinga. Þá voru í þau lög sett bráðabirgðaákvæði um skatt félaga og því jafnframt lofað mjög hátíðlega í mörgum ræðum hæstv. ráðherra hér á þinginu, að þessi bráðabirgðaákvæði skyldu ekki gilda nema til eins árs og að það væri nefnd starfandi af hálfu hæstv. ríkisstj. í málinu, og mundi hún hafa undirbúið málið, þannig að ríkisstj. gæti lagt fram frv. um skattalög félaga á þessu þingi. Nú segir hæstv. fjmrh., að sýnt sé, að svo verði ekki, það takist ekki að leggja fram þetta frv., sem var marglofað, og þess vegna á að framlengja þessi bráðabirgðaákvæði.

Nú eru þessi bráðabirgðaákvæði svo einstök og furðuleg í eðli sínu og svo ólík öllum meginreglum heilbrigðra skattalaga, að þau gera beinlínis ráð fyrir því, að þeim mun meiri gróða sem hin einstöku félög fá, þeim mun meiri eftirgjöf skuli þau fá af skattinum. Þannig á t.d. samkvæmt þessu félag, sem græddi svo mikið á einu ári, að það hefði átt eftir gömlu skattalögunum að borga 2 millj. kr. í skatta, að fá eftir gefnar af sköttunum 400 þús. kr., en fyrirtæki, sem græddi ekki meira en svo, að það ætti að borga 20 þús. kr. í skatta, fengi aðeins eftir gefnar 4 þús. kr. af sköttunum. Þetta er í sjálfu sér í fullu samræmi við það hlutverk, sem ríkisstj. er hérna að leika, í fullu samræmi við það, að hún er fyrst og fremst verndari mestu gróðafélaganna.

Í sjálfu sér væri full ástæða til að ræða þetta mál mjög ýtarlega og sérstaklega í sambandi við núverandi kjaradeilur, þar sem ég hygg, að ekkert mál, sem fyrir þessu þingi liggur, sýni jafnáþreifanlega afstöðu hæstv. ríkisstj. til kjaradeilunnar og sýni jafngreinilega, hverra hag Ríkisstj., sem fer með völd í landinu í dag, ber fyrir brjósti og hverra hag hún berst gegn. En þar sem þetta er aðeins 1. umr. þessa máls, mun ég ekki fara út í þau atriði núna.

Á síðasta þingi, þegar þessi bráðabirgðaákvæði voru samþ., bárum við þm. Þjóðvfl. fram brtt. þess efnis, að félögunum skyldi ekki gefið eftir nema 10% af útreiknuðum skatti í stað 20%. Sú brtt. var að sjálfsögðu felld af stjórnarliðinu sameinuðu. En ég mun taka til athugunar, hvort ekki væri rétt að bera þá brtt. fram aftur við 2. umr. þessa máls, og mun þá ef til vill fara fleiri orðum um þetta mál.